Eva Joly dæmd fyrir meiðyrði

Eva Joly, dómarinn fyrrverandi, sat fyrir skömmu á sakamannabekk í meiðyrðamáli sem júdókappinn og íþróttaráðherrann David Douillet höfðaði á hendur henni. Dómur gekk í gær og var Joly sakfelld.

Henni var úrskurðuð 1.000 evra sekt í ríkissjóð og hún dæmd til að borga málskostnað ráðherrans, 3000 evrur, auk þess sem hún var dæmd til að borga honum þær táknrænu miskabætur sem hann krafðist, eina evru. 

Forsaga málsins er sú að í hitteðfyrra, árið 2009, bar Eva Joly júdókappann fyrrverandi þeim sökum, að hann geymdi fé á reikningum í skattaparadísinni Liechtenstein. 

Dómarar sem dæmdu Joly snupruðu hana og sögðu að hún ætti sem fyrrverandi dómari að vita að henni væri óheimill slíkur áburður á opinberum vettvangi ef hún hefði engin sönnunargögn til að styðja sitt mál. Sögðu þeir, að hún hafi sýnt af sér kæruleysi með yfirlýsingum sem hún hafi haft í frammi án þess að hafa kynnt sér málið eða byggt það á bjargföstum staðreyndum.

Eva Joly hefur ákveðið að áfrýja dóminum. Sektargreiðslan er skilorðsbundin og fellur niður að tilteknum tíma liðnum haldi hún skilorðið. Þótt dómurinn þykir ekki góðar fréttir fyrir hana í aðdraganda forsetakosninganna næsta vor segist Joly ætla halda kosningabaráttu sinni ótrauð áfram og láta hann í engu koma sér úr jafnvægi.

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Merkilegar upplýsingar. Dálítið í ætt við allt hennar ferli á Íslandi. Fyrst sagði hún að rannsókn Sértaks tæki tíma. Svo hoppar hún nýlega í viðtal við Egil Helgason, og þá er heimur og jörð að farast.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 10.12.2011 kl. 06:45

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Merkilega lítlar mætur á Evu Joly hjá tilteknum hópi manna á Íslandi.

Hver skyldi nú ástæðan vera?

Árni Gunnarsson, 10.12.2011 kl. 12:16

3 Smámynd: Jónas Egilsson

Merkilegt er hve hátt hún er skrifuð hér á landi, þessi kona.

Jónas Egilsson, 14.12.2011 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband