Færsluflokkur: Bloggar

Fjórða kappsiglingin milli Frakklands og Íslands ákveðin 2009

Þá liggur fyrir að siglingakeppnin frá Frakklandi til Íslands og til baka, Skippers d’Islande, fer næst fram árið 2009. Í stað þess að sigla fram og aftur frá Íslendingabænum Paimpol á Bretaníuskaga eins og í fyrstu þremur keppnunum verður á  bakaleið frá Íslandi siglt til annars fornfrægs útgerðarbæjar, Gravelines í Normandí.

Markmið keppnisstjórnarinnar er að 40 skútur fáist til leiks, í keppnisflokkunum "class 40" og "IRC". Siglingaleið keppninnar er a.m.k. 2.950 sjómílur og er fyrsti leggurinn sá lengsti, frá Paimpol til Reykjavíkur, eða 1.210 mílur.

Keppnin hefst 27. júní 2009 í Paimpol og liggur leiðin út Ermarsund og sunnan Írlands og Scillyeyja til Íslands. Annar leggur hefst í Reykjavík 7. júlí og verður þá sigld 1.130 mílna leið framhjá Færeyjum og Hjaltlandi og niður Norðursjó til Gravelines.  Lokaleggurinn hefst svo 16. júlí og þá siglt til Paimpol. Þangað eru 250 mílur frá Gravelines, sem var mikil miðstöð útgerðar á Íslandsmið, svo sem lesa má um í bók Elínar Pálmadóttur um sjósókn Frakka á Íslandsmið á öldum áður.

Ég fylgdist með upphafi keppninnar í Paimpol í fyrra. Það var tilkomumikil sjón, ánægjuleg upplifun og eftirminnileg. Kom snemma dags til bæjarins og var fram yfir miðnætti. Stemmningin var einstök en frá Paimpol var stunduð mikil útgerð til Íslands á 19. öld og fram eftir þeirri tuttugustu. Manna á meðal er þar enn talað um Íslendingabæinn. Þar minnir gata, Íslendingagata (Rue des Islandais), upp frá höfninni að miðbænum á tengslin yfir hafið og eitt helsta veitingahús bæjarins, niður undir höfn, heitir Íslendingurinn (L'Islandais). Íslenski fáninn blakti víða við hún í bænum síðustu daga fyrir keppnina.

Nafn bæjarins er bretónskt að uppruna. Ef leggja ætti það út á íslensku verður næst merkingunni komist með því að kalla hann Vatnsenda.

Fjöldi skúta var í höfn vegna keppninnar, þar á meðal gamlar og glæsilegar gólettur, álíka þeim sem sóttu á sínum tíma á Íslandsmið. Sigldi öll hersingin út á ytri höfnina en þar voru keppendur ræstir af stað. Um borð í fylgdarskipum voru mörg hundruð manns til að hvetja keppendur af stað. Báturinn sem ég var í fylgdi skútunum eftir einar 10 mílur á haf út áður en snúið var til hafnar fyrir myrkur.

Sérstök heimasíða er helguð siglingakeppninni, www.skippersdislande.org. Þar verður fjörugra og meira um fréttir og upplýsingar er nær dregur. Tvær ágætar síður um þennan fagra upphafsstað keppninnar, Paimpol, er að finna á slóðunum http://www.paimpol.net/ og http://www.ville-paimpol.fr/ Keppnin 2009 verður sú fjórða í röðinni, hin fyrsta fór fram þúsaldarárið, 2000, síðan 2003 og 2006.  Á þeirri fyrrnefndu (http://www.paimpol.net/galeries/photos.php) má sjá myndir frá upphafi keppninnar 2006.

 

 


Mitterrand á einni þotu og hjákonan á annarri - allt á kostnað ríkisins

Þegar Mitterrand forseti fór í jólafrí til Egyptalands flaug hann á einni þotu og sendi hjákonuna með annarri. Almannafé var notað til að borga brúsann. Þetta sagði Sarkozy forseti er hann svaraði gagnrýni á að hafa flogið í jólafrí að Nílarbökkum á Falcon-einkaþotu vinar síns.

Sarkozy sagðist ekkert sjá athugavert við að hafa þegið boð um afnot af þotu auðkýfingsins Vincent Bolloré. Ekki einni einustu krónu af skattfé almennings hafi verið varið til ferðalagsins. Það sagði hann mestu máli skipta og spurði hvers vegna fjölmiðlar hefðu ekki spurt forvera sína um þeirra einkaferðalög, sem öll hefðu verið á kostnað ríkisins.  

„Það vissu það allir en þið sögðuð aldrei neitt og spurðuð aldrei út í það,“ sagði Sarkozy við hátt í þúsund blaðamenn sem sóttu blaðamannafund hans í Elyseehöllinni í gær og skírskotaði til einkaferðalaga Mitterrands þar sem hann hefði notað eina þotu fyrir sig og fjölskyldu sína og aðra fyrir hina fjölskyldu hans, hjákonuna og laundóttur hans.

Hann fjallaði í sömu andrá um ástarsamband þeirra Carla Bruni og sagðist ekki vilja fela samband þeirra eða leika einhverja leiki, svo sem Mitterrand gerði á sínum tíma. Gátu fjölmiðlar ekki um  ástarsamband þeirra Anne Pingeot fyrr en það hafði staðið árum saman og laundóttur forsetans með henni, Mazarine, orðin tvítug er ljóstrað var upp  um "hina" fjölskyldu Mitterrands.

Mitterrand og Pingeot fóru margsinnis saman í frí að Nílarbökkum.

 


Geldur ekki ásta Bruni

Það er líkast til bábilja að halda því fram að samhengi sé á milli þverrandi trausts í garð Nicolas Sarkozy forseta og sambands hans við Carla Bruni, ofurfyrirsætuna fyrrverandi. Sá frásagnarmáti er líkast til frá engilsaxneskum blaðamönnum kominn því ekki eru þessi tvö mál tengd saman með þessum hætti í Frakklandi.

Þvert á móti segja sérfræðingar fyrirtækja og stofnana sem vinna skoðanakannanir fyrir fjölmiðla, að ekkert samasem merki megi setja þarna á milli. Fólk sé fyrst og síðast spurt hvort það treysti forsetanum til tilgreindra eða ótilgreindra verka.

Þegar kafað sé dýpra og menn spurðir hvort ástarmál forsetans hafi áhrif á afstöðu þeirra er svarið nei. Og þeir sem ákveðnastir séu í stuðningi við Sarkozy og treysti honum mest sé þeir einu sem láti  í ljós óánægju með hversu hann flíki sambandi þeirra.

 


Sarkozy vill auglýsingar burt úr ríkissjónvarpsstöðvunum

Kannski sér maður fram til þeirra tíma að geta horft á sjónvarp hér í Frakklandi án þess að auglýsingar teygi á dagskránni. Alltjent sagðist Sarkozy forseti á blaðamannafundi í morgun vilja stoppa allar auglýsingar á ríkisstöðvunum, sem eru margar og ágætar.

Sarkozy sagðist vilja skoða þetta mál á næstunni. Hann sagði að bæta yrði stöðvunum upp tekjumissinn af auglýsingabanni með því að skattleggja auglýsingatekjur einkastöðvanna og með sérstökum skatti á veltu net- og farsímafyrirtækja.

Þarna fannst mér forsetanum bregðast bogalistin því nær hefði verið að ætla að hann lokaði eða seldi eitthvað af þessum urmul sjónvarps- og útvarpsstöðva sem ríkið rekur. Af nógu er að taka hér í landi og einkastöðvar ná betur eyrum almennings, samkvæmt áhorfsmælingum.

Sarkozy sagðist ennfremur óska þess að tvær sjónvarpsstöðvar og ein útvarpsstöð myndu renna saman í eina öfluga stöð, France Monde, þegar í ár. Ætti hún ekki að senda bara út á frönsku, eins og hann sagði. Forsetinn vill að TV5, France 24 og útvarpsstöðin Radio France Internationale, sameini þannig krafta sína. Ein þeirra, France 24,  hefur sent út á þremur rásum allan sólarhringinn; á frönsku, ensku og arabísku.

Yfirlýsingar Sarkozy um auglýsingabann á ríkisstöðvunum leiddu til mikillar hækkunar á hlutabréf einkastöðvanna TF1 og M6. Bréf þeirrar fyrrnefndu hækkuðu um 9,94% og þeirrar síðarnefndu um 4,49%. Þá hækkuðu bréf Bouygues, móðurfélags TF1, um 3,07%. 

 


Sádar vilja ekki að Bruni fylgi Sarkozy

Háttsettir embættismenn í Saudi-Arabíu hafa hvatt Sarkozy forseta til að virða íhaldssama íslamska menningu Saudi-Arabíu og skilja unnustu sína, Carla Bruni, eftir í París er hann heldur í opinbera heimsókn til Saudi-Arabíu næstkomandi sunnudag, 13. janúar.  

Bruni fylgdi Sarkozy í jólafrí til Egyptalands en í lok þess fundaði hann með Hosni Mubarak forseta. Um nýliðna helgi lá leið þeirra til Jórdaníu þar sem Sarkozy ræddi við Jórdaníukonung. Egypskir embættismenn gagnrýndu franska forsetann opinberlega fyrir að deila herbergi með Bruni meðan á dvöl þeirra stóð þar í landi.

Saudi-Arabar munu tiltölulega íhaldssamari í þessum efnum en Egyptar og meina t.d. ógiftum vestrænum pörum að deila hótelherbergi. 

Háttsettur ótilgreindur sádi-arabískur embættismaður sagði að Sarkozy bæri af trúarlegum ástæðum og viðkvæmni málsins að skilja Bruni eftir. Hann skildi við konu sína Ceciliu í október sl. en komst í tygi við Bruni aðeins nokkrum vikum seinna.

Íslamskar reglur eru túlkaðar með þeim hætti í Saudi-Arabíu, að ógift par eða maður og kona sem eru ókunnug mega ekki dveljast saman útaf fyrir sig.

Heimildir í París í dag herma, að einskis sé að óttast því Bruni hafi engin áform um að fara til Saudi-Arabíu í fylgd Sarkozy forseta.

 


Bjargaðist úr köldum sjó þremur stundum eftir að togarinn fórst

Kraftaverk þykir að portúgalskur háseti á frönskum togbát, P'tite Julie, skyldi bjargast eftir að skipið fórst undan Bretaníuskaga sl. nótt. Áhöfn björgunarþyrlu fann hann í köldum og úfnum sjónum þremur stundum eftir skipskaðann. Sagði hún það slembilukku að hann skyldi sjást í nætursjónauka.

Maðurinn var á t-skyrtu og nærbrók einum fata og sjórinn var aðeins 11°C heitur. Hann tjáði björgunarmönnum að einungis um stundarfjórðungi áður en hann fannst hefði ungur félagi hans gefist upp, örmagnast og sokkið.  

Sjálfur var hann þrekaður mjög og líkamshitinn hafði lækkað umtalsvert er honum var bjargað og komið undir læknishendur á sjúkrahúsi í Brest. Hann sagði skipverja hafa flesta verið í koju er óhappið varð. Sjálfur rauk hann upp í brú er sá sem þar var á vakt kom niður í skip og lét vita hvernig komið var. Hann sagði engan tíma hafa verið til að nálgast björgunarvesti og ekki um annað að ræða en fleygja sér í sjóinn til að dragast ekki niður með skipinu. Hefði hann náð í baujukippu sem varð til þess að hann gat haldið sér á floti.

Lík tveggja sjómanna fundust í dag en fjögurra er enn saknað. Litlar líkur þykja á að þeir hafi komist af því slysið bar mjög snöggt að, höfðu fulltrúar strandgæslunnar frönsku eftir hásetanum sem komst af.

Orsakir slyssins sem varð um klukkan fimm í morgun að frönskum tíma, klukkan fjögur að nóttu til á Íslandi, þykja óljósar. Skipverjum tókst að senda út neyðarkall. Illt var í sjó en togarinn sökk um 50 km undan eynni Vierge. P'tite Julie var 24 metra langt skip, smíðað 1991 en ætíð vel við haldið. Kom það úr klössun í desember sl. og þótti fyrsta flokks.

 


Skilar þetta sér ekki aftur í ríkissjóð í aukinni neyslu?

Stenst það hagfræðina að tala um að eitthvað kosti ríkissjóð, eins og Vilhjálmur segir um aukinn  persónuafslátt? Og gleymir hann ekki að reikna þá hvað mikið af þessari kjarabót skilar sér aftur í ríkissjóð í formi virðisauka o.s.frv.? Lækkun skatta jafngildir verulegri hækkun kaupmáttar og það er augljóst að menn eyða aukaseðlunum sem þeir hefðu milli handa með skattalækkun.

 


mbl.is Aukinn persónuafsláttur kostar 40 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10 teiknimyndabækur á dag

Frakkar eru að sönnu mikil bókaþjóð. Útgáfa teiknimyndabóka ber því glöggt vitni, en í þær eru landsmenn sérdeilis sólgnir. Munu nær 10 slíkar hafa komið út að jafnaði dag hvern í ár, og eru þá allir 365 dagar ársins taldir með.

Samkvæmt útreikningum samtaka franskra bókagagnrýnenda voru gefnar út 4.300 teiknimyndatitlar á nýliðnu ári. Þar af 3.312 nýir titlar en afgangurinn eru endurútgáfa eldri bóka.

Kemur þetta fram frétt stærsta blaðs Frakklands, Ouest-France. Þar segir jafnframt að útgáfa teiknimyndabók hafi aukist ár frá ári síðustu 12 árin í röð.

Því fer fjarri að teiknimyndabækur séu þær einu sem gefnar eru út hér í landi. Í einni viku í október sl. komu t.d. út um 700 nýir bókartitlar.

 

 


Sarkozy vill heiðra fleiri konur, ekki bara karla!

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hefur gert ráðherra og æðstu yfirmenn ráðuneyta afturræka með því að hafna tillögum þeirra um orðuveitingar um áramótin. Of mikið var af körlum á listum þeirra, og alltof mikið af opinberum embættismönnum og stjórnmálamönnum.

Nú hamast yfirmenn í ráðuneytum við að smíða nýja lista yfir þá sem forsetinn mun sæma viðurkenningum í byrjun árs því Sarkozy fleygði listunum sem þeir lögðu fyrir hann um áramótin.

Drottnandi á fyrstu listum voru ríkisstarfsmenn og stjórnmálamenn. Líka alltof mikið af körlum, sagði hann. Af 1.340 tillögum um fólk til að hljóta næstæðstu orðu ríkisins, Ordré du Merite, var aðeins þriðjungur konur. Hermt er að Sarkozy vilji a.m.k. jafn margar konur verði sæmdar orðunni og karlar, en slíku jafnvægi hefur aldrei verið náð áður.

Hermt er að aldrei fleiri konur hafi verið tilnefndar en nú til æðstu heiðursviðurkenningarinnar, Légion d'Honneur. Listann átti að birta á nýjársdag en það dregst vegna óánægju forsetans með fyrstu tillögur ráðuneytanna. Sarkozy vildi að jafnt yrði með kynjunum til þeirrar sæmdar en óvíst er að það takist nú.

Að sögn Le Monde var Sarkozy einnig óhress með listana þar sem á þeim voru of margir hvítir menn. Bað hann að nýjar tillögur endurspegluðu fjölbreytilega fransks samfélags og að í þeim yrði að finna fleira fólk úr atvinnulífinu og frá félögum og samtökum er fást við mannúðarmál.

Sarkozy hefur sett fleiri konur til ábyrgðarstarfa í ríkisstjórn sinni en nokkur annar forveri hans á forsetastóli. Meðal þeirra eru þrjár ungar konur úr röðum innflytjenda frá Afríku og arabaríkjum. 

Segolene Royal sækist eftir hlutverki leiðtogi sósíalista

Segolene Royal staðfesti í dag það sem legið hefur í loftinu, að hún hyggst freista þess að verða kjörin formaður Sósíalistaflokksins og taka við því embætti af fyrrverandi eiginmanni sínum, Francois Hollande. Allt frá því hún tapaði fyrir Nicolas Sarkozy í forsetakosningunum í maí sl. hefur blasað við að hún vill verða frambjóðandi flokksins við næstu kosningar, 2012.

 

Með tíðindunum í dag má segja að undirbúningur Royal fyrir forsetakosningarnar 2012 sé hafinn. „Ég ætla að fylgja því eftir til loka sem ég hóf í kosningabaráttunni, að endurnýja vinstriöflin og fylkja sósíalista að baki því pólitíska verkefni,“ sagði hún við frönsku sjónvarpsstöðina France 2 í dag.

  

Sósíaflokkurinn hefur verið í upplausn allt frá í kosningunum í maí en það voru þriðju forsetakosningarnar í röð sem flokkurinn tapar. Á þessari stundu er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að Hollande dragi sig í hlé á flokksþinginu í haust þótt í það hafi stefnt.  Að honum frátöldum blasir ekkert foringjaefni við, fyrir utan Royal, nema ef til vill Bertrand Delanoe borgarstjóri Parísar. Hann hefur jafnvel notið meiri vinsælda og álits en Segolene samkvæmt könnunum.

 

Dominique Strauss-Kahn er ekki lengur inni í myndinni sem nýr leiðtogi sósíalista þar sem hann hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) í Washington. Hann hefur hins vegar ekki viljað útiloka forsetaframboð 2012, árið sem ráðningatími hans hjá IMF rennur út.

Kennir öllum nema sjálfri sér um


Royal gagnrýndi áhrifamenn í flokknum í bók sem út kom í byrjun desember og sagði þá hafa grafið undan kosningabaráttu hennar. Sagði ósigur sinn fyrir Sarkozy hafa verið sigurfæri sem hafi verið glatað. Kenndi fjölmiðlum um og sagði það ekki hafa verið henni sjálfri að kenna hvernig fór. Skaut meðal annars föstum skotum á sinn fyrrum ektamann.

 

Í umsögnum var hæðst að bókinni og sumir sögðu sér líða sem hálfu ári yngri því Segolene skrifaði eins og ekkert hefði gerst í maí.

 

Vegna gremju sinnar yfir úrslitum kosninganna dró hún sig um nokkurra mánaða skeið út úr flokksstarfi og tók t.a.m. ekki þátt í tveimur áberandi samkomum um pólitíska endurnýjun meðal vinstri manna.

 

Hún hvatti árangurslaust í fyrravor til þess að flokksþing yrði kallað saman hið fyrsta og nýr leiðtogi kjörinn er yrði jafnframt frambjóðandi sósíalista 2012. Jafnframt sagði hún flokkinn verða að ganga í gegnum hreinsunareld og endurnýjast, en hefur engar tillögur lagt fram í þeim efnum. 


Segolene Royal hefur að miklu leyti haldið sig til hlés undanfarna mánuði. Hún mun nýta sveitarstjórnarkosningar í mars til að láta til sín taka á ný.

 

Ótímabær yfirlýsing?

Eins og við var að búast mætti yfirlýsing Royal um að hún vilji leiðtogahlutverk Sósíalistaflokksins lítilli hrifningu meðal áhrifamanna í flokknum. Flestir sögðu hana ótímabæra, keppnin um leiðtogahlutverkið væri hafin alltof snemma með þessu, nær væri að einbeita sér næstu mánuði að sveitarstjórnarkosningum og endurnýjun flokksins.

 

Aðrir sögðu að með tilliti til ósigurs hennar í forsetakosningunum gæti hún tæpast talist besti holdgervingur umbreytinga og uppstokkunar Sósíalistaflokksins. „Ég held að sjónarmið hennar í dag, strategískur spuni og þokukennd pólitísk viðhorf til efnahags- og félagslegra viðfangsefna endurspegli ekki nútíma sósíalisma,“ sagði Benoit Hamon, vinstri sinnaður sósíalisti sem situr á Evrópuþinginu.

 

Hann sagði að Royal hefði vissulega í hlutverki að gegna í pólitískri umræðu á vettvangi vinstrimanna en sakaði hana og menn af hennar kynslóð um að gera stjórnmálin að átökum þar sem sjálfselska réði ferð.

 

Spurning er hvernig Segolene Royal á eftir að reiða af en hún þarf að mínu mati að vera mun stefnufastari og skýrari í hugmyndum og skoðunum til að ná frumkvæði á ný.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband