Færsluflokkur: Lífstíll

Aðeins 45 daga umhverfis jörðina

Skúta Peyron á hraðferð í metsiglingunni.

Frakkar eru miklir sægarpar og annálaðir skútusiglarar, það vita áhugamenn um siglingasport.

Um helgina setti einn slíkur, Loïck Peyron, heimsmet í viðstöðulausri siglingu umhverfis jörðina; var aðeins 45 daga, 13 stundir, 42 mínútur og 53 sekúndur á leiðinni.

Með þessu hlýtur Peyron Jules Verne til varðveislu en um hana hefur verið keppt frá og með 1992. Var ævintýraskáldsaga Verne, „Umhverfis jörðina á 80 dögum“, hvati að metsiglingatilraunum.

Frá því keppnin hófst hefur hnattsiglingametið verið bætt átta sinnum. Metið sem Peyron bætti var 48 dagar, sjö stundir og 45 mínútur, en það setti annar Frakki, Franck Cammas, í hitteðfyrra.  

Peyron, 4ði f.h., og áhöfn fagna í BrestSjómennska er fjölskyldu Loïck Peyron í blóð borin því bróðir hans, Bruno Peyron, varð fyrstur til að vinna Jules Verne styttuna, árið 1993. Þá sigldi hann umhverfis jörðina á 79 dögum, 6 klukkustundum og 16 mínútum.

Tvisvar missti hann metið en endurheimti í bæði skipti, fyrst árið 2002 er hann var 64 daga rúma á siglingu og 2005 er hann lagði leiðina að baki á 50 dögum, 16 stundum og 20 mínútum. Nú segist hann tilbúinn að gera atlögu að met á næsta ári, 2013, með yngri bróður sínum.  

Loïck Peyron vann afrekið á risaskútunni Banque Populaire V sem er þríbytna og lætur nærri að meðalhraðinn á siglingunni hafi verið 50 km/klst. Stóðst skútan álagið einstaklega vel en á henni var 14 manna áhöfn. Hún er 40 metra löng og getur náð rúmlega 110 km/klst hraða. Til samanburðar var þríbytna Cammas, Groupama 3, 31m50 metrar.  Og skúta Bruno á fyrstu metsiglingunni 25,65 metrar.

Ferillinn sem Peyron sigldi reyndist 53.172 km langur en Cammas fór styttri leið 2010 eða 52.824 km og bróðirinn Bruno enn skemmri spöl 2005, eða 49.990 km.

Um 5000 manns fögnuðu í mígandi rigningu á kajanum í Brest á vesturodda Frakklands er skútan sigldi í höfn. Margar skútur og bátar fylgdu henni síðasta spölinn. Í áhöfninni var einn Breti, Brian Thompson, sem hefur með þessu siglt fjórum sinnum umhverfis jörðina án viðkomu á leiðinni. 

 


Þolinmæði og 30.000 kaloríur

Í 400 km forkeppni frá Avranches í lok maí.

Þá er þrautin mikla framundan, hjólreiðin frá París til bæjarins Brest á vesturodda Frakklands og til baka. Alls 1230 kílómetrar sem ég verð að klára á rúmlega þremur og hálfum sólarhring. Hef að hámarki 90 stundir til verksins. Í reiðinni taka 5225 aðrir frístundahjólarar úr öllum heimshornum. Ballið byrjar undir kvöld á sunnudag.

Vegalengdin í keppninni París-Brest-París er 1230 km eða álíka og þjóðvegur 1 á Íslandi. Vestari helming leiðarinnar kannast ég ágætlega við; tók þátt í 600 km keppni á þeim hluta leiðarinnar í hitteðfyrra. Og svo ók ég austari helminginn á bílnum á heimleið frá París í fyrrasumar.

Hjólað verður um sveitavegi þar sem umferðarþungi er ekki verulega íþyngjandi og því er leiðin bæði krókótt og afar öldótt. Til dæmis er um 365 brekkur að fara, stuttar sem langar, sumar mjög brattar og aðrar sem eru nokkrir kílómetrar á lengd. Því segir það sig sjálft að ferðhraði verður ekki eins og á venjulegum dögum, heldur mun minni þar sem maður er að jafnt nótt sem nýtan dag.

Klifra 10-11 þúsund metra upp 375 brekkur

Samkvæmt útreikningum lækna- og næringarfræðinga, sem m.a. hafa tekið sjálfir þátt í reiðinni, ætti ég að brenna á bilinu 30 - 40 þúsund kaloríum á leiðinni. Á 90 klukkutímum. Er þá miðað við að 600 kaloríur þurfi fyrir hvern hjólaðan klukkutíma. Segir sig sjálft að maður verður að innbyrða nóg af orku á leiðinni og drekka býsnin öll af vatni og orkudrykkjum.

Þetta verður enginn hægðarleikur því til dæmis klifrar maður 10-11 þúsund metra upp allar brekkurnar. Þar sem maður endar á sama stað kemur heildar hæðarbreytingin út á núlli en gallinn er sá að niður brekkurnar endurheimtir maður ekki orkuna sem fór í að stíga hjólið upp þær!

Hér er um að ræða mikla prófraun á líkamlegt atgervi og ekki síður hið andlega því það mun reyna á viljastyrk; kjark og hugrekki að fara alla leið fram og til baka innan tímamarka. Árið 2007 rigndi lengstan part leiðarinnar en nú bjóða veðurspár aðallega upp á hitabylgju! Vonandi skúrar eitthvað til að fríska loftið.

Ég hef undirbúið mig nokkuð vel og farið gegnum 10 svona röll á bilinu 200-600 km undanfarin tvö ár og hef hjólað 50 þúsund kílómetra síðustu fjögur árin. Í 400 km ralli í lok maí nam klifrið til að mynda rúmum 4200 metrum sem er hlutfallslega ögn meira en í P-B-P.

„Ég þori, get og vil“

Geng þó til leiks af auðmýkt gagnvart verkefninu. Þar mun fyrst og fremst reyna á þolinmæði til að halda aftur af sér og brenna ekki of hratt fyrsta áfangann. Til að heiðra minningu Unnar Stefánsdóttir, nýlátins gamals félaga úr frjálsíþróttunum og samstjórnarmanns í Íþrótta- og ólympíusambandinu (ÍSÍ), fer ég til móts við hina miklu áskorun með kjörorð umbótanefndar ÍSÍ í kvennaíþróttum; „Ég þori, get og vil“. Í von um að það færi mér heill á leiðinni hef ég sett bæði merki ÍSÍ og Íþróttafélags Reykjavíkur (ÍR) á hjálminn minn og íslenski fáninn trónir á stelli hjólsins.

Ég áætla að vera eins og 60 stundir að hjóla en hef þá 30 tíma upp á að hlaupa til að borða, hvílast og mæta á kontrólstöðvar. Á leiðinni eru 14 slíkar sem við vitum um og tvær duldar – önnur á útleið hin á heimleið – sem við hittum ekki á nema rata rétta leið! Það getur tekið drjúga stund að fara í gegnum kontrólin, fá stimpil í ferðbókina og klára sig af vegna fjöldans.

Minn rástími er áætlaður klukkan 18 á sunnudag en ræst er í 400 manna hópum með 10-15 mínútna millibili til að mannskapurinn dreifist aðeins. Fer eftir því hvar í þeim ég lendi hvort brottför verður akkúrat klukkan sex eða eitthvað seinna.

A.m.k. 450 km í fyrsta áfanga

Stefnan er að fara vel á fimmta hundrað km í fyrsta áfanga áður en maður tekur sér hvíld og fleygir sér útaf í 5-6 tíma. Ná a.m.k. til Loudeac á Bretaníuskaga en þangað eru 450 km. Jafnvel komast lengra, eða 493 km til Saint-Nicolas-dePelem. Sem sagt helst að hjóla framundir næsta myrkur, þ.e. vera að í rúman sólarhring í fyrstu lotu. Það er planið og síðan ræðst það af framvindunni með frekari hvíldir en vonandi næ ég annarri álíka langri kríu sólarhring seinna eða svo. Og hafi ég nógan tíma upp á að hlaupa gríp ég þriðja tækifærið til að dotta agnarögn.  Ég mun í bakpoka og smátösku á bögglabera hafa a.m.k. tvennan klæðnað til skiptana þar sem áð verður og vonandi kemst maður í sturtu þar!

Þetta verður í fyrsta sinn sem ég legg upp í þessa vinsælu reið. Hún fer fram á fjögurra ára fresti og dregur til sín þátttakendur úr öllum heimsálfum. Fór fyrst fram árið 1891 og varð kappi að nafni Charles Terront fyrstur af um 100 þátttakendum. Verð ég innan um menn – og konur – sem hafa tekið jafnvel mörgum sinnum þátt.

Sagan segir að París-Brest-París reiðin hafi verið hvati þess að stofnað var til Frakklandsreiðarinnar miklu, Tour de France, árið 1903. Þessum viðburðum tveimur verður ekki jafnað saman en báðir eiga vinsældum að fagna hér í Frakklandi og munu íbúar meðfram leiðinni t.a.m. stilla sér upp meðfram leiðinni og hvetja þátttakendur. Þá munu húsfrúr víða dekka borð út á stétt og bjóða hjólurum upp á hressingu, svo sem kaffi og bakkelsi. Maður verður á köflum að heiðra þær fyrir hugulsemina og snerta á kræsingunum.

Fyrirmynd að Tour de France

Til  keppninnar 1891 skráðu sig 293 karlar og sjö konur en aðeins 209 mættu þó til leiks. Helmingur hafði fallið úr leik áður en komið til Brest, því þar sneru 106 til baka og komust 100 þeirra alla leið í mark í París. Terront mun hafa verið 71:35 stundir á leiðinni en meðaltími allra sem skiluðu sér í mark var 10 dagar! 

Framkvæmd reiðarinnar er ekkert smámál og eigum við það að þakka um 15 þúsund sjálfboðaliðum að þetta getur allt farið fram. Á laugardag verð ég að mæta til Parísar í skoðun með hjólið þar sem gengið verður úr skugga um að búnaður þess, ljós, bremsur o.fl. standist kröfur. Til dæmis má ekki vera með handahvílur eins og á þríþrautarhjólum og bremsur verða vera bæði aftan og framan. Og í myrkri er skylda að skrýðast endurskinsvesti.

Aðeins fleiri voru skráðir til leiks 2007 en í ár og ætli kreppa á alþjóaðvísu eigi ekki hlut að máli. Nú eru 5225 keppendur en voru 5311 fyrir fjórum árum, þar af útlendingar frá 45 löndum í meirihluta eða 3015. Þar af voru 606 frá Bandaríkjunum 387 frá Þýskalandi, 367 Ítalíu, 334 frá Bretlandi, 206 Spáni, 182 Danir, 123 Ástralir, 116 frá Kanada, 112 Japanir, 87 Svíar og 24 Norðmenn. Alls tóku 353 konur þátt, þar af 136 franskar.   Meðalaldurinn 2007 var 49,7 ár og er sagður 50 nú. Með mín 59 ár er ég því í efri hlutanum en þess má geta, að meðal þátttakenda eru 16 karlar 75 ára og eldri. Þeir geta verið seigir, ég flaut til að mynda með sex félögum gegnum 200 km forkeppnisreið fyrr á árinu og sá harðasti var sá elsti, 78 ára. Hann verður með í P-B-P.

Heimasíða París-Brest-París, bæði á ensku sem frönsku.

Skemmtileg mynd af leiðinni, hæðarprófílar einstakra áfanga og hæðargraf allrar leiðarinnar. Þarna segir að heildarklifur sé 9078 metrar. Hún er fengin af kortavefnum Openrunner.com en mælingar manna með GPS-tækjum hafa sýnt mun hærri tölur, milli 10 og 11 þúsund metra.  

Önnur mynd af leiðinni.

 

 

 

 


Fyrsti áfangi að baki

Höfundur í hópi þátttakenda rétt fyrir start í l'Hermitage.Þá er fyrsti áfanginn að þátttökurétti í París-Brest-París reiðinni í sumar að baki. Hjólaði í 200 km forkeppni frá l'Hermitage sl. laugardag ásamt 280 öðrum. Fínt veður fyrstu 120 km en síðan tók við rigning næstu tvo tímana eða svo. Hún var ekki svo slæm en eftir því sem vegurinn blotnaði spýttist meira yfir mann frá meðreiðarmönnum. 

Hann stytti upp síðustu 25 km en vegurinn þornaði ekki jafn harðan. Og það bætti gráu ofan á svart að nokkuð var um mold hér og þar á veginum sem borist hafði af ökrum vegna bústarfa í sveitum Bretaníuskagans. Þessu jós yfir mann en það er bara hluti af tilverunni og ekkert til að kveinka sér yfir.

Ekki var um annað að ræða en skipta svo fljótt sem verða mátti um föt eftir komu á leiðarenda þar sem manni kólnaði fljótt rennvotum. 

Það var skemmtileg stemmning á svæðinu er hópurinn lagði af stað eiginlega um leið og kirkjuklukkan sló átta að morgni. Leiðin lá frá l'Hermitage, sem er útborg frá Rennes, norðnorðvestur niður að sjó við St. Cast og þaðan haldið meðfram ströndinni um Frehel, Erquy og Planeuf-Val Andre, allt ægifagrar og sjarmerandi slóðir. Fyrsta tékk var eftir 75 km í St. Lormel en þar var minn hópur eftir 2 og 1/2 tíma, og hið næsta í Port Dahouët í Planeuf-Val Andre eftir um 115 km. Þar stoppuðum við í röskan hálftíma og nærðumst.

Því næst lá leiðin suðsuðaustur á bóginn til baka og nú hafði vindinn hert og byrjaði að rigna, allt samkvæmt veðurspám frá því daginn áður. Því kom ekkert á óvart og ekki um annað að ræða en halda áfram með jákvæðu hugarfari. Slóst við brottför í hóp með 5 hjólurum frá Pipriac og lengst af vorum við í samfylgd með 20-30 öðrum. Það er léttara og ekki síst gegn veðri því þá skiptumst við nokkuð á að leiða og kljúfa vindinn.

Til baka kom ég upp úr klukkan fjögur með mínum mönnum og um 30 öðrum, flestum frá hjólafélaginu í St. Meen-le-Grande þaðan sem einn frægasti hjólreiðagarpur Frakka er, Louison Bobet. Alls var ég á baki í rúma sjö klukkutíma og undirbúningurinn hefur verið réttur og góður því þetta var ekki erfiðara en að drekka vatn. Mér leið vel alla leið og fann aldrei fyrir þreytu. Hún var heldur ekki erfið, klifur samtals allan hringinn t.a.m. aðeins tæplega 1300 metrar.

2011-pbp.jpgÞað var líka til að lyfta andanum að í hópnum sem ég gekk til liðs við var einn 74 ára og sá var sprækur sem unglingur. Feikna vel á sig kominn sá og síbrosandi. Þetta var honum engin raun og hann hefur nokkrar París-Brest-París reiðar að baki. Ég uppgötvaði sem sagt að maður verður aldrei of gamall til að hjóla, ef lundin er létt en það verður hún eiginlega sjálfkrafa í svona samkomum.

Þá er sem sagt fjórðungur af fullri þátttökuheimild í París-Brest-París í höfn. Og reyndar gott betur því ég tryggði mér forskráningu og þar með forgang með þátttöku í 200 km, 300 km og 400 km forkeppnum í fyrra. Engu að síður verður maður að fara í gegnum öll stigin fjögur aftur, og því eru 300, 400 og 600 km eftir. Tek 300 um miðjan apríl, 400 líklegast í byrjun maí og síðan 600 um miðjan júní. Boðið er upp á þessi úrtökumót um allt land en ég læt mér nægja heimaslóðir á Bretaníuskaganum. Þó eru líkur á að ég fari til borgarinnar Laval í 400 km en þangað er nú ekki nema um klukkustundar akstur. Sjálf reiðin frá París til Brest og til baka, um 1250 km, fer svo fram síðla í ágúst. 

Hér má sjá myndband sem gefur innsýn í frábæra stemmningu rétt fyrir og í upphafi reiðarinnar.

Þá er hér kort af leiðinni

Hér er svo annað vídeó, tekið þegar menn eru að koma aftur í hús við heimkomu og fá sér hressingu að því loknu. Þar kemur fram að um 80 séu komnir í mark af 281 og var hópurinn sem ég var með þá löngu kominn.

 

 


Mittismál að baki

Kominn heim úr hjólatúr

Mittismál jarðarinnar ku vera 40.076 kílómetrar. Einu sinni fannst mér þetta miklar tölur, en ekki lengur. Frá því ég byrjaði að hjóla hér í Frakklandi vorið 2007 hef ég lagt þessa vegalengd að baki og gott betur á æfinga- og útivistarferðum um Bretaníuskagann.

Fyrsta árið hjólaði ég nokkuð á fjórða þúsund kilómetra en árið 2008 urðu kílómetrarnir 12.183 og 13.557 í fyrra. Og í ár hef ég bætt um betur þrátt fyrir jarðbönn í janúar og nú í desember. Rauf í gær 14.000 km múrinn og setji ísing eða snjóar ekki strik í reikninginn ættu nokkur hundruð km að bætast við fyrir áramót. Í dag horfir ekki vel til hjólaferða næstu dagana, en það sem af er mánuðinum eru aðeins 585 km að baki.

Ég stefni að því að taka þátt í hinnu miklu reið frá París til Brest og til baka í ágústlok á næsta ári. Undir það hef ég búið mig í ár og í fyrra með þátttöku í allt að 600 km löngum reiðum. Þar hefur veður verið með ýmsum hætti og í 400 km ralli sem hófst klukkan sex að kvöldi rigndi stanslaust á keppendur í sjö tíma, frá klukkan 20 til þrjú um nóttina. Var ekki myrkrið bætandi en þjóðvegir til sveita í Frakklandi eru ekki raflýstir.

Vegalengdin í keppninni París-Brest-París er rúmlega 1200 km eða sem svarar þjóðvegi 1 á Íslandi. Hefur maður 80 eða 90 klukkustundir að klára dæmið, að meðtöldum hvíldum og matarstoppum. Svö mishæðótt er landslagið á leiðinni að maður klifrar samtals yfir 10.000 metra. Tel mig nú þekkja hana nokkuð vel; tók þátt í 600 km keppni á vestari helming hennar í fyrra og ók austari helminginn á bílnum á heimleið frá París í sumar.

Keppendur voru um 5700 síðast, árið 2007, úr öllum heimshornum, en mér skilst enginn Íslendingur hafi tekið þátt í þessari keppni sem fram hefur farið í um öld. Margir heltust úr lestinni 2007 vegna veðurs. Það rigndi nær allan tímann og veðurguðinn Kári kvað í jötunmóð og blés hressilega.

Með hjólamennskunni þarf ég ekki að hafa áhyggjur af eigin mittismáli og nú hef ég sigrast á umgjarðarmáli jarðarinnar.  Maður verður alltaf að hafa einhver viðmið, þau hvetja mann áfram.

Síðustu þrjú árin hafa kílómetrarnir á hjólinu fallið sem hér segir:

Mánuður 2008 km 2009 km 2010 km
janúar729 942580
febrúar829958791
mars9471406 1429
apríl1352 1115 1400
maí1829 1518 1872
júní673 1659 1161
júlí1345 1096 1352
ágúst16131427 1527
september928 486 1191
október588 943 1083
nóvember754 1125 1050
desember578 882 921
Samtals12.183 13.557 14.357

Bætt við 31.des:
Innrammaði árið með hjólatúr í dag og uppfærði töfluna fyrir desember og samtölu ársins. Hún er meira en ásættanleg.


Styrkari staða gagnvart hjólreiðamaraþoni

Lagt upp í 400 km hjólarall í Saint-Méen-le-Grand í Frakklandi

Það var heljarinnar þrekraun 400 kílómetra hjólarallið sem ég þreytti á Bretaníuskaganum um nýliðna helgi. Aldrei áður hef ég hjólað jafn langt í einum áfanga og aldrei áður að nóttu til. En með þessu hef ég styrkt mjög stöðu mína og öðlast næstbesta forskráningarrétt fyrir þolreiðina miklu á næsta ári, frá París til Brest og til baka. Þar er hjóluð ríflega 1.200 km vegalengd sem verður að klára á innan við 90 klst. Heildar klifur í brekkum á leiðinni mun nema 10 kílómetrum og því var rúmlega 4000 metra klifur um helgina ágæt prófraun.

 Að þessu sinni var um að ræða hjólarall frá bænum Saint-Méen-le-Grand en þaðan er ein frægasta stjarna franskra hjólreiða fyrr og síðar, Louison Bobeti. Hófst keppnin við virðulegt gamalt og stórt hús sem geymir safn sem við hann er kennt og helgað er afrekum hans og lífi og starfi. Leiðin lá um allar fjórar sýslur Bretaníu; Morbihan, Finistere, Côtes-d’Armor og Ille-et-Vilaine.

Tvisvar, þrisvar áður hef ég lagt af stað í langrall í myrkri klukkan 5 að morgni, en að þessu sinni var byrjað klukkan 18 og hjólað gegnum nóttina. Það var undarleg reynsla og eftirminnileg. Verst að við hjóluðum um sveitir sem örugglega hafa verið mjög snotrar en af því sást ekki neitt. Engin lýsing er með vegum og meira að segja eru götuljós slökkt í minni bæjum og borgum í sparnaðarskyni í nokkrar klukkustundir á nóttunni.

Þess vegna getur verið hálf draugalegt að vera á ferð, og eykur bara á dulúðina ef rignir en segja má að ekki hafi stytt upp frá því klukkan 19 og fram til þrjú um nóttina, eða í átta klukkustundir. Sem betur fer var hún lengst af létt, lítið annað en úði. En hvimleið samt og verður athyglin að vera meira en í góðu lagi við aðstæður sem þessar þegar hjólað er í hóp því ef t.d. þarf að beita bremsum virka þær mun hægar en ella vegna vætunnar á felgunum og í bremsuklossunum.

Næturreiðin var að þessu leyti lærdómsrík því þá ríkti nánast þögn í hópnum allan tímann, klukkustund eftir klukkustund. Í dagsbirtu spjalla menn gjarna saman á ferð en það gjörbreyttist undir klukkan 23 þegar kolsvart myrkrið var skollið á. Ástæðan var náttúrulega sú, að athyglin varð að vera óskipt við eigið hjól og fólkið fyrir framan mann og til hliðar, enda lítið meira en hálf hjólslengd í næsta mann (eða konu, þær voru tvær eða þrjár í 85 þátttakenda hópi).

Ég hafði nokkrum sinnum áður hjólað 300 km í einni lotu, í 600 km ralli í fyrra frá Rennes til Brest og til baka, en þá lagði ég mig nokkrar stundir á milli ferðanna enda langt innan tímamarka sem keppendur höfðu til að klára rallið. Þá tók ég þátt í 300 km ralli í apríl og eins í fyrra, en þá villtumst við nokkrir í myrkri í byrjun, tókum eins og 30 km aukakrók og fórum því röska 330 km! Var það sem sagt lengsta reið mín þar til nú. 

400 km rallið var einkar ögrandi viðfangsefni og kallaði á góðan undirbúning og slurk af heilbrigðri skynsemi. Líkamlega kveið ég engu því að baki frá áramótum voru tæplega 5.700 kílómetrar á hjólhesti mínum. Hins vegar ríkti bæði eftirvænting og e.t.v. pínulítill kvíði gagnvart því að hjóla gegnum nóttina. Myndi hópur sem maður væri í stoppa ef það púnkteraði (það orð var alltaf notað á æskuárunum á Raufarhöfn þegar dekk sprakk)? Eða tæki þá við einmana reið þar sem maður nyti ekki lengur sameinaðra krafta hópsins við að skiptast á að leiða og rata? Á þessar spurningar reyndi ekki þar sem ekki sprakk hjá mér. Það kom hins vegar fyrir tvo samferðarmenn – og þá var auðvitað stoppað enda tekur ekki nema um 10 mínútur að skipta um slöngu og hjólamenn yfirleitt það hjartagóðir að þeir skilja menn ekki eftir eina í reiðileysi við aðstæður sem þessar.

Fyrir utan að þurfa vera í góðri æfingu til að hjóla slíka vegalengd þarf að passa upp á að nærast vel og drekka á leiðinni – og vera með nesti því að nóttu til, aðfaranótt sunnudags, er hvergi neitt í gogg að fá. Ég útbjó nestisskammt sem ég bar í litlum bakpoka; sex litlar samlokur sem ég sporðrenndi á 50 km fresti, súkkulaði, orkustengur og þar fram eftir götunum. Gekk planið nokkuð vel upp og ekki mátti minna vera – góð reynsla til að byggja á síðar.

Síðast, en ekki síst, þarf mikla þolinmæði við jafn ögrandi áskorun sem 400 km hjólreiðarall. Númer eitt, tvö og þrjú er að hafa lund til að halda aftur af sér og hjóla undir þeim hraða sem maður annars telur sig ráða við. Ekki síst til að byrja með og helst alla leið, ef vel á að fara. Ég á því ekki að venjast að rúlla á 25-26 km hraða og nokkru hægar upp brekkur. En því lengra sem hjólað er því meiri nauðsyn að halda aftur af sér, ætli maður alla leið í mark.

Þess vegna var meðalhraðinn yfirleitt ekki nema um 25 km/klst þegar ég tékkaði. En það lifnaði aðeins yfir tempóinu þegar um 250 km voru að baki, og ekki síst eftir að tók að birta. Um svipað leyti splundraðist hópurinn sem ég hafði lengst af verið með. Þegar um 90 km voru eftir vorum við aðeins þrír eftir í honum sem héldum saman.Um 50 km frá marki sleppti ég þeim, lagði ekki eins hratt í um tveggja km langa brekku á borð við Kambana, enda þeir báðir mun yngri en ég og alla vega annar þeirra þrælsterkur. Kom  mér á óvart að sjá hann nota stærra tannhjólið að framan upp flestallar brekkur.

Ég gerði mér í sjálfu sér engar vonir um að ná þeim aftur, hugsaði bara um það eitt að halda vel á spöðunum sjálfur, halda góðum dampi sem eftir var, oftast gegn vindi, enda kominn á slóðir sem ég þekkti frá Rennes-Brest-Rennes rallinu frá í fyrrasumar. Eftir um 20 km sá ég hjólamann í gulu vesti um það bil kílómeter á undan. Og eftir því sem nær dró bænum þar sem síðasta kontról fór fram nálgaðist hann jafnt og þétt. Var þá annar fyrrum félaga minna þar á ferð og renndi ég í hlað á tékkstaðnum rétt á eftir honum. Urðu fagnaðarfundir en hann hafði sleppt þeim sterka 10 km seinna en ég. Ákváðum við að hafa samfylgd sem eftir var, ásamt einum náunga sem kom í tékkið miklu fyrr og safnaði þar kröftum. Sá sterki var að leggja upp í lokasprettinn þegar ég náði þeim í þessum bæ.

Já, ég tala um tékk, en maður verður að geta sýnt og sannað að maður hafi farið viðkomandi keppnisleið. Fær maður við upphaf ferðar nokkurs konar loggbók sem tékkstaðirnir hafa verið færðir inn í og það tímabil sem menn verða að fara um þá staði. Í fyrstu tveimur tékkbæjunum, Malestroit og Guemene sur Scorff í Morbihan, snöruðum við okkur inn á krár og fengum bækurnar stimplaðar og færðum inn komutíma. Á þeim  síðarnefnda renndum við í hlað 10 mínútum fyrir miðnætti.

Þar gáfu flestir sér tíma til að nærast og góður var vel sykraður kaffibolli fyrir nóttina. Á næstu þremur tékkstöðum var viðbúið að allt væri lokað. Því vorum við með sérstök póstkort stíluð á mótshaldara og merkt rallinu sem við gátum skrifað nöfn okkar og komutíma í viðkomandi bæ og sett í næsta póstkassa. Þau kort bærust mótshaldara strax eftir helgi og gæti hann þá gengið úr skugga um að allt væri eðlilegt enda geyma þeir loggbækurnar fyrst um sinn til að kanna að allt hafi farið fram samkvæmt ritúalinu.

Og auk póstkorts var boðið upp á að menn notuðu greiðslukort sitt til úttektar í hraðbanka á tékkstað og legðu fram kvittun við komu í lokahöfn enda væri á henni bæði nafn og staðsetning viðkomandi banka og tímasetningar. Póstkortið notuðum við í bænum Chateauneuf-de-Faou á Finistere, en þá voru 210 km að baki. Og loksins að stytta upp.

Næsta tékk var 30 km seinna, í bænum Huelgoat, sem var lengra til vesturs frá Saint-Méen-le-Grand en nokkur annar bær. Þar hafði ég farið um í fyrra í Rennes-Brest-Rennes rallinu. Er við renndum inn í miðbæinn í leit að banka fönguðu ljós í bakaríi athygli okkar. Vantrúaðir vorum við reyndar á að þar væri einhver klukkan 4:15 að morgni sunnudags. Bönkuðum á búðarglugga en fengum ekkert svar. Smokruðu einhverjir sér inn í húsasund við hliðina og knúðu dyra baka til. Var hurðinni hrundið upp nær samstundis og þar inni voru fjórir bakarar, þrír karlmenn og kona, á fullu.

Tóku þau okkur fagnandi og innsigli bakarísins var snimmhendis komið í loggbókina. Og til að kóróna huggulegheitin skelltu bakararnir bakka fullum af bakkelsi, súkkulaðibrauði  og rúsínusnúðum á borðið og buðu okkur að borða sem við gætum. Létu menn ekki segja sér það tvisvar því þarna var vænn skammtur af kaloríum í hverjum bita. Og þegar við vorum að ljúka við átið rann annar hópur í hlað, um 15 mínútum á eftir okkur, og naut einnig höfðingsskapar bakaranna. Þarna fóru a.m.k. 30 mínútur í tékk og bakkelsisát og framundan 97 km reið í næsta kontról, Loudeac í Côtes-d’Armorsýslu. Á þeim áfanga eru margar langar og þrælslegar brekkur fyrir menn sem verið hafa á ferð hátt í 300 km.

Enda tók um 15 manna hópurinn fljótlega að gliðna, ekki síst eftir að birta tók og ferðin að aukast. Losnuðu menn smám saman aftur úr uns við vorum þrír eftir. Komum við fyrstir saman til Loudeac á níunda tímanum og þar var hressandi að fá heitt súkkulaði og kók á krá og klára sem mest af því sem eftir var af nestinu, enda ekki nema röskir 60 km eftir. Smám saman dreif aðra samferðarmenn næturinnar að en nú var biðlund tekin að minnka og lögðum við þremenningarnir af stað án þeirra. Rúmum 10 km eftir þetta sleppti ég svo hinum ágætu Bretónum, eins og fyrr er nefnt, í brekku sem ég líkti við Kambana.

Strax í byrjun rallsins rauk um 10-15 manna hópur af stað og skar sig fljótt frá þeim hópum sem á eftir komu. Og áður en myrkrið skall á var hann horfinn sjónum. Í honum var sá sem fyrstur lauk rallinu, um klukkan 8:30 á sunnudagsmorgni. Það er eins og einhverjir úr þessum hópi hafi ekki þolað hraðann og dregist aftur úr því ég varð níundi í mark af 85 þátttakendum og Bretóninn sterki, sem ég margnefni, varð áttundi. Við kláruðum rétt fyrir hádegi og höfðum þá verið á baki vel á sextándu klukkustund. Um tvær klukkustundir fóru í tékkstoppin en við þau gáfu menn sér jafnframt tíma til að nærast og bíða jafnvel eftir öðrum til að stækka hópinn og þétta raðirnar, því mun auðveldara er fyrir hvern og einn að hjóla í hópi en vera einsamall. Á leiðinni reiknast mér til að ég hafi haft samfylgd af öðrum, misjafnlega mörgum en oftast talsverðum fjölda, í 365 kílómetra. Og aldrei einn á báti fyrr en eftir tæpa 350 km. Það var indælt.

Frá síðustu tékkstöðinni, í smábæ að nafni St. Vran, voru ekki nema 22 km eftir til Saint-Méen-le-Grand. Með goluna í bakið og næstum því flata leið var rúllað vel, sjaldnast undir 35-40 km/klst. Þvílík ánægja að renna inn í bæinn hans Bobet. Ég verð að skreppa síðar og skoða safnið hans.

Með þessu ralli hef ég styrkt enn stöðu mína gagnvart París-Brest-París keppninni í ágústlok á næsta ári. Kominn með næstbesta forskráningarrétt en vegna vinsælda er útlit fyrir að kvóti verði á þátttöku í fyrsta sinn. Þetta rall fer farm á fjögurra ára fresti og voru keppendur árið 2007 samtals 5311, þar af 2294 frá Frakklandi en meirihlutinn var frá 45 öðrum löndum. Er búinn að fara gegnum undankeppni (BRM) í 200 km, 300 km og 400 km. Til álita kemur að fara svo 600 km í sumar, en svona röll þarf ég að fara aftur í gegnum á næsta ári til að fullgilda skráningu í P-B-P. Sem sagt, eitthvað til að vinna að og stefna næstu 15 mánuðina eða svo!


Setið við imbann 3:24 stundir á dag!

Þá er búið að reikna það út, að meðaltals Frakkinn situr fyrir framan sjónvarpstækið að jafnaði í þrjár klukkustundir og 24 mínútur hvern einasta dag.

Þetta gildir fyrir tímabilið frá nýársdegi sl. Þar til í gær, 28. desember. Og segir að áhorfið sé ámóta og það var í fyrra. Reyndar var áhorfið í desember, sem er að líða, þremur mínútum lengra en í fyrra, eða 3 :46 stundir á mann að meðaltali.

Hreint ótrúleg tímaeyðsla, segi ég nú bara. Þó skal játað, að til eru þeir dagar á árinu, að ég gerist meðaljón í glápi. En það einskorðast við útsendingar frá Frakklandsreiðinni á hjólum (Tour de France). Ekki allar vikurnar þrjár sem keppnin stendur, heldur valda daga og þá sérstaklega þegar riðið er um fjallahéruðin. Mér finnst yfirleitt auðvelt að réttlæta það áhorf mitt !

Þótt Frakkar glápi reiðinnar býsn á sjónvarp þá hafa þeir ekki roð við Serbum, sem eru heimsmethafar í sjónvarpsáhorfi; sannkallaðir þrælar imbans. Meðalserbi horfir 4:53 klst. á dag. Bandaríkjamenn eru næst afkastamestir með 4:37 stundir við skjáinn og Japanir í þriðja sæti með 4:32 stundir.


Jólunum skverað af

Frakkar eru ekki lengi að skvera jólunum af. Mun fljótari en Íslendingar. Hér er unninn fullur vinnudagur á aðfangadag, verslanir opnar nánast eins og venjulega. Og annar í jólum er ekki til, í ár var það bara venjulegur laugardagur og athafnalíf þá með venjulegum hætti.

Mig grunar að fáir verji jafn mörgum dögum til jólahalds og Íslendingar, en bið um að vera leiðréttur ef einhver veit betur.

Hjá flestum Frökkum hefst jólahaldið á aðfangadagskvöld en jólamáltíðin er þó yfirleitt snædd síðar um kvöldið en Íslendingar eiga að venjast. Meðal annars þurfa mæður og feður að komast heim úr vinnu sem lýkur sjaldnast fyrr en undir kvöld. 

Hjá mörgum hefjast jólin ekki fyrr en 25. desember og er jóladagurinn einasti frídagurinn um jólin. Reyndar voru bakarí og blómabúðir opnar að morgni hans hér í mínum heimabæ. Bæði svo menn gætu fært gestgjöfum sínum blóm og þeir sótt gómsætan eftirrétt eða kaffimeðlæti til bakaranna.

Mér hefur fundist auglýsingar og annað umstang vegna jóla vera minna í sniðum en ég átti að venjast á höfuðborgarsvæðinu íslenska. Allt er þetta eitthvað hófstilltara þótt mikið sé lagt upp úr því að njóta hátíðar ljóssins með góðum gjöfum og örlæti í mat. Fjölskyldur leggja áherslu á að vera saman og því er umferð mikil á þjóðvegum kringum jólin.

Tugþúsundir manna streyma til fjalla um jólaleytið og taka sér lengra frí en yfir helgi. Á frönskum skíðasvæðum hefur verið fullt um þessi jól og hin síðustu enda nægur snjór. Svo hefur ekki alltaf verið og minnist ég mikils harmagráturs forsvarsmanna þjónustufyrirtækja til fjalla fyrir tveimur til þremur árum.

Þeir eru öfundsverðir sem í snjóinn sækja. Íslenskir kunnáttumenn segja mér t.d. að frönsku skíðasvæðin taki þeim austurrísku fram að öllum búnaði. Sjálfur naut ég rúmlega hálfrar mánaðar dvalar í frönsku Ölpunum meðan vetrarólympíuleikarnir fóru þar fram 1992. Það rennur mér aldrei úr minni.

Aftur að sjálfu jólahaldinu. Vart er hægt að tala um einhvern jólarétt, slík er fjölbreytnin og úrvalið mikið. Kalkúnn er þó sennilega algengasti rétturinn á aðfangadagskvöldi eða í hádeginu jóladag. Annars er jólamáltíðin yfirleitt margrétta, ekki bara þrírétta, heldur mun fleiri. Einn réttur tekur við af öðrum og því jafnvel setið  klukkustundum saman til borðs.

Ekki get ég dæmt mikið um kirkjusókn en skilst hún sé almennt dræm. Það hefur jú komið í ljós í mælingum, að rúmur helmingur Frakka er tiltölulega trúlaus. Þess má geta, að hér hefur ríkt aðskilnaður kirkju og ríkis í röska öld.

Sá skemmtilegi siður er hér í landi, að menn hafa út janúar til að senda kveðjur í tilefni jóla- og áramóta. Jafnvel meiri áhersla er lögð á árnaðaróskir vegna nýs árs. Þeir sem "gleyma" að skrifa fyrir jólin hafa út janúarmánuð til að senda þeim kveðju sem til stóð eða svara fenginni kveðju. Á engann hallar sem sendir nýjarskort fyrir janúarlok.

 


Nýtt met á hjólinu

Þeim áfanga náði ég sl. sunnudag, 22. nóvember, að komast upp fyrir þá vegalengd sem ég lagði að baki á hjólhesti mínum í fyrra. Í lok morguntúrsins með félögunum stóð mælirinn í 12.250 kílómetrum frá síðustu áramótum. Allt síðastliðið ár lagði ég að baki 12.183 kílómetra. Og þar sem rúmur mánuður er eftir af árinu stefnir allt í að kílómetrarnir verði eitthvað á þrettánda þúsundið í ár.

Ánægður er ég með þessa þróun og sosum ekkert verið að sperrast því ég hvíldi mig tiltölulega vel á hjólinu í september. Veðurfarslega séð var það þó einn besti mánuður ársins til hjóla. En þótt þreyta hafi engin verið á ferðinni er nauðsynlegt að hvíla skrokkinn stundum.   

Frá því ég gaf sjálfum mér reiðhjólið í afmælisgjöf sumarið 2007 hef ég lagt að baki um 28.500 kílómetra á því. Langmest í hjólatúrum hér í sýslunum Ille-et-Vilaine og Cotes-d'Armor á Bretaníuskaga og Manche í Normandí og Mayenne í Pays de la Loire. Ýmist hef ég hjólað með félögunum í hjólafélaginu hér í Combourg í skipulögðum klúbbtúrum miðvikudaga og sunnudag. Einnig hef ég reynt að hjóla einn til tvo aðra daga í viku hverri og þá yfirleitt verið einsamall.

Inni í þessu í ár eru svo nokkur hjólaröll. Hið lengsta í byrjun júní, 604 kílómetrar frá Rennes til Brest á vesturenda Frakklands og til baka. Það var mjög skemmtileg áskorun en þátttakendur voru 300. Ekki er beint um keppni að ræða, en ljúka verður þó dæminu innan vissra tímamarka. Það reyndist mér létt enda með góðan undirbúning að baki.

Þetta rall var góður undirbúningur fyrir rallið frá París til Brest og til baka til Parísar, sem næst fer fram 2011. Þar verða menn að leggja að baki rúmlega 1200 kílómetra á innan við 80-90 klukkustundum, að meðtöldum hvíldum. RBR-rallið fór að mestu fram á sömu leiðum og vestari helmingur París-Brest-París liggur um.

PBP-rallið fór síðast fram 2007 og voru þátttakendur á sjötta þúsund. Margir heltust úr lestinni á bakaleiðinni frá Brest enda rigning alla dagana fjóra sem það stóð yfir. Verra getur það líklega ekki verið! Þetta rall hefur farið farm fjórða hvert ár í um hundrað ár! Og síðast voru útlendir þátttakendur fleiri en franskir, úr öllum heimshornum.

Enginn fær þó að vera með nema hafa tekið þátt í viðurkenndum úrtökuröllum sem fara fram út um allar jarðir, t.d. á Norðurlöndunum en nefna má, að Danir eru mjög duglegir að mæta til þátttöku í Parísar-Brest-Parísar hjóladæminu. Venjan hefur verið að þessi röll fara fram sama ár en í fyrsta sinn hér í landi verður hægt að öðlast þátttökurétt ári fyrr með því að ljúka sérstökum úrtökuröllum, 200 km, 300 km, 400 km og 600 km, en einnig verða í boði 1000 km röll. Með röllunum í ár hef ég klárað það sem til þarf og horfi því bjartsýnn til rallanna á næsta ári og ætla mér að kvalifisera þá fyrir P-B-P rallið 2011. Það verður ágætt að geta undirbúið sig í ró og næði síðasta árið og tékkað sig af í nokkrum langröllum um vorið og sumarið, en rallið mikla fer fram seint í ágústmánuði. 

Svona álag á reiðhjól, 28 þúsund kílómetrar á rúmlega tveimur árum, bitnar á aflrásinni. Góð keðja endist ekki nema um 10.000 km og tannhjól eitthvað álíka. Og dekkin slitna og þarfnast líka endurnýjunar. Er nú komið að því að endurnýja tannhjólakassettuna á afturfelgunni eina ferðina enn og minna pedalatannhjólið. Um það sér hjólafélagi og sérlegur tæknimaður klúbbsins, gamall fagmaður sem rekur hjólabúð og viðgerðarverkstæði í nágrannabæ.    

(Um muninn á frístundahjólurum og atvinnumönnum má nefna að þeir síðarnefndu skipta um keðju á 2.000 til 3000 km fresti og eru þó með miklu vandaðri og dýrari íhluti en aðrir! Og hjól þeirra kosta á annan tug þúsunda evra, til samanburðar kostaði mitt 640 evrur og telst sæmilegt byrjandahjól. Milli atvinnumanna og frístundahjólamanna eins og mín eru tvö stig keppnismanna, áhugamanna annars vegar sem æfa og keppa af hörku og hins vegar svonefndir ástríðuhjólamenn sem eru eiginlegar frístundahjólamenn sem taka reglulega þátt í keppnum ýmiss konar)

Eins og nærri má geta, eru hjólreiðar á öllum stigum mjög vinsælar í Frakklandi. Byggja þær á langri hefð. Segja má, að ég hafi sogast inn í heim hjólreiðanna eftir að ég flutti hingað út. Útiveran sem þessu fylgir er góð, maður kynnist nánasta umhverfi vel, er oftast í skemmtilegum félagsskap. Og heilsubótin sem þessu fylgir er fín.   

    


Ferðalangar gætu þurft að borga fyrir björgun

Franskir ferðalangar sem rata í vegvillur, einkum á varasömum svæðum í veröldinni, gætu þurft að borga fyrir björgunaraðgerðir þurfi ríkisstjórn þeirra að koma þeim til bjargar.

Samkvæmt drögum að lagafrumvarpi á vegum franska utanríkisráðuneytisins yrðu ferðalangar að endurgreiða fargjöld og annan kostnað sem til félli við að bjarga þeim af átakasvæðum, úr klóm mannræningja eða úr öðru fjandsamlegu umhverfi.

 

Embættismenn segja tilgang laganna að gera ferðalanga ábyrgari og meðvitaðri um hættur af grasserandi sjóræningjastarfsemi víða um heim og mannránum.


 


Borgaði milljónir svo hundurinn gæti flogið á fyrsta farrými

Ekki er öll vitleysan eins, kom mér í hug er ég las um sextuga ísraelska konu sem borgaði um 30.000 evrur, vel á sjöttu milljón króna, svo hún gæti haft kjölturakka sinn með sér á fyrsta flugfarrými frá París til Tel Aviv.

Af hálfu frúarinnar, sem sögð er heita Rivkah, kom ekki til greina að hvuttinn Orchuk yrði settur í búr í farangurslest þotunnar. Þar gæti hann orðið einmana og óttasleginn, sagði konan. Af hálfu El Al félagsins kom ekki til greina að hundurinn, sem er af boxerkyni, lægi í kjöltu hennar í fluginu.

Heldur skyldi hann vera í búri á fyrsta klassa, en til að svo mætti verða varð að fjarlægja nokkur sæti til að koma því fyrir. Já, og frúin borgaði einnig undir dýralæknir sem fylgdist með heilsufari Orchuk þær fjórar klukkustundir sem hann var skýjum ofar.

"Ég vildi hafa barnið mitt hjá mér í fluginu svo ég gæti hlúð að því," sagði Rivkah. Hundinn hafði hún alið upp frá því hann kom í heiminn fyrir rúmum átta árum og samband þeirra eins og móður og barns.

"Hann er barnið mitt, ekki hundur. Og hann verðskuldar það besta," bætti hún við. Og sagðist ekki sjá eftir uppsettu verði fyrir flutninginn.

Talsmaður flugfélagsins El Al segir félagið aldrei hafa staðið frammi fyrir beiðni sem konunnar. "Eftir að hún útskýrði hið sérstaka samband sitt við hund sinn og kvaðst fúslega myndu borga aukalega fyrir það féllumst við á beiðni hennar," sagði talsmaðurinn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband