Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fylgismælendum mistókst

Sarkozy og HollandHörð gagnrýni kom fram strax í gærkvöldi á stofnanir sem fást við mælingar á fylgi vegna forsetakosninganna í Frakklandi. Þeim hefur skjöplast og sitja þær nú uppi með ásakanir um hafa reynt að hafa áhrif á kjósendur með „plöntuðum“ niðurstöðum, eins og starfsfræðsluráðherrann Nadine Morano hélt til dæmis fram á kosningavöku í sjónvarpi.

 Mælingar á fylgi frambjóðenda höfðu verið gerðar ótt og títt undanfarið hálft ár. Allar sem ein og á öllum stigum vanmátu þær fylgi Marine Le Pen, frambjóðenda Þjóðfylkingarinnar, öfgaflokks hægrimanna. Hins vegar ofmátu þær undanfarna tvo mánuði eða svo fylgi vinstri öfgamannsins Jean-Luc Melenchon.

Einnig voru útgönguspár þessara stofnana nokkuð fjarri hinni endanlegu niðurstöðu kosninganna. Þær gerðu ráð fyrir hærra kjörfylgi Francois Hollande en raun varð á og flestar að Nicolas Sarkozy hlyti verri útkomu en niðurstaðan sýnir.

 Fylgi Þjóðfylkingarinnar var einnig vanmetið 2002, þegar stofnandi hennar og faðir núverandi frambjóðanda, Jean-Marie Le Pen, komst í aðra umferð gegn Jacques Chirac. Hlaut hann 16,86% í fyrri umferðinni eða nokkru hlutfallslega minna en Marine. Varð fylgi hans 3,3 prósentustigum meira en síðustu fylgiskannanir, tveimur dögum fyrir kjördag, sýndu.

Hlutur Marine Le Pen var 18,2% þegar aðeins var eftir að telja 1,15 milljónir atkvæða sem greidd voru utan Frakklands og áhrifasvæða þess. Er það einnig talsvert meira en spáð var því síðustu fylgismælingar bentu til að hún fengi milli 14 og 16% atkvæða. Skekkjan er því sem svarar 13-23%. Og frambjóðandi flokksins hefur aldrei hlotið jafn mikið fylgi og hún.

Jean-Luc Melenchon, frambjóðandi Vinstrifylkingarinnar, veðjaði á að hann myndi leggja Le Pen að velli. Kannanir höfðu á stundum undir það síðasta sýnt hann með sama fylgi eða meira en hún, allt að 15%. Niðurstaðan varð hins vegar 11,1%. Þegar hann hóf kosningabaráttu sína í fyrrahaust mældist fylgi hans aðeins 5%. Melenchon situr á Evrópuþinginu – eins og Marine Le Pen – en þau eiga það sameiginlegt að rækta starf sitt þar verr og mæta sjaldnar til þings en flestir sem þar sitja.

Kjörsókn miklu meiri en spáð var

Við þetta má svo bæta, að könnunarfyrirtækin hin mörgu spáðu því að kjörsókn yrði tæpast nema kringum 60%, á þeirri forsendu að franskur almenningur bæri hverfandi traust til stjórnmálamanna og teldi aukinheldur að engu skipti hver með völdin færi, pólitíkusarnir væru allir eins. Reyndin varð önnur, þrátt fyrir frí og leiðinda rigningarveður streymdu Frakkar á kjörstað, kjörsókn var um 79,5%.

 


Sakfelling Chiracs kom á óvart

Sakfelling Jacques Chiracs fyrrum forseta Frakklands kom flestum á óvart. Ekki síst þar sem saksóknari hafði fallið frá refsikröfu. Verjandi Chiracs sagði að dómurinn væri þungur en yrði þó tæpast til að draga úr þeirri virðingu sem hann sagði þjóðina bera fyrir forsetanum fyrrverandi.

Chirac krafðist sýknu af ákærunni en var sakfelldur fyrir spillingu og fyrir að hafa misnotað fé Parísarborgar í tíð sinni sem borgarstjóri í þágu stjórnmálaflokks síns, RPR. Var 21 flokksgæðingur á launum hjá borginni 1991-1995 án þess að vinna handtak í ráðhúsinu. 

Fréttaskýrendur velta því fyrir sér hvort dómurinn hafi einhverjar breytingar í för með sér. Eins og til dæmis hvort lög um friðhelgi þjóðhöfðingja í embætti verði afnumin. Hefðu þeirra ekki notið við væri málinu væntanlega lokið fyrir mörgum árum. Ýmsir höfðu verið dæmdir í tengslum við þetta mál en bíða þurfti eftir að Chirac léti af starfi til að hægt væri að taka á þætti hans.

Forsetinn fyrrverandi hélt því alltaf fram að hann hafi ekki vitað af greiðslunum en játaði pólitíska ábyrgð á þeim. Samdi hann við Parísborg fyrir 2-3 árum að bæta fyrir þær með tveggja milljóna evra peningagreiðslu. Borgaði hann 500.000 evrur úr eigin vasa og UMP-flokkurinn það sem á vantaði, 1,5 milljónir evra. Af þeim sökum sagði borgin sig að sínu leyti frá málinu. 

Stjórnmálamenn lýstu því að þetta mál væri eiginlega alltof gamalt til að fella dóm í því sem þennan. Fannst mér það ekki sérlega viðeigandi af forsætisráðherranum Fillon því með því skautaði hann framhjá þeirri staðreynd að Chirac var friðhelgur í 12 ár sem húsbóndi í Elyseehöllu.

Spurningin er svo hvort þessi fyrsta sakfelling fyrrverandi forseta Frakklands verði til að draga eitthvað úr pólitískri spillingu hér í Frakklandi. Af fréttum undanfarin ár mætti ætla hún hafa verið grasserandi allt fram á þennan dag.

 

 


Chirac á sakamannabekk

Sá sögulegi atburður á sér stað í Frakklandi í dag, að réttur verður settur yfir Jacques Chirac fyrrverandi forseta vegna meintrar spillingar í valdatíð hans sem borgarstjóri Parísar.

Hann er sakaður um að hafa misnotað almannafé með því að setja vini og pólitíska samstarfsmenn á launaskrá hjá borginni. Í ráðhúsinu störfuðu þeir ekki heldur í þágu flokks Chiracs og hans sjálfs, samkvæmt ákæruskjölum.

Hér er um sögulegan atburð að ræða þar sem Chirac er fyrsti fyrrverandi franski þjóðarleiðtoginn sem dreginn er fyrir rétt frá því Petain marskálkur var dæmdur fyrir landráð eftir seinna stríðið.

Og þótt aðalkærandinn, Parísarborg, hafi dregið sig út úr málinu hefur því verið haldið áfram. Borgin dró sig út úr málinu eftir að sættir tókust við borgarstjórann fyrrverandi.  

Í sættinni fólst að Chirac borgaði hálfa milljón evra úr eigin vasa og flokkur hans, UMP, 1,7 milljónir evra, vegna launagreiðslanna umdeildu.

Chirac hefur ávallt neitað því að hafa misfarið með fé borgarinnar. Það á að hafa gerst í valdatíð hans á árunum 1977 til 1995, eða áður en hann var kjörinn forseti Frakklands 1995.

Upphaflegur saksóknari málsins taldi sönnunargögn ekki duga til sakfellingar og vildi fella málið niður. Tvenn hagsmunasamtök tóku upp þráðinn, héldu málinu á lofti og hafa nú fengið því til leiðar komið, að af réttarhöldum verður.

Verjendur Chiracs hafa reynt að fá málið fellt niður og búist er við að fyrsti dagurinn fari í þrætur um formsatriði og frekari kröfur um niðurfellingu.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að heilsu Chiracs hafi hrakað mjög undanfarna mánuði. Eiginkona hans, Bernadette, hefur þó vísað á bug fregnum um að hann sé með Alzheimer-sjúkdóminn. Og ekki var annað að sá á sjónvarpsfréttum frá landbúnaðarsýningunni í París í febrúarlok að hann væri býsna ern.

Samkvæmt lögum er Chirac ekki skylt að sækja réttarhaldið en hann hefur engu að síður boðað komu sína í vitnastúkuna á morgun, þriðjudag. Verði hann sakfelldur gæti forsetinn fyrrverandi verið dæmdur í allt að 10 ára fangelsi.


Stórtækt sígarettusmygl stöðvað

Upp úr braski og ólöglegri starfsemi virðist gott að hafa, ef marka má tilraunir manna til að smygla sígarettum til Frakklands. Í nóvember og desember hafa tollverðir í hafnarborginni Le Havre einni og sér gómað 51 tonn af sígarettum.

Góssið var að finna í sex gámum sem fluttir voru frá löndum í Suðaustur-Asíu til Frakklands. Verðmæti farmsins er talið 13 milljónir evra, um tveir milljarðar króna. Komu þeir til Le Havre á tímabilinu 17. nóvember til 17. desember. Sérstakur búnaður er gegnumlýsir gámana stuðlaði að fundi þessum.

Gámunum var skipað út í Malasíu, Víetnam og Singapúr en ekki liggur endanlega fyrir í hvaða landi framleiðslan átti sér stað. Vindlingarnir voru í pökkum sem báru tegundarmerkingarnar Richman, Saint-Thomas, Capital og Business. Já, ætli þetta sé ekki góður bisness þótt stöku sendingar séu stöðvaðar á leiðinni. Hermt er að góssið umrædda hafi átt að setja á markað í Frakklandi og Bretlandi. 

Eflaust ná tollverðir ekki nema hluta þess sem reynt er að smygla en alls hafa hinir vösku verðir í Le Havre, helstu flutningahöfn Frakklands, gert 120 tonn af sígarettum upptæk á árinu.  



Þurfa leiðtogar að veikjast til að öðlast stuðning?

Þurfa þjóðarleiðtogar eða háttsettir ráðamenn að veikjast til að ná augum og eyrum landa sinna og öðlast aukins stuðnings þeirra? Þannig hef ég spurt sjálfan mig eftir að ný könnun sýnir mikla fylgisaukningu við Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta. Yfir hann leið á dögunum er hann skokkaði á Versalasvæðinu að morgni sunnudagsins 26. júlí sl.

Sarkozy var fluttur á spítala en útskrifaður daginn eftir. Honum var fyrirskipað að hvílast. Er hann nú í sumarleyfi á landareign tengdaföður síns á suðurströnd Frakklands. Atvikið hefur líklega orðið til þess að hann hefur hægt á líkamsrækt sinni.  Að sama skapi virðist það hafa haft áhrif á vinsældir hans. 

Fjórum dögum seinna kannaði CSA-stofnunin afstöðu kjósenda til Sarkozy. Reyndust stuðningur við hann hafa aukist um 12 prósentustig frá samskonar könnun í maí. Sögðust 53% ánægð með frammistöðu forseta síns en 41% í maí. Í nýjustu könnuninni sögðust aðeins 38% óánægð með frammistöðu Sarkozy í starfi, miðað við 55% fyrir þremur mánuðum. Munar þar 17%.

Spurt var álits á líkamsrækt forsetans og skiptist þátttakendur í tvennt í afstöðunni til þess. Svöruðu 51% því til að hann ætti að hlýða læknum sínum og nota sumarleyfið til að hvíla sig rækilega. Hinn helmingurinn, eða 49%, sagðist ekkert hafa á móti íþróttaiðkun Sarkozy.

Spurt var einnig um afstöðu til persónuleika forsetans og kom hann betur út á öllum sviðum en í síðustu könnun. Þannig sögðu 63% hann viðfelldinn náunga og 80% sögðu hann duglegan og kjarkmikinn. Loks sögðu 90% hann kraftmikinn og framkvæmdasaman. Helmingurinn, eða 50%, sögðu hann í nánum tengslum við þjóðina en þeirrar afstöðu voru aðeins 36% í maí.  

Fjölmiðlar fengu vissa ábendingu úr könnuninni, því 60% aðspurðra sögðu þá hafa gert alltof mikið úr yfirliði Sarkozy. Voru sjónvarpsstöðvar m.a. með beinar útsendingar frá lóð sjúkrahússins sem hann dvaldist á í sólarhring.

 

Sarkozy styrkist í sessi

Sól Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta hækkar á lofti í samræmi við árstímann, ef marka má niðurstöður nýrra skoðanakannana á fylgi hans í framhaldi af stórsigri flokks forsetans (UMP) í kosningum til Evrópuþingsins 7. júní.

 

Samkvæmt könnun Opinion­Way-Le Figaro-LCI í vikunni fengi Sarkozy enn meiri stuðning í fyrstu umferð en 2007 færu forsetakosningar fram nú. Hefur hann meira forskot á helstu andstæðinga sína í dag, en þegar forsetakosningarnar fóru fram fyrir röskum tveimur árum.

 

Þá fékk Sarkozy 31,18% atkvæða í fyrri umferðinni en fengi 33% nú, samkvæmt könnun Opinion­Way-Le Figaro-LCI. Segolene Royal fengi sama fylgi og síðast, 21%, en Francois Bayrou aðeins 13% en hann fékk 20% atkvæða í fyrri umferðinni 2007. Anti-kapitalistinn Olivier Besancenot fengi 8% atkvæða eða prósentu minna en 2007. Aftur á móti bætti Jean-Marie Le Pen við sig, fengi 9% núi í stað 7% síðast.

 

Spurt var einnig hvernig viðkomandi myndu kjósa væri Martine Aubry, leiðtogi Sósíalistaflokksins, í forsetaframboði í stað Royal. Fékk hún minna fylgi eða 19%. Það sem hana vantar af fylgi Royal skiptist milli Bayrou og Besancenot því Sarkozy hlaut sama hlutfall atkvæða sem fyrr, 33%.

 

Samkvæmt könnun TNS-Sofres í síðustu viku fjölgaði þeim sem traust bera til Sarkozy um níu prósent, úr 32% í 41%, frá apríl og fram í júní. Þeim sem voru öndverðrar skoðunar og bera ekki traust til hans fækkaði um 8 prósent, eða úr 65% í 57%.

 

Miðað við niðurstöður könnunarinnar í apríl, sem voru Sarkozy mun óhagstæðari en nú,  naut hann meiri stuðnings eftir tvö ár á valdastóli heldur en Jacques Chirac, forveri hans, naut eftir jafn langa vist í Elyseehöllu. Til Chiracs báru aðeins 22% traust en 65% ekki. Francois Mitterrand stóð örlítið betur eftir tvö ár við völd, 30% báru þá traust til hans en 54% lýstu vonbrigðum með hann þá, eða 1983.


Sarkozy segir búrkuna niðurlægingartól, ekki trúartákn

Söguleg stund átti sér stað í þingsalnum í Versalahöllu rétt fyrir utan París í dag. Þar flutti  Frakklandsforseti ræðu á þingfundi í fyrsta sinn í 136 ár. Þar talaði hann fyrir frekari umbótum á frönsku samfélagi en athygli vakti að hann talaði gegn því að konur gengju í búrkum í Frakklandi. Sagði hann klæðnaðinn sem hylur konur frá hvirfli til ilja kjallaravæða konur; búrkan væri niðurlægingartól en ekki trúartákn.

Eftir ræðuna sneri Sarkozy aftur til hallar sinnar í París en í kvöld heldur hann kvöldverð til heiðurs furstanum af Qatar, Sheik Hamad Bin Jassem Al Thani. Eflaust ber búrkur á góma undir kvöldverðinum því algengt er að kvenkyns þegnar furstans skrýðist þeim á almannafæri, jafnvel undir stýri.

Sarkozy sagði búrkuna ekki eiga heima í Frakklandi og væri beinlínis illa séða. Lýsti hann stuðningi við hugmyndir um að stofnuð verði þingnefnd til að gera úttekt á notkun búrka í Frakklandi og gera tillögur um ráðstafanir vegna þess. Hægrimenn eru flestir taldir fylgjandi aðgerðum gegn notkun búrka en andstaða hefur mest verið í röðum sósíalista. Þá hafa helstu samtök múslima í Frakklandi lagst gegn stofnun þingnefndarinnar.

Megin rök þeirra sem ekki vilja afskipti af búrkunotkun er að bann gæti storkað múslimum í Frakklandi og þeir litið á það sem útskúfun. Engan hljómgrunn eiga þeir hjá forsetanum. „Við getum ekki fallist á að konur séu fangar á bak við hulu í landinu okkar. Klipptar frá öllu félagslífi, sviptar auðkennum sínum,“ sagði Sarkozy við langt og kröftugt lófaklapp.

„Búrkan er ekki trúartákn, heldur tákn um undirlægjuhátt, tákn niðurlægingar - það segi ég í fullri alvöru. Hún verður ekki vel séð í franska lýðveldinu,“ sagði hann.

Árið 2004 voru sett lög í Frakklandi er bönnuðu skólastúlkum að bera höfuðklúta og önnur meint trúartákn á skólalóðum. Var það tilefni eldheitra umræðna heima fyrir og erlendis en fleiri múslimar búa í Frakklandi en nokkru öðru vestrænu Evrópuríki, eða um 5 milljónir.

 


Gemsinn bannaður í frönskum grunnskólum

Farsímar verða bannaðir í frönskum grunnskólum og símafyrirtækjum verður gert skylt að bjóða upp á síma sem einungis er hægt að nota til að senda textaskilaboð. Þetta er gert til þess að lágmarka hættu á heilsutjóni barna. Sem stendur liggur einungis bann við símanotkun inni í skólastofum.  Þá kemur til álita að takmarka farsímanotkun franskra barna enn frekar. Áður en eitthvað verður ákveðið í þeim efnum verður beðið niðurstöðu franskra og alþjóðlegra rannsókna á meintri skaðsemi farsíma.

Til að takmarka hættu á heilaskaða af völdum rafsegulgeislunar frá símum verða símafyrirtækin sömuleiðis skylduð til að bjóða upp á hátalaralausa síma sem einungis  verður hægt að nota með því að tengja heyrnartól við þá.

Þetta er gert í framhaldi af sex vikna yfirlegu og umfjöllunar sérfræðinga um geislun frá farsímum,  þráðlausum fjarskiptabúnaði og fjarskiptasendum. Samtök sem áttu aðild að samráðsvettvangi um þetta efni vildu sum hver, að gengið yrði miklu lengra. Vildu þau banna börnum undir 14 ára aldri að meðhöndla farsíma og að útsendingartíðni fjarskiptamastra yrði takmarkaður stórlega auk þess sem staðsetning mastranna yrði takmörkunum háð.

Að sögn heilbrigðisráðherrans, Roselyne Bachelot, vildu stjórnvöld ekki grípa til aðgerða gegn möstrunum þar sem engar vísbendingar væru fyrir hendi um skaðsemi þeirra fyrir fólk og skepnur.

Tilraunir verða gerðar í þremur borgum til að kanna hvort draga megi að skaðlausu úr útsendingarstyrk senda. Fjöldi samtaka um land allt hefur krafist þess að sendimöstur nálægt skólum, sjúkrahúsum og heimilum verði tekin niður. Geislun frá þeim er iðulega sögð valda svefnleysi, höfuðverk,  þreytu og jafnvel krabbabeini.

Dæmi eru um að dómstólar hafi fallist á kröfur um að sendimöstur verði fjarlægð. Það veldur símafyrirtækjunum áhyggjum, ekki síst þar sem engar sannanir þykja vera fyrir hendi um meinta skaðsemi þeirra.

Til dæmis kom áfrýjunarréttur í Versölum á óvart er hann fyrirskipaði símafyrirtækinu Bouygues að rífa sendimastur í bænum Tassin-la-Demi-Lune, skammt frá Lyon. Fjölskyldur þar óttuðust um heilsu sína. Dómararnir féllust á að engar vísbendingar um hættu væru fyrir hendi. Þeir sögðu á móti, að það væri heldur engin trygging fyrir því að hættan væri ekki til staðar. „Óttatilfinning“ íbúanna í grennd mastursins væri því réttlætanleg. Úrskurðuðu dómararnir því þeim í hag samkvæmt varúðarreglunni svonefndu.

Vegna rannsókna sem þykja benda til að þráðlaus tækni geti verið skaðleg hefur víða um land verið slökkt á þráðlausu netsambandi, t.d. í bókasöfnum.punktar

 


Opinberum starfsmönnum fækkar um 34.000 í Frakklandi

Með því að ráða aðeins í annað hvert opinbert starf sem losnar verða opinberir starfsmenn í Frakklandi 34.000 færri á næsta ári en þegar Nicolas Sarkozy tók við forsetastarfi fyrir tveimur árum.

Þetta staðfestir efnahags- og fjármálaráðherrann Christine Lagarde í viðtali við blaðið Le Monde.

Við fækkunina lækkar launakostnaður ríkisins um milljarð evra. Helmingi ávinnings hefur Sarkozy heitið að renni til þeirra opinberu starfsmanna sem eftir eru í formi launaviðbótar.  

Í aðeins einum ríkisgeirans verður reglunni um að ráða ekki nema í eitt starf af hverjum tveimur sem losna.

Heilbrigðisgeirinn verður undanskilinn enda mikill skortur á fólki, t.d. til starfa á spítulum.

 


Gómaður 29 árum eftir morð

Franskur karlmaður var hnepptur í gæsluvarðhald í gærkvöldi, sem er sosum ekki í frásögur færandi nema sakir þess að hann mun hafa á samviskunni morð á fjórum 17 til 26 ára konum á árunum 1980 til 1983.

Maðurinn er í haldi í sýslunni Essonne en morðin áttu sér stað við N20-þjóðveginn skammt frá borginni Etampes, suðvestur af Parísarborg, í tilgreindri sýslu.

Líffsýni sem fannst á vettvangi kom upp um manninn; sæði í bréfþurrku skammt frá einu fórnarlambanna gerði sérfræðingum kleift að greina ADN-kjarnsýrur hans.  Hins vegar fannst hann ekki fyrr en í gær. Eftir er að greina frá því hvernig það bar að, að öðru leyti en því að það var erfðaefni hans sem kom honum að lokum undir hendur réttvísinnar.

Lögreglan verst fregna af handtökunni, m.a. vegna þess að hugsanlega teljast brotin fyrnd.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband