Aðeins 45 daga umhverfis jörðina

Skúta Peyron á hraðferð í metsiglingunni.

Frakkar eru miklir sægarpar og annálaðir skútusiglarar, það vita áhugamenn um siglingasport.

Um helgina setti einn slíkur, Loïck Peyron, heimsmet í viðstöðulausri siglingu umhverfis jörðina; var aðeins 45 daga, 13 stundir, 42 mínútur og 53 sekúndur á leiðinni.

Með þessu hlýtur Peyron Jules Verne til varðveislu en um hana hefur verið keppt frá og með 1992. Var ævintýraskáldsaga Verne, „Umhverfis jörðina á 80 dögum“, hvati að metsiglingatilraunum.

Frá því keppnin hófst hefur hnattsiglingametið verið bætt átta sinnum. Metið sem Peyron bætti var 48 dagar, sjö stundir og 45 mínútur, en það setti annar Frakki, Franck Cammas, í hitteðfyrra.  

Peyron, 4ði f.h., og áhöfn fagna í BrestSjómennska er fjölskyldu Loïck Peyron í blóð borin því bróðir hans, Bruno Peyron, varð fyrstur til að vinna Jules Verne styttuna, árið 1993. Þá sigldi hann umhverfis jörðina á 79 dögum, 6 klukkustundum og 16 mínútum.

Tvisvar missti hann metið en endurheimti í bæði skipti, fyrst árið 2002 er hann var 64 daga rúma á siglingu og 2005 er hann lagði leiðina að baki á 50 dögum, 16 stundum og 20 mínútum. Nú segist hann tilbúinn að gera atlögu að met á næsta ári, 2013, með yngri bróður sínum.  

Loïck Peyron vann afrekið á risaskútunni Banque Populaire V sem er þríbytna og lætur nærri að meðalhraðinn á siglingunni hafi verið 50 km/klst. Stóðst skútan álagið einstaklega vel en á henni var 14 manna áhöfn. Hún er 40 metra löng og getur náð rúmlega 110 km/klst hraða. Til samanburðar var þríbytna Cammas, Groupama 3, 31m50 metrar.  Og skúta Bruno á fyrstu metsiglingunni 25,65 metrar.

Ferillinn sem Peyron sigldi reyndist 53.172 km langur en Cammas fór styttri leið 2010 eða 52.824 km og bróðirinn Bruno enn skemmri spöl 2005, eða 49.990 km.

Um 5000 manns fögnuðu í mígandi rigningu á kajanum í Brest á vesturodda Frakklands er skútan sigldi í höfn. Margar skútur og bátar fylgdu henni síðasta spölinn. Í áhöfninni var einn Breti, Brian Thompson, sem hefur með þessu siglt fjórum sinnum umhverfis jörðina án viðkomu á leiðinni. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gústi gaman að fá fréttir einhverju sem sem gaman er að

Deddi (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 21:37

2 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Svo er einn sérstakur og skemmtilegur franskur siglingakappi sem gaman er að kynnast. Francis Joyon. http://www.trimaran-idec.com/francis_joyon_portrait.asp

Sigurjón Jónsson, 10.1.2012 kl. 10:51

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sæll Deddi, gott ef skrifin gleðja menn og mér finnst nauðsynlegt að geta svona afreka.

Já, Joyon er mikill garpur og hefur margt siglingametið sett og góða sigra unnið. Og þeir eru miklu fleiri frönsku skútugarparnir enda gríðarlega rík siglingahefð hér í landiog mikil keppni um sigur í stórkeppnum sem smærri mótum.

Ágúst Ásgeirsson, 10.1.2012 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband