Mittismál að baki

Kominn heim úr hjólatúr

Mittismál jarðarinnar ku vera 40.076 kílómetrar. Einu sinni fannst mér þetta miklar tölur, en ekki lengur. Frá því ég byrjaði að hjóla hér í Frakklandi vorið 2007 hef ég lagt þessa vegalengd að baki og gott betur á æfinga- og útivistarferðum um Bretaníuskagann.

Fyrsta árið hjólaði ég nokkuð á fjórða þúsund kilómetra en árið 2008 urðu kílómetrarnir 12.183 og 13.557 í fyrra. Og í ár hef ég bætt um betur þrátt fyrir jarðbönn í janúar og nú í desember. Rauf í gær 14.000 km múrinn og setji ísing eða snjóar ekki strik í reikninginn ættu nokkur hundruð km að bætast við fyrir áramót. Í dag horfir ekki vel til hjólaferða næstu dagana, en það sem af er mánuðinum eru aðeins 585 km að baki.

Ég stefni að því að taka þátt í hinnu miklu reið frá París til Brest og til baka í ágústlok á næsta ári. Undir það hef ég búið mig í ár og í fyrra með þátttöku í allt að 600 km löngum reiðum. Þar hefur veður verið með ýmsum hætti og í 400 km ralli sem hófst klukkan sex að kvöldi rigndi stanslaust á keppendur í sjö tíma, frá klukkan 20 til þrjú um nóttina. Var ekki myrkrið bætandi en þjóðvegir til sveita í Frakklandi eru ekki raflýstir.

Vegalengdin í keppninni París-Brest-París er rúmlega 1200 km eða sem svarar þjóðvegi 1 á Íslandi. Hefur maður 80 eða 90 klukkustundir að klára dæmið, að meðtöldum hvíldum og matarstoppum. Svö mishæðótt er landslagið á leiðinni að maður klifrar samtals yfir 10.000 metra. Tel mig nú þekkja hana nokkuð vel; tók þátt í 600 km keppni á vestari helming hennar í fyrra og ók austari helminginn á bílnum á heimleið frá París í sumar.

Keppendur voru um 5700 síðast, árið 2007, úr öllum heimshornum, en mér skilst enginn Íslendingur hafi tekið þátt í þessari keppni sem fram hefur farið í um öld. Margir heltust úr lestinni 2007 vegna veðurs. Það rigndi nær allan tímann og veðurguðinn Kári kvað í jötunmóð og blés hressilega.

Með hjólamennskunni þarf ég ekki að hafa áhyggjur af eigin mittismáli og nú hef ég sigrast á umgjarðarmáli jarðarinnar.  Maður verður alltaf að hafa einhver viðmið, þau hvetja mann áfram.

Síðustu þrjú árin hafa kílómetrarnir á hjólinu fallið sem hér segir:

Mánuður 2008 km 2009 km 2010 km
janúar729 942580
febrúar829958791
mars9471406 1429
apríl1352 1115 1400
maí1829 1518 1872
júní673 1659 1161
júlí1345 1096 1352
ágúst16131427 1527
september928 486 1191
október588 943 1083
nóvember754 1125 1050
desember578 882 921
Samtals12.183 13.557 14.357

Bætt við 31.des:
Innrammaði árið með hjólatúr í dag og uppfærði töfluna fyrir desember og samtölu ársins. Hún er meira en ásættanleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

góður gústi, vildi að ég væri svona duglegur!!!

Magnús Haraldsson (IP-tala skráð) 28.12.2010 kl. 10:29

2 identicon

Glæsilegur árangur Gústi. Bestu óskir um gott gengi í 1200 km í Paris-Brest-Paris.

Atli (IP-tala skráð) 28.12.2010 kl. 10:59

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þakka ykkur hvatninguna, Maggi og Atlil cyklemester.

Ágúst Ásgeirsson, 28.12.2010 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband