Færsluflokkur: Lífstíll

Yfirlið Sarkozy skrifað á kröfuhörku Carla Bruni

Vinir Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta gera því skóna að kröfuhörku forsetafrúarinnar Carla Bruni sé um að kenna, að yfir hann leið á morgunskokki á Versalasvæðinu sl. sunnudagsmorgun. Sarkozy var fluttur með þyrlu í Val-de-Grace hersjúkrahúsið í París og útskrifaður síðdegis í gær.

Læknar sögðu ekkert ama lengur að forsetanum, en hvöttu hann til að taka því rólega í nokkra daga og minnka við sig vinnu á meðan. Vinir Sarkozy hvetja hann til að draga úr umfangsmikilli og stífri  líkamsrækt og hætta ströngum „nýjum“ matarkúrum.

Hvort tveggja segja þeir vera að forskrift Bruni sem hafi stokkað upp lífshætti eiginmannsins og vilji hann helst líta út sem stæltur ungur maður en ekki karl á miðjum sextugsaldri.

Opinberlega eru ástæður yfirliðsins sagðar heitt veður og mikið starfsálag. Í dag er forsetinn væntanlegur hingað í nágrenni við mig í sínu fyrsta verkefni eftir veikindin. Heimsækir hann þá Mount St-Michel, hinn vinsæla áfangastað sem á fjórðu milljón ferðamanna heimsækja árlega.

 


Franskir fangar fá sinn Tour de France

Frakkar eru ástríðufullir áhugamenn um hjólreiðar og stunda þær af miklu kappi, bæði sem keppni og sem holla hreyfingu og útivist. En fremur óvenjulegur hjólreiðatúr um landið hefst í borginni Lille í norðurhluta landsins í næstu viku.

Þann 4. júní leggja 196 fangar upp í hjólreið. Undir vökulu auga urmul varða á reiðhjólum og öðrum farartækjum munu þeir hjóla alls 2.300 kílómetra á 17 dögum. Fá þeir sem sagt sína útgáfu af Tour de France, er kalla mætti refsitúrinn, já eða Frakklandsfangareiðin.

Ólíkt Frakklandsreiðinni frægu verður harðbannað að slíta sig frá hópnum og stinga af til að koma fyrstur í mark á hverjum áfanga. Blátt bann liggur við slíku, af skiljanlegum ástæðum því fangarnir hafa ekki lokið afplánun refsingar sinnar.

Þetta er fyrsta fangareið sinnar tegundar. Meðan þeir verða utan múranna ber föngunum skylda til að halda hópinn á vegum landsins. Ekki verður um keppni af neinu tagi að ræða og engin verðlaun veitt. Tilgangurinn er að örva fangana til hópsamstarfs og að leggja hart að sér til að ná settu marki.

„Þetta er viss tegund af flótta eða undankomu fyrir okkur, tækifæri til að komast frá dags daglegum raunveruleika fangelsisins. Högum við okkur vel gætum við kannski fengið reynslulausn fyrr en ella,“ segir Daniel, 48 ára fangi í Nantes, sem tekur þátt í reiðinni.

Á hverri daglegri endastöð er að finna fangelsi. Þar þurfa hjólreiðarmennirnir ekki að taka á sig náðir heldur gista þeir á hótelum. Endamarkið verður í París líkt og í hjólreiðakeppninni frægu.

„Við viljum færa þátttakendum sönnur á, að með nokkurri þjálfun geta menn náð settu marki og hafið nýtt líf,“ segir talsmaður fangelsisyfirvalda um þetta nýstárlega uppátæki.

 


Læknir Dati hugsanlega hirtur fyrir að tala um keisaraskurðtækni sína

Franskur fæðingarlæknir, Claude Debache, þykir hafa talað full frjálst og hispurslaust um hvernig hann fór að því að gera dómsmálaráðherranum Rachida Dati aftur til starfa á methraða, eftir að hún ól stúlkubarn.

Dati hin íðilfagra varð léttari 2. janúar sl. og flestum að óvörum var hún komin til starfa í ráðuneytinu fimm dögum seinna. Í samtali við glysritið Paris Match lýsir Debache tækni þeirri sem hann beitti til að gera þetta kleift.

Svo virðist sem það hafi farið fyrir brjóstið á franska læknaráðinu því fyrir það hefur honum verið stefnt í vikunni. Sérfræðingar segja hann jafnvel eiga á hættu að vera sviptur starfsleyfi, a.m.k. tímabundið.

Debache segir ekkert óvenjulegt við að komast svo fljótt aftur til starfa eftir fæðingu. Naut hún keisaraskurðtækni sem byggist á því að vöðvar og vefir eru fléttaðir í sundur með höndunum eins mikið og frekast er kostur; hnífnum er beitt í eins takmörkuðu mæli og unnt er. „Þessi aðferð flýtir mjög fyrir að konur jafni sig eftir fæðingu - og hún er mun sársaukaminni,“ segir læknirinn.

Irene Kahn-Bensaude, formaður læknaráðs Parísar,  sakar Debache um brot á siðareglum með því að auglýsa þjónustu sína. „Þetta er gríðarleg auglýsing fyrir hann,“ segir hún um vikurritsgreinina, en ekki er vitað hvort Dati lagði blessun sína yfir hana. Kahn-Bensaude bætir við að Debache hafi brotið Hippókratesareiðinn með því að skýra frá sambandi sínu og sjúklings.

Franskir læknar hafa þurft að bíta úr nálinni með tal af þessu tagi. Fyrrverandi læknir Francois Mitterrand forseta var strikaður af læknaskránni fyrir að skýra frá banameini forsetans í bók, sem út kom átta dögum eftir andlátið.

Fæðing stúlkubarnsins dró að sér heimsathygli sakir þess að Dati hefur ekki viljað ljóstra upp um föðurinn, segir það einkamál sem hún haldi fyrir sig til að verja fjölskyldu sína. Feministar og kvenréttindasamtök tóku það illa upp hversu hratt hún sneri til vinnu. Var Dati sökuð um sviksemi gagnvart konum og réttindamálum þeirra. Fæðingarorlof sem þær nú nytu hefði tekið langan tíma og mikla baráttu að ná í gegn.

 


Frakkar borða og sofa lengur en aðrir

 

Sérfræðingar Efnahagssamvinnustofnunarinnar (OECD) hafa í ótilgreindan tíma dundað sér við að rannsaka lifnaðarhætti fólks í 18 aðildarlöndum stofnunarinnar. Þeir hafa leitt í ljós, að Frakki sofi tæpar níu klukkustundir hverja nótt. Sem er meira en klukkustund lengur en meðaltals Japani og Kóreubúi.

 

Fyrir mér hljómar þetta ótrúverðuglega því reynsla mín er að Frakkar taka seint á sig náðir og rísa snemma úr rekkju. Og með síestunni hefði maður haldið að Spánverjar svæfu meira. Svo er ekki, þeir eru í þriðja sæti, á eftir Frökkum og Bandaríkjamönnum, sofa röskar 8,5 stundir hvern sólarhring.

 

Þrátt fyrir að skyndibitinn gerist æ algengari og fleiri og fleiri renni niður samloku við skrifborð sitt fremur en borða digran hádegisverð á veitingahúsi verja Frakkar engu að síður á þriðju klukkustund við matarborðið dag hvern. Á mínu heimili erum við talsvert frá þessu meðaltali. Nema þegar heimsóknir eiga sér hingað stað, þá vill borðseta dragast á langinn.

 

Þessi niðurstaða þýðir að málsverðir Frakka eru tvöfalt lengri en til dæmis Mexíkómanna, sem verja ekki nema rétt rúmri klukkustund við matarborðið á dag.

 

Fróðleikur þessi birtist í skýrslu sem OECD nefnir „Gluggað í samfélagið“ og fjallar um rannsóknir á atvinnuháttum, heilsu og frístundum íbúa í löndum í Asíu, Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku.

 

Japanir skera svefn við neglur sér og þurfa langan tíma til að komast úr og í vinnu sem er lengri en hjá vel flestum. Samt tekst þeim að eyða næstum tveimur stundum á dag við matarborð. Eru í þeim efnum í þriðja sæti, á eftir Frökkum og Nýsjálendingum.

 

Það sem eftir er af takmörkuðum frístundatíma kjósa Japanir að nýta til þess að hofa á sjónvarp eða hlusta á útvarp. Í það fer 47% af frítíma þeirra. Tyrkir, á hinn bóginn, verja rúmum þriðjungi frítíma síns til að skemmta vinum sínum og kunningjum.

 

Rannsóknin leiddi í ljós óvenjulega skiptingu milli vinnu og frístunda í nokkrum ríkjum. Til að mynda á Ítalíu. Þar er hafa karlar 80 mínútur umfram konur til frístunda. Umframvinna ítalskra kvenna, miðað við karlana, felst í heimilisstörfum þeirra, þrifum og tiltekt. Eins og karlarnir komi ekki nálægt þeim störfum!


Ástarhreiður Sarkozy í íbúð Yves St. Laurent

Það verður ekki selt dýrara verði en það er keypt, en slúðurmiðlarnir halda því fram að Nicolas Sarkozy forseti og Carla Bruni eiginkona hans séu við það að kaupa sér „ástarhreiður“ í París.

Þar er um að ræða íbúð á þremur hæðum í byggingu a vinstribakka Signu sem tískufrömuðurinn Yves St. Laurent bjó í til dauðadags, en hann lést í fyrra.´

Íbúðin er talin munu kosta langleiðina í fjórar milljónir evra. Segir sagan að Bruni, sem á sínum tíma var ein frægasta tískufyrirsæta heims, hafi þegar gert úttekt á íbúðinni. Ef sagan reynist rétt og af kaupum verður njóta forsetahjónin eflaust meiri kyrrðar og friðar þar en í skarkalanum í Elysee-höllu.

 


„Andstyggileg súla úr samanskrúfuðu járni“ - Eiffelturninn 120 ára

Þetta er „andstyggileg súla úr samanskrúfuðu járni“ sögðu 47 af helstu gáfumennum Frakklands sem börðust gegn byggingu Eiffelturnsins í París. Andmælabréf þeirra birtist í blaðinu Le Temps í febrúar 1847 er stöplarnir fjórir voru að koma upp úr jörðinni á Signubökkum. Hvað ætli þeim fyndist um andstöðu sína væru þeir á lífi í dag, 120 árum eftir að turninn var vígður. Já, Eiffelturninn á 120 ára afmæli á morgun, 15. maí. Klukkan 11:50 fyrir hádegi þann dag árið 1889 var hann opnaður almenningi.

Óhætt er að segja, að frægð og frami Tour Eiffel hefur aukist og vaxið með tíð og tíma. Mér er til efst, að önnur minnismerki séu jafn dáð. Upp í hann fara til dæmis ár hvert 7 milljónir manna og njóta sérdeilis frábærs útsýnis yfir Parísarborg. Nokkrum sinnum hef ég farið upp en síðasta ferðin í turninn var fyrir áratug, á lokadegi Tour de France hjólreiðakeppninnar og sá maður halarófuna liðast um borgina. Í stað þess að fara niður með lyftunni eins og venjulega varð ég að gjöra svo vel að þramma niður stigana. Yngri sonur minn tók ekki í mál að fara öðru vísi niður, þá aðeins 7 ára gamall! Það ferðalag tók nær hálftíma. Og ekki laust við að maður væri með strengi í lærum og verki í hnjám að því loknu!

Það stóð til að rífa turninn fljótlega eftir heimssýninguna í París 1889 en gáfaðri menn en menningarelítan komu í veg fyrir það. Hvaða fólk með sæmilegt skynbragð og góðan smekk myndi ekki þjást við tilhugsunina um „svimandi fáránlegan turn er drottnaði yfir París eins og svartur og risastór verksmiðjuskorsteinn, þrúgandi villimannslegur massi er bæla myndi allt líf undir sér?“ spurðu dáðir listmálarar á borð við Ernest Meissonier og William-Adolphe Bouguereau, rithöfundarnir  Guy de Maupassant og Alexandre Dumas, tónskáldið Charles Gounod og Charles Garnier arkitekt, svo einhverjir séu nefndir.  

Já, byggingin olli miklum deilum og enginn skortur á napuryrðum í áróðursherferð og lögsóknum gegn framkvæmdinni. Var hugmynd Gustave Eiffel valin eftir samkeppni mikla en meðal tillagna sem hlutu ekki náð var risastór fallöxi. Hann sagði vindinn stærstu áskorunina við hönnun turnsins og því séu megin súlurnar fjórar íbognar. Ásamt því að efla mótstöðu byggingarinnar gagnvart veðri gefa bogalínurnar til kynna bæði kraft byggingarinnar og fegurð.

Öldungurinn ber sig einkar vel en hann er samsettur úr alls 18.038 bitum af smíðajárni. Til að skrúfa þá saman þurfti 2,5 milljónir boltarær. Á nokkurra ára fresti er hann málaður - slík vinna stendur einmitt yfir um þessar mundir - og skiptir málningin sérlagaða tugum tonna.

Turninn sætti gagnrýni fjölmiðla austan hafs og vestan meðan hann var í byggingu. Í Bandaríkjunum bar á öfund er menn áttuðu sig á að hann yrði nær helmingi hærri en Washington-minnismerkið. Eftir að turninn reis breyttist gagnrýni hins vegar fljótt í almenna aðdáun. Hvarvetna var hann lofaður og margar bækur hafa verið skrifaðar um hann og verkfræðinginn Eiffel sem var sérfræðingur í hönnun járnbrautarbrúa.  Og það var ekki fyrr en 40 árum seinna, eða árið 1929, að hærra mannvirki reis, Chryslerbyggingin í New York.

Eins og fyrr segir stóð til að fella Eiffelturninn 20 árum eftir að hann var reistur. Segja má, að Gustave Eiffel hafi komið í veg fyrir þau áform með því að gera turninn að ómissandi hlekk í fjarskiptakerfi franska hersins.

Og þrátt fyrir að teljast ekki há bygging nú til dags í samanburði við risastóra skýjakljúfa víða um heim hrífur Eifffelturninn fólk, heillar það og töfrar. Í honum bræðast saman vísindi og tækni og þörfin fyrir lífsgleði.  


400.000 stundir til að leika sér á lífsleiðinni

Allt er reiknað út. Nú liggur það til dæmis fyrir af hálfu frönsku hagstofunnar, að meðal Frakkinn hefur 400.000 klukkustundir til frjálsra afnota á lífsleiðinni. Ekki veit ég hvað meðaltals Íslendingurinn hefur mikinn tíma til aflögu eftir svefn og dagleg störf.

Ef til vill hafa Frakkar rýmri tíma því mjög hátt hlutfall þeirra er komið á eftirlaun á miðjum aldri, rétt upp úr fimmtugu. Þeir geta annað hvort látið sér leiðast eða gert eitthvað sér til dundurs. Til dæmis er mjög algengt á mínum slóðum, að menn hjóli hálfa og heilu dagana. Eru þar af leiðandi stálhraustir, enda á besta aldri. Hjóla ég yfirleitt tvisvar í viku með hópi svona kalla og er ég langt í frá yngstur meðal lífeyrisþeganna þótt ég eigi enn eftir 13 ár í að fara á eftirlaun!

 


Franskar konur grennstar - en finnst þær vera feitar

Franskar konur eru þær grennstu í Evrópu en hvað sem allri tölfræði líður finnst þeim sjálfum þær vera feitar! Hvergi í álfunni er hlutfall kvenna undir kjörþyngd hærra en í Frakklandi.

 

Og slík er áþjánin af menningarhefðum og fegurðarhugmyndum í Frakklandi, að einungis helmingur „undirmálskvenna“ gengst við því að vera of grannur. Í ljós kom við rannsóknir, að í öðrum Evrópuríkjum á hið gagnstæða við; konur í Bretlandi, Spáni og Portúgal sem telja sig alvarlega mjóar eru miklu fleiri en hinar raunverulegu mjónur.

 

„Þetta sýnir að það sem talið er kjörþyngd í Frakklandi er minni þungi en í öðrum löndum,“ segir yfirmaður rannsóknarinnar, Thibaut de Saint Pol, við frönsku lýðfræðirannsóknarstofnunina.

 

Í öllum löndum Vestur-Evrópu nema Frakklandi og Hollandi fellur raunverulegur meðalþungi karla í flokk offitufólks, miðað við kjörþyngdarstaðla Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

 

Til samanburðar á hið sama við um konur í aðeins þremur löndum, Bretlandi, Grikklandi og Portúgal. Í Hollandi eru yfirkjörþyngdarkonur fleiri en karlar.

 

Frakkland er eina ríkið þar sem bæði kyn teljast á eðlilegu þyngdarbili að meðaltali. Það er og eina landið þar sem meira en 5% kvenna telst formlega vera undirvigtar.

Ólíkt skynja karlar og konur þyngdarskort sinn eða offitu, að því er kom fram í rannsókninni sem náði til Vestur-Evrópuríkja. „Undirþyngdarkarlar forsmá líkama sinn en feitir sjá engin vandamál við offituna.

Konur sem vantar kjöt á beinin telja það með engu gjaldfalla líkamann. En um leið og þær detta yfir í offituflokk finnst þeim það óásættanlegt,“ segir Thibaut de Saint Pol.   

En hann bætir svo við: „Færi franskur einstaklingur sem finnst hann vera feitur til Bandaríkjanna myndi sú tilfinning hverfa, líklega fyrir fullt og allt.“

 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband