Fylgismælendum mistókst

Sarkozy og HollandHörð gagnrýni kom fram strax í gærkvöldi á stofnanir sem fást við mælingar á fylgi vegna forsetakosninganna í Frakklandi. Þeim hefur skjöplast og sitja þær nú uppi með ásakanir um hafa reynt að hafa áhrif á kjósendur með „plöntuðum“ niðurstöðum, eins og starfsfræðsluráðherrann Nadine Morano hélt til dæmis fram á kosningavöku í sjónvarpi.

 Mælingar á fylgi frambjóðenda höfðu verið gerðar ótt og títt undanfarið hálft ár. Allar sem ein og á öllum stigum vanmátu þær fylgi Marine Le Pen, frambjóðenda Þjóðfylkingarinnar, öfgaflokks hægrimanna. Hins vegar ofmátu þær undanfarna tvo mánuði eða svo fylgi vinstri öfgamannsins Jean-Luc Melenchon.

Einnig voru útgönguspár þessara stofnana nokkuð fjarri hinni endanlegu niðurstöðu kosninganna. Þær gerðu ráð fyrir hærra kjörfylgi Francois Hollande en raun varð á og flestar að Nicolas Sarkozy hlyti verri útkomu en niðurstaðan sýnir.

 Fylgi Þjóðfylkingarinnar var einnig vanmetið 2002, þegar stofnandi hennar og faðir núverandi frambjóðanda, Jean-Marie Le Pen, komst í aðra umferð gegn Jacques Chirac. Hlaut hann 16,86% í fyrri umferðinni eða nokkru hlutfallslega minna en Marine. Varð fylgi hans 3,3 prósentustigum meira en síðustu fylgiskannanir, tveimur dögum fyrir kjördag, sýndu.

Hlutur Marine Le Pen var 18,2% þegar aðeins var eftir að telja 1,15 milljónir atkvæða sem greidd voru utan Frakklands og áhrifasvæða þess. Er það einnig talsvert meira en spáð var því síðustu fylgismælingar bentu til að hún fengi milli 14 og 16% atkvæða. Skekkjan er því sem svarar 13-23%. Og frambjóðandi flokksins hefur aldrei hlotið jafn mikið fylgi og hún.

Jean-Luc Melenchon, frambjóðandi Vinstrifylkingarinnar, veðjaði á að hann myndi leggja Le Pen að velli. Kannanir höfðu á stundum undir það síðasta sýnt hann með sama fylgi eða meira en hún, allt að 15%. Niðurstaðan varð hins vegar 11,1%. Þegar hann hóf kosningabaráttu sína í fyrrahaust mældist fylgi hans aðeins 5%. Melenchon situr á Evrópuþinginu – eins og Marine Le Pen – en þau eiga það sameiginlegt að rækta starf sitt þar verr og mæta sjaldnar til þings en flestir sem þar sitja.

Kjörsókn miklu meiri en spáð var

Við þetta má svo bæta, að könnunarfyrirtækin hin mörgu spáðu því að kjörsókn yrði tæpast nema kringum 60%, á þeirri forsendu að franskur almenningur bæri hverfandi traust til stjórnmálamanna og teldi aukinheldur að engu skipti hver með völdin færi, pólitíkusarnir væru allir eins. Reyndin varð önnur, þrátt fyrir frí og leiðinda rigningarveður streymdu Frakkar á kjörstað, kjörsókn var um 79,5%.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband