Kjósendur Hollande ekki sólgnir í hann

Útlit er fyrir að Frakkar fái nýjan forseta á sunnudag. Nái Francois Hollande kjöri er það ekki vegna þess að meirihluti kjósenda sé sólginn í hann sem forseta. Heldur vegna þess hversu margir hægrimenn hafa snúið baki við Nicolas Sarkozy og vilja hann ekki lengur.

Þetta er viðurkennd staðreynd og mikið til umræðu meðal stjórnmálaskýrenda, í sjónvarpi, útvarpi og blöðum hér í Frakklandi. Þeir eru sammála um að Hollande verði helst að vinna sigur með rúmlega 53% til að hann geti talist afdráttarlaus. Nýjustu fylgismælingar gefa honum 52,5 til 53 prósent en mjög hefur dregið saman með þeim Sarkozy síðustu vikurnar. Allt undir 52% myndi teljast sem of knappur sigur fyrir Hollande og veikja stöðu hans. 

Sarkozy hlaut rúmlega 53% í kosningunum 2007 og þáverandi frambjóðandi sósíalista, Segolene Royal 47%. Lýsti hún því sem miklum sigri svo ljóst er að fyrrverandi sambýlismaður hennar og barnsfaðir, Hollande, mun uppskera meira nú.

Frakkar eru ótrúlega óþolinmóðir og snúast margir gegn Sarkozy þar sem lítið hefur orðið úr loforðum hans, m.a. um aukinn kaupmátt og öflugt atvinnulíf. Önnur atriði spila inn í eins og andúð á lífsstíl forsetans. Þetta fólk lítur alveg framhjá afleiðingum efnahagskreppu en Frakkar hafa þó farið betur út úr henni en flestar þjóðir að Þjóðverjum undanskildum. Og þetta fólk fylkir sér um Hollande þótt flestir séu sammála um að stefna hans sé ekki til þess fallin að bæta ástandið, jafnvel að gera það enn verra. Hann boðar aukin ríkisumsvif þótt ríkið skuldi rúmlega 1700 milljarða evra, en þær nema rúmlega 90% af vergri landsframleiðslu. Afborganir af þeim nema 180 milljörðum evra á ári og vextir 43 milljörðum.

Sérfræðingar á fjármálamarkaði segja líkur á áhlaupi vogunarsjóða og spekúlanta og skortstöðutökum sem geti átt eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Og ekki síst þær að Hollande neyðist til að falla fljótt frá loforðum sínum í efnahags- og atvinnumálum til að geta haldið sjó með aðhaldi og niðurskurði og niðurgreiðslu skulda - með öðrum orðum fara þann veg sem Sarkozy hefur sagst ætla fara.

Verði þetta raunin kæmi mér ekki á óvart þótt ókyrrð yrði í landinu og það mun fyrr en margur heldur.

Það gerir kosningarnar enn athyglisverðari - fari þær eins og kannanir benda til - því stjórnmálaskýrendur eru sammála um að meirihluti Frakka sé hægrisinna, eða 52-32% hið minnsta. Aftur á móti séu vinstrimenn í mesta lagi 44 til 45% kjósenda.

Já, frönsk stjórnmál eru um margt óvenjuleg og skemmtileg. Norðurlandabúa eins og mér finnst ansi margt mótsagnakennt í orðum og athöfnum. Átökin geta verið sérdeilis óvægin og hörð og á öðru plani en við eigum að venjast. Bókstaflega örlar oft á hatri og spilling er áberandi í röðum kjörinna fulltrúa, og það ekki síður á vinstri vængnum sem þeim hægri. Ég efast oft um jarðsamband hinnar pólitísku elítu enda í henni aðallega fólk af efnastétt og úr aristókratíunni - til dæmis Hollande og Royal - sérþjálfað í sérstökum elítuskólum. Sarkozy er einn örfárra sem ekki hefur gengið þann veg.

 

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband