Færsluflokkur: Íþróttir

Aðeins 45 daga umhverfis jörðina

Skúta Peyron á hraðferð í metsiglingunni.

Frakkar eru miklir sægarpar og annálaðir skútusiglarar, það vita áhugamenn um siglingasport.

Um helgina setti einn slíkur, Loïck Peyron, heimsmet í viðstöðulausri siglingu umhverfis jörðina; var aðeins 45 daga, 13 stundir, 42 mínútur og 53 sekúndur á leiðinni.

Með þessu hlýtur Peyron Jules Verne til varðveislu en um hana hefur verið keppt frá og með 1992. Var ævintýraskáldsaga Verne, „Umhverfis jörðina á 80 dögum“, hvati að metsiglingatilraunum.

Frá því keppnin hófst hefur hnattsiglingametið verið bætt átta sinnum. Metið sem Peyron bætti var 48 dagar, sjö stundir og 45 mínútur, en það setti annar Frakki, Franck Cammas, í hitteðfyrra.  

Peyron, 4ði f.h., og áhöfn fagna í BrestSjómennska er fjölskyldu Loïck Peyron í blóð borin því bróðir hans, Bruno Peyron, varð fyrstur til að vinna Jules Verne styttuna, árið 1993. Þá sigldi hann umhverfis jörðina á 79 dögum, 6 klukkustundum og 16 mínútum.

Tvisvar missti hann metið en endurheimti í bæði skipti, fyrst árið 2002 er hann var 64 daga rúma á siglingu og 2005 er hann lagði leiðina að baki á 50 dögum, 16 stundum og 20 mínútum. Nú segist hann tilbúinn að gera atlögu að met á næsta ári, 2013, með yngri bróður sínum.  

Loïck Peyron vann afrekið á risaskútunni Banque Populaire V sem er þríbytna og lætur nærri að meðalhraðinn á siglingunni hafi verið 50 km/klst. Stóðst skútan álagið einstaklega vel en á henni var 14 manna áhöfn. Hún er 40 metra löng og getur náð rúmlega 110 km/klst hraða. Til samanburðar var þríbytna Cammas, Groupama 3, 31m50 metrar.  Og skúta Bruno á fyrstu metsiglingunni 25,65 metrar.

Ferillinn sem Peyron sigldi reyndist 53.172 km langur en Cammas fór styttri leið 2010 eða 52.824 km og bróðirinn Bruno enn skemmri spöl 2005, eða 49.990 km.

Um 5000 manns fögnuðu í mígandi rigningu á kajanum í Brest á vesturodda Frakklands er skútan sigldi í höfn. Margar skútur og bátar fylgdu henni síðasta spölinn. Í áhöfninni var einn Breti, Brian Thompson, sem hefur með þessu siglt fjórum sinnum umhverfis jörðina án viðkomu á leiðinni. 

 


Þolinmæði og 30.000 kaloríur

Í 400 km forkeppni frá Avranches í lok maí.

Þá er þrautin mikla framundan, hjólreiðin frá París til bæjarins Brest á vesturodda Frakklands og til baka. Alls 1230 kílómetrar sem ég verð að klára á rúmlega þremur og hálfum sólarhring. Hef að hámarki 90 stundir til verksins. Í reiðinni taka 5225 aðrir frístundahjólarar úr öllum heimshornum. Ballið byrjar undir kvöld á sunnudag.

Vegalengdin í keppninni París-Brest-París er 1230 km eða álíka og þjóðvegur 1 á Íslandi. Vestari helming leiðarinnar kannast ég ágætlega við; tók þátt í 600 km keppni á þeim hluta leiðarinnar í hitteðfyrra. Og svo ók ég austari helminginn á bílnum á heimleið frá París í fyrrasumar.

Hjólað verður um sveitavegi þar sem umferðarþungi er ekki verulega íþyngjandi og því er leiðin bæði krókótt og afar öldótt. Til dæmis er um 365 brekkur að fara, stuttar sem langar, sumar mjög brattar og aðrar sem eru nokkrir kílómetrar á lengd. Því segir það sig sjálft að ferðhraði verður ekki eins og á venjulegum dögum, heldur mun minni þar sem maður er að jafnt nótt sem nýtan dag.

Klifra 10-11 þúsund metra upp 375 brekkur

Samkvæmt útreikningum lækna- og næringarfræðinga, sem m.a. hafa tekið sjálfir þátt í reiðinni, ætti ég að brenna á bilinu 30 - 40 þúsund kaloríum á leiðinni. Á 90 klukkutímum. Er þá miðað við að 600 kaloríur þurfi fyrir hvern hjólaðan klukkutíma. Segir sig sjálft að maður verður að innbyrða nóg af orku á leiðinni og drekka býsnin öll af vatni og orkudrykkjum.

Þetta verður enginn hægðarleikur því til dæmis klifrar maður 10-11 þúsund metra upp allar brekkurnar. Þar sem maður endar á sama stað kemur heildar hæðarbreytingin út á núlli en gallinn er sá að niður brekkurnar endurheimtir maður ekki orkuna sem fór í að stíga hjólið upp þær!

Hér er um að ræða mikla prófraun á líkamlegt atgervi og ekki síður hið andlega því það mun reyna á viljastyrk; kjark og hugrekki að fara alla leið fram og til baka innan tímamarka. Árið 2007 rigndi lengstan part leiðarinnar en nú bjóða veðurspár aðallega upp á hitabylgju! Vonandi skúrar eitthvað til að fríska loftið.

Ég hef undirbúið mig nokkuð vel og farið gegnum 10 svona röll á bilinu 200-600 km undanfarin tvö ár og hef hjólað 50 þúsund kílómetra síðustu fjögur árin. Í 400 km ralli í lok maí nam klifrið til að mynda rúmum 4200 metrum sem er hlutfallslega ögn meira en í P-B-P.

„Ég þori, get og vil“

Geng þó til leiks af auðmýkt gagnvart verkefninu. Þar mun fyrst og fremst reyna á þolinmæði til að halda aftur af sér og brenna ekki of hratt fyrsta áfangann. Til að heiðra minningu Unnar Stefánsdóttir, nýlátins gamals félaga úr frjálsíþróttunum og samstjórnarmanns í Íþrótta- og ólympíusambandinu (ÍSÍ), fer ég til móts við hina miklu áskorun með kjörorð umbótanefndar ÍSÍ í kvennaíþróttum; „Ég þori, get og vil“. Í von um að það færi mér heill á leiðinni hef ég sett bæði merki ÍSÍ og Íþróttafélags Reykjavíkur (ÍR) á hjálminn minn og íslenski fáninn trónir á stelli hjólsins.

Ég áætla að vera eins og 60 stundir að hjóla en hef þá 30 tíma upp á að hlaupa til að borða, hvílast og mæta á kontrólstöðvar. Á leiðinni eru 14 slíkar sem við vitum um og tvær duldar – önnur á útleið hin á heimleið – sem við hittum ekki á nema rata rétta leið! Það getur tekið drjúga stund að fara í gegnum kontrólin, fá stimpil í ferðbókina og klára sig af vegna fjöldans.

Minn rástími er áætlaður klukkan 18 á sunnudag en ræst er í 400 manna hópum með 10-15 mínútna millibili til að mannskapurinn dreifist aðeins. Fer eftir því hvar í þeim ég lendi hvort brottför verður akkúrat klukkan sex eða eitthvað seinna.

A.m.k. 450 km í fyrsta áfanga

Stefnan er að fara vel á fimmta hundrað km í fyrsta áfanga áður en maður tekur sér hvíld og fleygir sér útaf í 5-6 tíma. Ná a.m.k. til Loudeac á Bretaníuskaga en þangað eru 450 km. Jafnvel komast lengra, eða 493 km til Saint-Nicolas-dePelem. Sem sagt helst að hjóla framundir næsta myrkur, þ.e. vera að í rúman sólarhring í fyrstu lotu. Það er planið og síðan ræðst það af framvindunni með frekari hvíldir en vonandi næ ég annarri álíka langri kríu sólarhring seinna eða svo. Og hafi ég nógan tíma upp á að hlaupa gríp ég þriðja tækifærið til að dotta agnarögn.  Ég mun í bakpoka og smátösku á bögglabera hafa a.m.k. tvennan klæðnað til skiptana þar sem áð verður og vonandi kemst maður í sturtu þar!

Þetta verður í fyrsta sinn sem ég legg upp í þessa vinsælu reið. Hún fer fram á fjögurra ára fresti og dregur til sín þátttakendur úr öllum heimsálfum. Fór fyrst fram árið 1891 og varð kappi að nafni Charles Terront fyrstur af um 100 þátttakendum. Verð ég innan um menn – og konur – sem hafa tekið jafnvel mörgum sinnum þátt.

Sagan segir að París-Brest-París reiðin hafi verið hvati þess að stofnað var til Frakklandsreiðarinnar miklu, Tour de France, árið 1903. Þessum viðburðum tveimur verður ekki jafnað saman en báðir eiga vinsældum að fagna hér í Frakklandi og munu íbúar meðfram leiðinni t.a.m. stilla sér upp meðfram leiðinni og hvetja þátttakendur. Þá munu húsfrúr víða dekka borð út á stétt og bjóða hjólurum upp á hressingu, svo sem kaffi og bakkelsi. Maður verður á köflum að heiðra þær fyrir hugulsemina og snerta á kræsingunum.

Fyrirmynd að Tour de France

Til  keppninnar 1891 skráðu sig 293 karlar og sjö konur en aðeins 209 mættu þó til leiks. Helmingur hafði fallið úr leik áður en komið til Brest, því þar sneru 106 til baka og komust 100 þeirra alla leið í mark í París. Terront mun hafa verið 71:35 stundir á leiðinni en meðaltími allra sem skiluðu sér í mark var 10 dagar! 

Framkvæmd reiðarinnar er ekkert smámál og eigum við það að þakka um 15 þúsund sjálfboðaliðum að þetta getur allt farið fram. Á laugardag verð ég að mæta til Parísar í skoðun með hjólið þar sem gengið verður úr skugga um að búnaður þess, ljós, bremsur o.fl. standist kröfur. Til dæmis má ekki vera með handahvílur eins og á þríþrautarhjólum og bremsur verða vera bæði aftan og framan. Og í myrkri er skylda að skrýðast endurskinsvesti.

Aðeins fleiri voru skráðir til leiks 2007 en í ár og ætli kreppa á alþjóaðvísu eigi ekki hlut að máli. Nú eru 5225 keppendur en voru 5311 fyrir fjórum árum, þar af útlendingar frá 45 löndum í meirihluta eða 3015. Þar af voru 606 frá Bandaríkjunum 387 frá Þýskalandi, 367 Ítalíu, 334 frá Bretlandi, 206 Spáni, 182 Danir, 123 Ástralir, 116 frá Kanada, 112 Japanir, 87 Svíar og 24 Norðmenn. Alls tóku 353 konur þátt, þar af 136 franskar.   Meðalaldurinn 2007 var 49,7 ár og er sagður 50 nú. Með mín 59 ár er ég því í efri hlutanum en þess má geta, að meðal þátttakenda eru 16 karlar 75 ára og eldri. Þeir geta verið seigir, ég flaut til að mynda með sex félögum gegnum 200 km forkeppnisreið fyrr á árinu og sá harðasti var sá elsti, 78 ára. Hann verður með í P-B-P.

Heimasíða París-Brest-París, bæði á ensku sem frönsku.

Skemmtileg mynd af leiðinni, hæðarprófílar einstakra áfanga og hæðargraf allrar leiðarinnar. Þarna segir að heildarklifur sé 9078 metrar. Hún er fengin af kortavefnum Openrunner.com en mælingar manna með GPS-tækjum hafa sýnt mun hærri tölur, milli 10 og 11 þúsund metra.  

Önnur mynd af leiðinni.

 

 

 

 


Mittismál að baki

Kominn heim úr hjólatúr

Mittismál jarðarinnar ku vera 40.076 kílómetrar. Einu sinni fannst mér þetta miklar tölur, en ekki lengur. Frá því ég byrjaði að hjóla hér í Frakklandi vorið 2007 hef ég lagt þessa vegalengd að baki og gott betur á æfinga- og útivistarferðum um Bretaníuskagann.

Fyrsta árið hjólaði ég nokkuð á fjórða þúsund kilómetra en árið 2008 urðu kílómetrarnir 12.183 og 13.557 í fyrra. Og í ár hef ég bætt um betur þrátt fyrir jarðbönn í janúar og nú í desember. Rauf í gær 14.000 km múrinn og setji ísing eða snjóar ekki strik í reikninginn ættu nokkur hundruð km að bætast við fyrir áramót. Í dag horfir ekki vel til hjólaferða næstu dagana, en það sem af er mánuðinum eru aðeins 585 km að baki.

Ég stefni að því að taka þátt í hinnu miklu reið frá París til Brest og til baka í ágústlok á næsta ári. Undir það hef ég búið mig í ár og í fyrra með þátttöku í allt að 600 km löngum reiðum. Þar hefur veður verið með ýmsum hætti og í 400 km ralli sem hófst klukkan sex að kvöldi rigndi stanslaust á keppendur í sjö tíma, frá klukkan 20 til þrjú um nóttina. Var ekki myrkrið bætandi en þjóðvegir til sveita í Frakklandi eru ekki raflýstir.

Vegalengdin í keppninni París-Brest-París er rúmlega 1200 km eða sem svarar þjóðvegi 1 á Íslandi. Hefur maður 80 eða 90 klukkustundir að klára dæmið, að meðtöldum hvíldum og matarstoppum. Svö mishæðótt er landslagið á leiðinni að maður klifrar samtals yfir 10.000 metra. Tel mig nú þekkja hana nokkuð vel; tók þátt í 600 km keppni á vestari helming hennar í fyrra og ók austari helminginn á bílnum á heimleið frá París í sumar.

Keppendur voru um 5700 síðast, árið 2007, úr öllum heimshornum, en mér skilst enginn Íslendingur hafi tekið þátt í þessari keppni sem fram hefur farið í um öld. Margir heltust úr lestinni 2007 vegna veðurs. Það rigndi nær allan tímann og veðurguðinn Kári kvað í jötunmóð og blés hressilega.

Með hjólamennskunni þarf ég ekki að hafa áhyggjur af eigin mittismáli og nú hef ég sigrast á umgjarðarmáli jarðarinnar.  Maður verður alltaf að hafa einhver viðmið, þau hvetja mann áfram.

Síðustu þrjú árin hafa kílómetrarnir á hjólinu fallið sem hér segir:

Mánuður 2008 km 2009 km 2010 km
janúar729 942580
febrúar829958791
mars9471406 1429
apríl1352 1115 1400
maí1829 1518 1872
júní673 1659 1161
júlí1345 1096 1352
ágúst16131427 1527
september928 486 1191
október588 943 1083
nóvember754 1125 1050
desember578 882 921
Samtals12.183 13.557 14.357

Bætt við 31.des:
Innrammaði árið með hjólatúr í dag og uppfærði töfluna fyrir desember og samtölu ársins. Hún er meira en ásættanleg.


Hörundslitur skiptir ekki máli

Christophe Lemaitre Evrópumeistari í 100 metra hlaupi

Menn þurfa ekki að vera svartir til að sigra í spretthlaupi. Það sannaði franski stráklingurinn og nýstúdentinn Christophe Lemaitre með eftirminnilegum hætti á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í gærkvöldi. Hann er fyrsti hvíti maðurinn til að hlaupa 100 metra á innan við 10 sekúndum.

Franskir íþróttamenn; tennisleikarar, hjólreiðamenn og nú Lemaitre, hafa heldur betur lyft brúninni á franskri þjóð eftir skandalann á HM í fótbolta. Fótboltamennirnir brugðust þjóð sinni ærlega þar og sitja um langan aldur í skammarkróknum. Stórstjörnurnar sjálfhverfu sem þar áttu í hlut eiga ekkert sameiginlegt með hjólreiðagörpunum sem glöddu landa sína í Tour de France og Lemaitre.

Christophe Lemaitre er hálfgert náttúrubarn og gjörsamlega laus við að vera uppfullur af sjálfum sér, eins og t.d. fótboltamennirnir Henry, Evra, Anelka og Ribery, svo einhverjir þeirra séu nefndir. Svo óhönduglega tókst þeim til á HM - innan vallar og ekki síður utan - að enginn 23 sem þangað voru sendir verða í næsta landsliði Frakklands, sem nýi landsliðseinvaldurinn velur senn til keppni við Norðmenn. Nei, þeir verða áfram í skammarkrók, og sama er mér því hér í landi er fullt af efnilegum strákum sem leysa munu þá marga af hólmi. 

Lemaitre er Evrópumeistari unglinga frá í fyrra og heimsmeistari unglinga frá í hitteðfyrra. Á EM unglinga í Novi Sad í fyrra setti hann Evrópumet unglinga, hljóp á 10,04 sek. Hann á franska metið í 100 metra hlaupi (9,98 sek) og jafnaði í sumar metið í 200 metrum, sem er 20,16 sek. Hann er nýorðinn tvítugur, fæddur 11. júní árið 1990 í Annecy í Suður-Frakklandi.

Sigur hans á EM fullorðinna á ólympíuleikvanginum í Barcelona í gær verður lengi í minnum hafður. Hann hljóp á 10,11 sekúndum gegn 1 m/s mótvindi. Besti tími hans er 9,98 sek. frá franska meistaramótinu í sumar. Hann er fyrsti Evrópumeistari Frakka í 100 metra hlaupi frá því 1962 er Claude Piquemal varð meistari. Árið 1990 var Daniel Sangoumaen nálægt því að vinna en varð annar.

Lemaitre hefur ekki leiðst þau tíðindi sem hann fékk eftir sigurinn, að uppáhalds fótboltalið hans, Olympique Marseilles, varð meistari meistaranna í Frakklandi með sigri á Paris SG í gærkvöldi. Hann er mikill unnandi liðsins og mun herbergi hans á heimili unga mannsins sprettharða í Aix-le-Bains vera þakið myndum af OM og félagsskrauti.

Hlaupið og aðdragandi þess var spennandi og Lemaitre hélt frábærri einbeitingu. Lét það ekki raska ró sinni þótt fyrirfram væri hann talinn sigurstranglegur. Það er einmitt sagður sérstakur hæfileiki hans að einangra sig frá umhverfinu í einbeitingunni. Sér hann þá ekkert né heyrir nema rásblokkina, brautina framundan og marklínuna.

Í ræsingunni virtist Lemaitre svifaseinni en hinir. En fann fljótt sinn takt, dró keppinautana uppi og sigldi svo fram úr á síðustu 30 metrunum. Tók á af öllum sálarkröftum, leit hvorki til hægri né vinstri, heldur beint áfram og gaf ekkert eftir fyrr en yfir marklínuna var komið. Svo mikið var hann í sínum eigin einbeitingarheimi - einangrunarkúlu eins og hann orðar það - að hann áttaði sig ekki á að hann hefði sigrað fyrr en eftir hlaupið.

Til að kóróna kvöldið hreppti Martial Mbandjock bronsverðlaunin meðgóðu „dippi“ á hárréttu augnabliki. Varð hann nefinu og skeggbroddunum á undan tveimur sem fengu sama tíma.

Maður bíður spenntur eftir að sjá Lemaitre og félaga í 4x100 metra boðhlaupinu og 200 metra hlaupinu. Undanrásir í þeirri grein hefjast í dag. Þegar hann var spurður í gærkvöldi hvort hann ætlaði ekki að fagna titlinum fram á nótt svaraði hann hiklaust: „Nei, nú fer ég beint í bælið, að sofa“.


Fimmti sigur Spánverja í röð í Tour de France

Þá er Frakklandsreiðinni [Tour de France] lokið. Eftir sitja ljúfar minningar um skemmtilega og drengilega keppni, en umfram allt mjög spennandi. Og fjölmörg dramatísk atvik vikurnar þrjár sem þessi þolraun stendur yfir.

Já, fyrir knapana er þolraunin meiri en í nokkurri annarri íþrótt. Þriggja vikna og tæpra 3600 kílómetra strit, m.a. upp og yfir hvern fjallgarðinn af fætur öðrum í Ölpunum og Pýrenneafjöllum. Í sól og bræðandi hita eða rigningu og kulda og öllu þar á milli. Ég vorkenni þeim þó ekkert - þetta er þeirra frjálsa og sjálfviljuga val - og sæki innblástur í þá er ég stíg á bak mínum hjólhesti!

Þetta er þó ekki alveg rétt því ég vorkenndi Lance Armstrong vegna ófara hans. Hvað eftir annað datt hann á hausinn og hlaut marga skrámuna fyrir vikið. Það dró þó vart úr honum baráttuandann nema mjög tímabundið því hann sýndi gamla takta og hörku er hann freistaði sigurs á einni leiðinni í Pýrenneafjöllum. En varð að játa sig sigraðan á síðustu metrunum.

Ég vissi lítið um persónuna Lance Armstrong, þekkti bara afrek hans, en er þessa dagana að lesa stórfína bók um lífshlaup hans sem kom út á Íslandi fyrir nokkrum árum. Einstök saga - og frábær bók.

Það er langt síðan túrinn hefur verið jafn spennandi og úrslitin óræð. Og þótt Alberto Contador hafi á endanum verið rúmlega hálfri mínútu lengur með 3.600 kílómetra en Andy Schleck þá verður að fara mörg ár aftur í tímann til að sjá jafn lítinn mun. Mér hafa tímatökur á einstaklingum sjaldan þótt spennandi en í þeirri sem fram fór á laugardag, næst síðasta degi reiðarinnar, var spennan lengi ótrúleg.

Schleck var 8 sekúndum á eftir Contador fyrir tímatökuna en lagði hratt af stað og saxaði smám saman á hana. Og eftir ekki svo mjög marga kílómetra var hann búinn að slétta muninn út. Klukkurnar sýndu lengi vel eina sekúndu til eða frá og spennan var í algleymingi. Með þessari taktík neyddi Schleck svo Contador, sem ræsti þremur mínútum seinna, til að gefa í frá byrjun.

Síðustu 20 kílómetrana af 54 herti Contador á sér og náði að endurheimta forystu sína og gott betur. Hann hefur löngum verið miklu betri í tímatökum en á laugardag fékkst staðfesting á því að á því sviði hefur Schleck farið gríðarlega fram. 

Lokareiðin til Parísar í gær var hálfgert formsatriði og snerist fyrst og síðast um hver yrði sprettharðastur upp Elysee-breiðgötuna, í átt að Sigurboganum.  Annað árið í röð sýndi Mark Cavendish hinn breski að enginn er fljótari á tveimur hjólum í heiminum en hann.

Þetta er fimmta árið í röð sem spænsku hjólagarpur vinnur Frakklandsreiðina og þriðji sigur Contadors. Hann vann 2007 og 2009 auk nú. Tvo þessa sigra fengu þeir í arf vegna lyfjamála, falls Floyd Landis 2006, Mikaels Rasmussen hins danska 2007 og Alexanders Vinokourov 2008.

Annars er það markvert fyrir túrinn í ár að enginn knapi féll á lyfjaprófi. Slíkt hefur ekki gerst á þessari öld en lyfjahneyksli hafa sett blett á túrinn og hjólreiðarnar um langt árabil. Gríðarleg barátta gegn þeim ófögnuði er að skila greinilegum árangri. Það ásamt hinni skemmtilegu keppni í ár - og góðri frammistöðu franskra hjólreiðamanna - hefur orðið til að auka veg og virðingu Frakklandsreiðarinnar á ný - og efla vinsældir.

Já, vinsældir túrsins eru einstakar. Meðfram vegum landsins þar sem hjólagarparnir fóru um, stilltu sér upp um 17 milljónir manna til að fylgjast með í návígi og hvetja hjólamennina. Milljónir horfðu á útsendingar frönsku ríkisstöðvanna France2 og France3. Og keppninni var sjónvarpað til tæplega 200 landa, misjafnlega mikið í beinni útsendingu þó. Hér í landin er sýnt beint frá keppninni og ýmsu sem henni tengist í um sex stundir á dag og sjónvarpssófinn því þrælsetinn undanfarið.

Ég er strax farinn að hlakka til Tour de France að ári.

 

 


Jafntefli í jötnaslagnum

Ansi er ég hræddur um að keppninni í Frakklandsreiðinni [Tour de France] sé í raun lokið. Og það þótt tveir áfangar séu enn eftir, en keppni lýkur í París á sunnudag. Jafntefli varð í jötnaslag Alberto Contador og Andy Schleck upp Tourmalet-tind í gær. Og í dag sá Norðmaðurinn Thor Hushovd á eftir grænu treyjunni og nær henni áreiðanlega ekki aftur.

Rimma Shcleck og Contador á Tourmaletfjalli, síðustu dagleiðinni í Pýrennafjöllum var frábær. Sá fyrrnefndi lét til skarar skríða er 10 km voru eftir af brekkunni linnulausu og óvægnu. Hvað eftir annað reyndi hann að breyta um rytma og takt en allt kom fyrir ekki, Contador var sem límdur við hann og sleppti honum aldrei frá sér. Féllust þeir í faðma á toppnum, en Schleck var fyrri yfir endamarkslínuna og vann þar með sína aðra dagleið í Frakklandsreiðinni að þessu sinni.

Contador hefur engan áfanga unnið en úr þessu getur líklega ekkert komið í veg fyrir að hann skrýðist gulu treyju sigurvegarans á Champs Elysée breiðgötunni í París á sunnudag. Verður það þriðja árið í röð sem hann sigrar. 

Keppnin hefur verið afskaplega skemmtileg á að horfa og með að fylgjast. Leitt þó að sjá Hushovd missa grænu treyjuna sem veitt er fyrir stigakeppni spretthörðustu garpanna. Hann hefur verið daufur í hópspretti í túrnum í ár og varð t.d. aðeins fjórtándi í dag.

Mark Cavendish vann áfangann slétta í dag til Bordeaux og saxar mjög á. Ítalinn Petacchi og Hushovd hafa skipst á að skrýðast treyjunni og klæddist sá fyrrnefndi henni eftir áfangann í dag. Er hann með 10 stiga forskot á Hushovd, 213-203, en Cavendish hefur verið að draga þá uppi og er nú með 197 stig.

Edvald Boasson Hagen freistaði sigurs í dag og var vel teymdur áfram af félögum sínum í lokin, en hafnaði í sjötta sæti. Er hann sjötti í stigakeppninni um grænu treyjuna, 152 stig. Hefur hann staðið sig vel á sínu fyrsta ári í túrnum.

 


Lance Armstrong stal senunni

Lance Armstrong sýndi mikla seiglu í Frakklandsreiðinni í gær og stal senunni með krafti sínum og baráttuvilja. Þótt ég haldi með frönsku hjólamönnunum lýg ég því ekki að í lengstu lög vonaði ég að sá gamli hefði sigur. Um 50 metrum frá marki var hann í öðru til þriðja sæti en þá var orrustan töpuð því Frakkinn Pierrick Fedrigo reyndist með mun meiri sprengikraft í lærunum og spretti fram úr. Armstrong gaf sig og lét sig rúlla eftir það í mark.

Fedrigo, langnefur eins og ég nefni hann sakir hins óvenju langa nefs sem prýðir andlit hans, var á heimavelli í Pau. Hann er frá þeim slóðum og vann sem afgreiðslumaður í hjólabúð sem er skammt frá rásmarkinu þar til hann gerðist atvinnumaður árið 2000, 22 ára gamall. Tvisvar áður hafði hann unnið dagleið í Tour de France.

Fedrigo er skemmtilegur náungi og baráttujaxl hinn mesti. Hann er liðsfélagi Thomas Voeckler sem vann daginn áður en lið þeirra berst fyrir tilveru sinni og leitar ákaft nýs aðalstyrktaraðila. Sigrar þeirra hjálpa eflaust til í þeirri leit og ennfremur er þriðji liðsmaðurinn, Anthony Charteau, efstur að stigum í keppninni um hvíu treyjuna með rauðu doppunum; treyju mesta klifrara túrsins.

Norðmaðurinn Thor Hushovd brosti sínu breiðasta á ný er hann endurheimti grænu treyju sprettmannanna. Varð tíundi í mark á fjallaleiðinni miklu og komst fram úr Ítalanum viðkunnanlega, Alessandro Petacchi. Hushovd er með 191 stig, Petacchi 187 og Bretinn Mark Cavendish 162 en mikið er enn eftir í stigapottinum og eflaust hafa hvorki Petacchi né Cavendish sagt sitt síðasta.

Þess má geta, að lið Armstrongs, RadioSchack, hefur forystu í keppni liðanna en þar er lagður saman tími nokkurra fremstu úr hverju liði í heildarkeppninni. 

Franskir hjólreiðamenn hafa unnið allar dagleiðirnar í Pýrenneafjöllunum til þessa, eða þrjár. Eftir er ein sem lýkur á morgun á tindi Tourmalet. Og í gær var um tvöfaldan sigur Frakka að ræða því Sandy Casar varð annar, en hann hefur þegar unnið eina dagleið í ár, þá níundu. Með árangri sínum, sigri á sex dagleiðum, hefur áhugi á túrnum eflst mjög. 

Það er seigla í gömlum görpum því meirihluti þeirra, sem voru í 10 manna hópnum er sleit sig lausan frá meginhópnum og barðist um sigur, er vel á fertugsaldri. Þrír þeirra 39 ára, þar á meðal Armstrong.

 


Cavendish brotnaði saman og sá austfirski aftur þriðji

Frakklandsreiðin (Tour de France) er frábær skemmtun. Ekki bara fyrir áhugamenn um hjólreiðar heldur fyrir alla unnendur íþrótta, og jafnvel fleiri. Í hitabylgjunni sem verið hefur undanfarna 10 daga eða svo hangir maður mest inni og þá er gott að hafa jafn frábært sjónvarpsefni til að stytta sér stundir. 

Edvald Boasson Hagen, sem á ættir að rekja til Reyðarfjarðar en þaðan er langafi hans, varð aftur þriðji á miklum og löngum endapretti. Gaman að sjá hvernig hann stillti sér upp fyrir aftan liðin tvö sem sáu um hraðann síðustu fjóra kílómetrana. Kom sér þar í skotstöðu og vann sig fram úr mörgum síðustu 200-300 metrana. Þarna er greinilega á ferðinni maður framtíðarinnar en hann geldur þess að hafa ekki mjög sterka liðsfélaga til að teyma sig áfram í keppni til sigurs. Verður því að láta sér nægja að hanga með öðrum og grípa þær gæsir sem kunna að gefast á lokametrunum.

Leiðin var meira og minna marflöt í dag og líður nú að fjallaleiðum Frakklandsreiðarinnar. Grunar mig að  afkomandi hins reyðfirska Edvalds Bóassonar, sem gerðist bóndi í Noregi, eigi eftir að lenda í vanda þegar í Alpana kemur. Vonandi hef ég rangt fyrir mér og gaman væri ef hann ætti eftir að vinna dagleið. Það er kannski til of mikils ætlast af manni sem er að keppa í Tour de France í fyrsta sinn. En með árangrinum í dag er hann kominn í fimmta sæti í keppni um grænu treyjuna, keppni hinna spretthörðu. Er með 64 stig en Hushovd er efstur með 102 og Cavendish komst á blað í dag, er með 50 stig í níunda sæti.

Dramatíkin var ekki minni í dag en í gær. Mark Cavendish hafði sigur og var ólíkur sjálfum sér frá í gær er hann hreinlega gafst upp á síðustu 100 metrunum. Nú hafði hann betri aðstoð og sýndi sitt gamla andlit með sigri á leið dagsins. Við spennufallið bugaðist hann á verðlaunapallinum og grét. Í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina France-2 endurtók það sig og mátti hann ekki mæla í tæpa mínútu og gróf andlit sitt í handklæði sem honum var rétt.

Tilfinningarík stund og þessi ungi en mikli garpur er auðvitað mannlegur eins og við öll hin. Honum hefur gengið ævintýralega vel í fyrra og hitteðfyrra. Vann m.a. sex dagleiðir túrsins í fyrra og fjölda annarra móta en var aðeins með þrjá sigra undir belti er að Frakklandsreiðinni kom. Og hefur sætt gagnrýni fyrir framferði sitt og sakaður um stærilæti. Allt óverðskuldað að hans sögn og hafði andróðurinn gert honum það erfitt fyrir að hann sagðist vera farinn að efast um getu sína til að sigra á ný.

Þess vegna var svo gaman að sjá kraftinn er hann  lét til skarar skríða er rúmir 100 metrar voru eftir í dag og vann. Nú hefur stráksi sýnt aftur að hann er besti sprettknapi heims og mér kæmi ekki á óvart þótt hann ætti eftir að vinna nokkrar leiðir í viðbót. Hann ætlar sér grænu treyjuna, sem veitt er fyrir stig í sprettkeppni Frakklandsreiðarinnar. Henni skrýðist Thor Hushovd hinn norski áfram. Komi til einvígis þeirra - svipað og í fyrra - þá verður það skemmtileg viðureign. Cavendish hefur verið mun veikari í fjalllendi en segist hafa undirbúið sig sérstaklega til að geta meira þar í ár.


Ögn af Íslendingi stendur sig vel í Frakklandsreiðinni

Alls staðar láta Íslendingar að sér kveða en í dag á fjórðu daglegið Frakklandsreiðarinnar (Tour de France) munaði minnstu að Norðmaður sem á íslenskan langafa hefði sigur. Þar á ég við um Edvald Boasson Hagen sem varð þriðji á gríðarlegum endaspretti.Boasson (l.t.v.) þriðji í Reims

Boasson Hagen er 23 ára og fæddur í Lillehammer í Noregi 17. maí, þjóðhátíðardaginn norska, eins og afi hans, Eðvald Bóasson frá Reyðarfirði. Sá fæddist árið 1893 og fór til náms í landbúnaðarfræðum í Noregi. Kvæntist hann norskri konu, Signe C. Knudsen, og settist að í Noregi. Gerðist bóndi í Dal-Nordre í Suður-Nittedal í Akershus, norðaustur af Ósló. Þá jörð keypti hann 1926 og bætti fleirum við sig síðar. Hann lést árið 1969.

Eðvald Bóasson hinn reyðfirski eignaðist þrjá sonu, Snorra, Tryggve og Edvald og er sá síðastnefndi afi hjólreiðagarpsins. Hann er bóndi í Dal og fæddur 1927. Ein dætra hans og móðursystir hjólagarpsins býr á Íslandi og þar á hann fleiri ættingja. 

Boasson yngri er bóndasonur frá Rudsbygd skammt frá Lillehammer og sem barn kaus hann að hjóla 4-5 km vegalengd í skólann og heim aftur í stað þess að taka skólabílinn. Fljótara var að hjóla, segir hann og þarna var líklega fræjum sáð sem hann uppsker af núna.Boasson vann stigakeppni Ómanreiðarinnar í ár og varð annar í 
heildina.

Í útsendingum frá Frakklandsreiðinni hefur norski fáninn verið áberandi um árabil, þökk sé frammistöðu Thors Hushovd. Nú er því að búast að fáninn sá verði enn meira áberandi þegar norsku toppmennirnir eru orðnir tveir með tilkomu Boasson Hagen.

 

Aðeins eru tvö ár frá því Boasson Hagen gerðist atvinnumaður. Réði hann sig til bandaríska liðsins High Road Columbia en keppir í ár fyrir Sky-liðið.

Í stigakeppninni um grænu treyjuna í Frakklandsreiðinni er Hushovd efstur með 80 stig en Boasson Hagen tíundi með 38 stig. Bætti hann mjög við sig með þriðja sætinu á leið dagsins  en þar lagði hann m.a. sprettkónganan Hushovd og Bretann Mark Cavendish að velli á gríðarlegum endaspretti.

Þessi ögn af Íslendingi sló í gegn í fyrra með heildarsigri í Bretlandsreiðinni (Tour of Britain) en þar vann hann fjórar dagleiðir og með tveimur áfangasigrum í Ítalíureiðinni (Giro d'Italia). Hann er öflugur einn síns liðs í kappi við klukkuna því fjögur ár í röð er hann norskur meistari í tímatöku af því tagi. Hér í Frakklandi hefur Boasson Hagen átt góðu gengi að fagna og unnið margan sigurinn. Til dæmis tvær dagleiðir af sjö í Bretaníuskagatúrnum 2007, þá fyrri hérna spölkorn frá mér. 

Auk þessara öflugu Norðmanna tveggja eru nokkrir danskir knapar í keppninni og verður fróðlegt að fylgjast með þessum frændum vorum næstu vikurnar.

 


90 flugu á hausinn

Í þá árafjöld sem ég hef fylgst með Frakklandsreiðinni á hjólum (Tour de France) minnist ég ekki eins mikilla sviptinga á láglendi eins og síðustu daga. Og garparnir eru statt og stöðugt á hausnum, ekki bara í gær heldur einnig í dag en hjólað var að hluta til á fornum steinagötum sem reynir hrikalega á mann og hjól.

Frakkinn Sebastien Chavanel vann gulu treyjuna í gær og virtist í rúma 190 km af 213 ætla að halda henni í dag - og það þrátt fyrir að hafa dottið og þurft að skipta um hjól í dag. Sá draumur fjaraði út á síðustu 20 km er tvisvar sprakk dekk á steinakafla. Þar með missti hann af keppinautum og treyjan rann úr greipum hans.

Og það var enginn annar en Fabian Cancellara frá Sviss sem endurheimti treyjuna gulu eftir að hafa tapað henni í gær. Þá fórnaði hann sér og hægði ferðina til þess að þeir sem féllu á leið niður af fjalli einu í Belgíu. Þar lá tæplega helmingur keppenda í valnum eða 90 knapar. Meðal þeirra allir helstu garparnir; Lance Armstrong, Alberto Contador og Andy Schleck. Flestir skildu eftir talsvert hörund á rennblautu malbikinu en allir stóðu upp þótt skellurinn væri harður, enda flestir á um 60 km/klst hraða er þeir duttu.

Cancellara fórnaði sér í gær og hálfvegis aftur í dag er hann hélt mikilli ferð svo liðsfélagi hans Schleck gæti náð forskoti á Armstrong og Contador. Það gekk eftir, enda garparnir tveir í vandræðum, m.a. tafðist Armstrong er dekk sprakk hjá honum en ekki er eins auðvelt og fljótlegt að fá viðgerð eða nýtt hjól á steinagötunum þar sem aðstoðarbílarnir eru ekki í sömu nánd við keppendur og á götum úti.

Andy Schleck hefur hingað til notið góðrar aðstoðar eldri bróður síns, Franck, en þess nýtur hann ekki lengur því sá síðarnefndi vibeinsbrotnaði í falli í dag og er úr leik.

Hushovd sterkur þó stutt sé frá viðbeinsbroti

Norðmaðurinn Thor Hushovd fylgdi fremstu mönnum eins og skugginn í dag og vann dagleiðina á endaspretti. Er það sjöunda dagleiðin sem hann vinnur í Frakklandsreiðinni. Hreppti hann í leiðinni grænu treyjuna og er markmið hans að vinna hana í ár, eins og í fyrra og 2005. 

Árangur Hushovd er athyglisverður því hann viðbeinsbrotnaði í óhappi í maí en er kominn á fullt skrið aftur.

Annar keppinautur styrkti stöðu sína verulega í dag, Ástralinn Cadel Evans. Slóst hann við Hushovd um sigur í lokin og er nú þriðji í heildarkeppninni; 39 sek á eftir Cancellara og 1:01 mínútu á undan Contador og 1:56 á undan Armstrong.

Andy Schleck er sjötti í heildina eftir daginn og 31 sekúndu á undan Contador og 1:26 mín. á undan Armstrong.

Breti slær í gegn

Bretinn Geraint Thomas í Sky-liðinu hefur komið skemmtilega á óvart en hann varð annar í dag og er orðinn annar í heildarkeppninni, 23 sekúndum á eftir Cancellara. 

Contador átti í erfiðleikum á steingötunum enda óvanur slíkum aðstæðum og varð á endanum 1:13 mínútum á eftir fyrstu mönnum. Vegna bilana missti Armstrong af fremri hópunum en sýndi mikla hörku síðustu 20 km við að reyna minnka bilið. Hann varð á endanum 2:08 á eftir. Verra fyrir hann er hið mikla forskot sem Contador hefur náð á hann, 55 sekúndur.

Contador er í níunda sæti í heildina, 1:40 á eftir Cancellara og Armstrong er talsvert aftar. Fyrir Contador er það ekki sérlega skemmtilegt að maðurinn sem reyndi að draga hann áfram og vinna fyrir hann, Alexander Vinokourov, lauk keppni nokkru fyrr og er sæti framar og níu sekúndum á undan í heildina.

Ef síðustu dagar eru forsmekkur af því sem koma skal rúmlega næstu tvær vikurnar þá á eftir að vera fjör að fylgjast með Frakklandsreiðinni.

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband