Færsluflokkur: Bloggar

Blair ergir franska sósíalista sem vilja hann ekki sem forseta ESB

Franskir sósíalistar vilja ekki sjá að Tony Blair verði fyrsti forseti Evrópusambandsins (ESB). Hann á hins vegar stuðning hægrimanna og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta vísan.

Blair var gestur ársfundar flokks hægrimanna (UMP) sl. laugardag og lýsti þar framtíðarsýn sinni fyrir Evrópu. Þykir koma hans til fundarins og ræða til marks um að hann hyggist sækjast eftir starfanum nýja sem til verður síðar á árinu.

Það líst leiðtoga Sósíalistaflokksins, Francois Hollande, meinilla á. Hann segir stuðning Blair við herförina í Írak gera hann óheppilegan til forsetastarfans.

„Við þurfum forseta sem gæti verið fulltrúi Evrópu sem hefur eigin stefnu og er óháð Bandaríkjunum. Og ég held að Tony Blair uppfylli þau skilyrði ekki,“ sagði Hollande við frönsku útvarpsstöðina Radio J.

Í ræðu sinni á þingi flokks UMP, sem Sarkozy var formaður uns hann var kosinn forseti, lét Blair þau orð falla að með skoðunum sínum og viðhorfum myndi hann eiga vel heima í stjórn Sarkozy. Þau ummæli kunnu franskir sósíalistar ekki að meta.


Sarkozy ekki með giftingarhring í dag

Rannsóknarblaðamennska eins og hún best gerist; fréttamaður frönsku fréttastofunnar AFP í för með Sarkozy forseta í Saudi-Arabíu og Qatar í dag símaði heim til Parísar, að forsetinn hafi ekki verið með neinn giftingarhring á hendi í dag.

Tilefni eftirtektarinnar var frétt á vefsetri blaðsins l’Est Republicain í dag þess efnis, að Sarkozy og Carla Bruni „gætu hafa verið“ pússuð saman í Elysee-höllinni sl. fimmtudag. Aðrir fjölmiðlar vitnuðu til hennar á vefsetrum sínum í dag. Heimildarmaður blaðsins fyrir fréttinni er  „náinn aðila er sótti athöfnina“, sagði þar.

Talsmaður Sarkozy, David Martinon, vildi ekkert tjá sig um málið. Netblaðamaðurinn Allain Jules varð fyrstur til að skýra frá því að líklega yrði af brúðkaupi, en sagði það verða 9. febrúar. Slúðurblaðið Journal du Dimanche nefndi þá dagsetningu einnig og sakaði Jules blaðið um að hafa tekið frétt sína upp án þess að geta heimildar.

Út spurðist í París einmitt sl. fimmtudag að brúðkaup stæði fyrir dyrum þann daginn. Þustu blaðamenn og ljósmyndarar að ráðhúsi 16. hverfis þar sem vígslan átti að eiga sér stað. Fóru hins vegar bónleiðir til búðar því þeir höfðu ekkert upp úr krafsinu.

 


Hvernig er ástandið í móðurlífi Bruni?

Þegar ég var í háskóla í Englandi fyrir rúmum 30 árum uppnefndu Englendingar gjarnan Frakka og kölluðu þá "The Frogs" eða froskana. Eimdi enn eftir af fornum fjandskap milli þjóðanna tveggja, eða allt frá því Vilhjálmur  bastarður Rúðujarl og hertogi af Normandí felldi Harald Guðinason Englandskonung í Hastings 1066. 

Þess vegna hef ég alltaf haft ákveðinn fyrirvara á hlutunum þegar maður skoðar fréttir enskra fjölmiðla um Frakkland og Frakka. Nýjasta dæmið er frétt götublaðsins Daily Mail í dag um þungun Carla Bruni, ástkonu Nicolas Sarkozy forseta. Blaðamanninum tekst ekki að fara rétt með tilvitnanir sínar og heimildir - hefur líklega ekki skilið hinar frönsku heimildir sínar.

Hann fer rangt með - og ruglar saman vefsíðu og bloggsíðu - er hann segir Bruni vera með barni. Hið rétta er að bloggarinn Allain Jules skrifaði sl. miðvikudag (http://allainjulesblog.blogspot.com/2008/01/carla-et-nicolas-attendraient-un-enfant.html) að Bruni gæti verið með barni. Gæti verið með, segir hann en staðhæfir ekki að hún sé ófrísk. Og getur sér til að heimsókn hennar á spítala í Parísarúthverfi gæti verið til staðfestingar um það. Ekki sagði hann að heimildarmenn á spítalanum hafi staðfest það, eins og Daily Mail segir.

Þetta var eins og hálfgert rabb hjá honum um eitthvað sem gæti verið af því að Sarkozy sagði daginn áður að "alvara" væri í samband þeirra Bruni.  

Daily Mail segir líka að vefsetur fríblaðsins 20minutes.fr hafi birt frétt um þetta, en ritstjóri þess skrifar á vefinn í dag og vísar öllu slíku á bug; segir vefsetrið ekki hafa skrifað staf um málið. Hann segir þó, að einn ótilgreindur bloggari af þeim 3.000 sem notuðu bloggvef vefsetursins (gæti þess vegna verið þessi Allain Jules) hafi haldið því fram að Bruni gæti verið ófrísk.

Á öðrum stað á bloggi Jules lýsir hann gremju sinni yfir því að fréttir sem hann skrifi á blogg sitt séu eignaðar 20minutes og hann sakar einnig slúðurblaðið Journal de Dimanche um að hafa nappað af blogginu frétt um yfirvofandi brúðkaup Sarkozy og Bruni.

Í því sambandi er frétt í dag á vefsetri blaðsins l'Est Républicain í dag, að þau hafi látið pússa sig saman í Elysee-höllu sl. fimmtudag. Hvorki talsmaður forsetans né forstöðumaður upplýsingaskrifstofu hallarinnar vilja tjá sig um fréttina. Sarkozy sagði á blaðamannafundinum í síðustu viku að fjölmiðlar myndu líklega ekki frétta af brúðkaupi - ef af yrði - fyrr en það væri afstaðið. 

p.s.

Vera má að Frakkar og Frakkland séu hærra skrifuð hjá Englendingum nú en 1973-76. Í millitíðinni hafa alltjent tugir þúsunda Breta flutt sig yfir Ermarsundið til að verja efri árum hér í Frakklandi. Mikið er um þá hér á Bretaníuskaga en þó eru þeir líklega fjölmennari sunnar í landinu. Dæmi er um bæi þar sem þeir eru í meirihluta íbúa!


Frakkar taka hart á mengandi döllum

Frakkar hafa um dagana fengið nóg af olíumengun og m.a. af þeim sökum heldur strandgæslan úti öflugu eftirliti á hafinu undan ströndum landsins. Skipum sem draga á eftir sér olíutaum er óðara stefnt til hafnar og skipstjórum og útgerð stefnt fyrir dóm, ef ástæða þykir.

Á ári hverju ganga nokkrir dómar í málum af þessu tagi. Um daginn dæmdi áfrýjunarréttur í grannbænum mínum, Rennes, skipstjórann á togbátnum Fisher Golf í 30.000 evra sekt fyrir mengun.

Helmingur sektarupphæðarinnar var bundin skilorði og kemur ekki til borgunar komi skipið ekki við sögu mengunar á tilskildu tímabili.

Af 15.000 evrunum sem greiða verður var skipstjóranum gert að borga 20% eða 3.000 evrur úr eigin vasa en afgangurinn var dæmdur á útgerðarfélagið. 

Er strandgæslan varð vör við olíubrák undan eynni I'lle d'Oléron við Bretaníuskaga 26. apríl árið 2006 kom í ljós að 11 kílómetra langur og 10 metra breiður taumurinn stóð aftur úr Fisher Golf.  

Málið kom fyrst til kasta héraðsdómstóls í Brest sem úrskurðaði að olía hafi lekið úr skipinu í sjóinn fyrir slysni og sýknaði skipstjórann.

Áfrýjunarrétturinn gat fallist á að um slysni hafi verið að ræða, en sagði það hvorki leysa skipstjórann né útgerðina undan ábyrgðinni á menguninni sem það olli.

  


Frönsku járnbrautirnar báru ekki ábyrgð á fangaflutningum nasista

Franska ríkisjárnbrautafélagið, SNCF, vann nýverið sigur í máli sem höfðað var á hendur því fyrir meintan þátt þess í að flytja gyðinga í Frakklandi í útrýmingarbúðir nasista í seinna stríðinu.

Eftir nokkurra ára málaferli vísaði æðsti dómstóll frá máli Alain Lipietz, þingmanns græningja á Evrópuþinginu, og þriggja annarra úr sömu fjölskyldu.

Lipietz vildi fá SNCF dæmt sekt fyrir hlutdeildarábyrgð í flutningum gyðinga í fangabúðir nasista í samstarfi við setulið Þjóðverja í Frakklandi og Vichy-stjórnina. Krafðist hann bóta úr hendi SNCF vegna flutnings tveggja ættmenna hans í útrýmingabúðir, en fékk ekki.


Ríkir Kínverjar vilja helst ferðast til Frakklands

Auðmenn í Kína vildu helst verja frítíma til að synda, aka BMW-bílum og fara í frí til Frakklands, samkvæmt nýrri rannsókn endurskoðunarskrifstofu í Sjanghæ á lífsstíl 600  kínverskra auðmanna. Um er að ræða fólk sem á eignir upp á milljón bandaríska dollara eða meira.

Sund var efst á listanum yfir athafnir til heilsubótar, í öðru sæti ferðalög til Frakklands og í þriðja sætinu varð golf. Síðastnefndu iðjuna telja þeir heillavænlega því með henni gefist tækifæri til að blanda geði auðbræður og –systur.

Frakkland er besti erlendi áfangastaðurinn í augum millanna kínversku, en 104 þeirra eiga meira en sem nemur 10 milljónum dollara. Af lúxusbílum settu þeir BMW í efsta sæti og af annarri munaðarvöru voru efst á blaði lúxusvörur franska fyrirtækisins Louis Vuitton og bílar frá Mercedes-Benz.

Cartier eru eftirsóknustu skartgripirnir og breski bankinn HSBC veitti bestu aflands fjármálaþjónustuna, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.

Sjö auðmannanna af hverjum 10 hafa mikla trú á að áframhaldandandi uppsveifla verði í kínversku efnahagslífi næstu ár. Flestir þeirra fjárfesta í hlutabréfum en næst mest í fasteignum.

 


Milljarðamæringum fjölgar í Sviss

Það er ekki bara á Íslandi sem menn auðgast - þó lækkun á hlutabréfamarkaði hafi að vísu rýrt þann auð allverulega. Milljarðamæringum fjölgaði í Sviss á nýliðnu ári og voru 129 miðað við 118 árið 2006.

Miðað er við menn hvers auður nemur milljarði svissneskra franka eða meira. Heildar auður þeirra nemur 317 milljörðum evra, eða sem svarar 29.500 milljörðum króna.

Og séu taldir með þeir sem eiga 100 milljónir eða meira þá mun auður 300 ríkustu „íbúanna“ í  Sviss nema tvöfalt fyrri upphæðinni, eða 635 milljörðum evra. Hækkaði sú upphæð um 37% milli ára.

Meðal þeirra sem fluttu heimilisfesti til Sviss árið 2007 var söngkonan Nana Mouskouri en auður hennar mun vera 200 milljónir evra. Á listanum yfir 300 ríkustu eru 29 Frakkar, þar af eru nokkrir núverandi og fyrrverandi atvinnumenn í tennis. En ríkastir Frakka með búsetu í Sviss er Peugeot-fjölskyldan. Auður hennar, í svissneskum frönkum talið en ekki evrum, er átta milljarðar franka, um 460 milljarðar króna.

 


Sarkozy hleypur á sig eins og aðrir

Það kemur fyrir, að góðir menn hlaupa á sig. Það finnst mér eiga við um Nicolas Sarkozy forseta þessa lands. Ætli það sé vegna ofvirkni hans í starfi? Það er ekki laust við að mér finnist hann stundum framkvæmda fyrst og hugsa síðar. Skal þó tekið fram að ég er mjög hrifinn af honum, en mig grunar að hann hafi slakað eitthvað á skokkinu því það eru margir mánuðir síðan hann hefur sést í hlaupaskónum.

Í fyrsta lagi segir hann að Frakkar þurfi að koma sjónarmiðum sínum, menningu sinni og arfleifð á framfæri við umheiminn. Í sömu andrá segist hann munu stöðva starfsemi sjónvarpsstöðvarinnar France 24  sem sett var á fót fyrir ári og sendir út á ensku og arabísku auk frönsku og er við það að hefja útsendingar á spænsku.

Stöðin hefur verið kostuð af frönsku almannafé og Sarkozy segir ótækt að franska ríkið kosti stöð sem sendir út á ensku og arabísku. Þetta finnst mér hrein og klár skammsýni því það er borin von  að hann geti komið málstað Frakka á framfæri við umheiminn með því að tala aðeins frönsku. Mér er til efs að meira en 2% jarðarbúa hafi hana á takteinum.

Í öðru lagi var það eitt af helstu stefnumálum Sarkozy fyrir forsetakosningarnar að auka kaupmátt almennings. Það hefur ekki tekist til þessa, hvað sem síðar á eftir að gerast. Flest hefur hækkað og því hefur kaupmáttur lækkað frá því Sarkozy komst til valda, flóknara er það ekki.

Forsetinn ber því við að sjóðir ríkisins séu tómir og hann geti því ekkert gert sem stendur. Samt lofaði hann sjómönnum miklum styrkjum vegna olíuhækkunar, eftir nokkurra daga aðgerðir og mótmæli þeirra. Fór niður á kajann á Bretaníuskaga, reifst fyrst hraustlega við karlana en stakk síðan upp í þá dúsu. Nokkrum dögum seinna barst út að 2% skattur skyldi lagður á allt fiskmeti við búðarborðið til að fjármagna olíustyrkina. Í búðum hér hafði fiskur hækkað talsvert vikur og mánuði á undan svo vart var á þetta bætandi. Og einfaldlega hrein og klár kaupmáttarskerðing!

Það getur verið að olíustyrkurinn og fiskiskatturinn eigi eftir að verða til góðs. Hvort tveggja varðar við regluverk Evrópusambandsins (ESB) og ég sá í blaðinu mínu, Ouest-France í dag, að Joe Borg, sem fer með fiskveiðimál í framkvæmdastjórninni í Brussel, sé líklegur að samþykkja ráðstafanirnar, með skammböggli þó.

Það skilyrði er Borg sagður munu setja fyrir samþykki sínu,  að endurnýjun franska fiskveiðiflotans, að skipulagi og samsetningu, verði hafin. Því aðeins sé hægt að samþykkja ráðstafanirnar að þær séu liður í víðtækum áætlunum um endurskipulagninu fiskveiða Frakka.

Í þriðja lagi - smámál þó - voru það mistök hjá Sarkozy að halda því leyndu að hann var í október fluttur á sjúkrahús og gekkst þar undir lítilsháttar aðgerð vegna sýkingar í hálsi. Þetta gerðist þremur dögum eftir skilnað þeirra Ceciliu og komst ekki málið upp fyrr en í byrjun vikunnar vegna útkomu þriggja bóka um forsetafrúna fyrrverandi.

Það voru mistök af Sarkozy að vera ekki búinn að láta þetta út spyrjast, eftir allt tal hans um gagnsæi í stjórnsýslunni og embættisgjörðum og að hann myndi upplýsa um heilsufar sitt með reglulegum hætti. Algjört smámál í sjálfu sér og því klúður að leyna því. Ætli þetta falli ekki undir það að hann er mannlegur eins og við hin og vill halda einhverju af sínu fyrir sig.  


„arabadurtur“ - óheppilegra gat lykilorðið vart verið

Engan þarf að undra þótt verkstæðisformaðurinn Mohamed Zaidi hafi orðið hlessa og móðgast er hann áttaði sig á lykilorðinu sem Orange-símafyrirtækið úthlutaði honum er hann tengdi verkstæði sitt í Pessac í Gironde internetinu.

Zaidi er 39 ára og af innflytjendum frá Norður-Afríku kominn og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið er hann fékk lykilorðið „salearabe“, sem útleggja mætti á besta veg sem „arabadurtur“. Á götumáli hér í landi er merkingin jafnvel enn verri.   

Svo sem skilja má kvartaði hann við netþjónustuna og forstöðukona hennar viðurkenndi við blaðið Ouest-France að málið væri hið hneykslanlegasta og með öllu óásættanlegt. „Þetta gekk fram af okkur öllum hér, háum sem lágum í fyrirtækinu,“ sagði hún við blaðið.

Samstundis var hafin innanhússrannsókn hjá Orange til að komast til botns í því hvers vegna Zaidi fékk úthlutað þessu lykilorði. Í þeirri athugun verður m.a. reynt að leiða í ljós hvort um vísvitandi inngrip af hálfu starfsmanna hafi verið að ræða.

Að öðru leyti get ég vitnað um að þjónusta Orange er með afbrigðum, er kaupandi að henni eftir að hafa verið hjá vonlausu netfyrirtæki áður, free.fr.


Þrír Frakkar af fjórum telja stjórnarandstöðuna máttlausa

Hún á ekki sjö dagana sæla, franska stjórnarandstaðan. Kvartar sýknt og heilagt yfir því hversu oft og mikið Sarkozy forseti sé í fjölmiðlum - og hefur m.a. klagað það til fjarskiptastofnunar (CSA). Vilja sósíalistar fá aukinn kvóta fyrir sjálfan sig í sjónvarpi í mótvægisskyni. Ætli það dugi til að rétta hlut hennar en 72% Frakka segja stjórnarandstöðuna neikvæða og máttlitla.

Þeir hafa krafist þess að sá tími sem Sarkozy er í ljósvakamiðlum skrifist á ríkisstjórnina. Því hafnaði CSA og skutu sósíalistar þeirri niðurstöðu rétt fyrir jól til ríkisráðsins, sem er nokkurs konar stjórnlagadómstól. Ástæðan er sú að reynt er að hafa í heiðri hér í landi þrískipta viðmiðunarreglu um fjölmiðlaveru fulltrúa stjórnmálanna.

Samkvæmt henni fær ríkisstjórnin sinn skerf, þingmeirihlutinn sinn og stjórnarandstaðan sinn. Ætlast er til að fjölmiðlar semji sig sem næst að þessu og þeim hlutföllum sem miðað er við. Forsetinn er undanskilinn reglunni og það gremst sósíalistum því í stað þess að loka sig af í höllu sinni svipað forverunum hefur Sarkozy látið innanlands- og utanríkismál til sín taka og virðist alls staðar nærri. Og af þeim sökum mjög í fjölmiðlunum.

Samkvæmt skoðanakönnun sem TNS-Sofres rannsóknarstofnunin gerði fyrir vikuritið Le Nouvel Observateur sögðust þrír Frakkar af hverjum fjórum ímynd stjórnarandstöðunnar neikvæða. Meir að segja 66% kjósendur vinstriflokka töldu hana veika. Sögðu 56% kjósenda Sósíalistaflokksins stjórnarandstöðuna málefnasnauða og 36% þeirra sögðu hana höfuðlausa.

Framundan eru sveitarstjórnarkosningar í mars og þær hyggst stjórnarandstaðan nota til að reyna blása til sóknar gegn stjórn hægrimanna. Sagði Francois Holland, leiðtogi Sósíalistaflokksins í gær, að þær kosningar myndu snúast um kaupmátt almennings. Eitt helsta kosningamál Sarkozy forseta í fyrravor var að auka kaupmátt fólks. Lítt hefur þótt fara fyrir aðgerðum í þeim málum á sama tíma og eldsneyti og nauðsynjar hafa hækkað í verði.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband