Minn maður Voeckler

Það hefur verið hrein unun að horfa á og fylgjast með Frakklandsreiðinni [Tour de France]. Og ekki leiddist mér í dag fyrir framan sjónvarpið þegar uppáhaldsmaður minn, hinn franski Thomas Voeckler, vann 15. dagleiðina í Pýrenneafjöllum.

Hið eina sem skyggir á sigur Voecklers var sú dramatík sem átti sér stað er Andy Shcleck frá Lúxemborg varð fyrir því að keðjan hljóp útaf fremri tannhjólunum rétt eftir að hann hóf sprett til að reyna hrista Alberto Contador af sér. Þá voru aðeins 3 km upp á efsta tind leiðarinnar. 

Schleck varð að stöðva fák sinn í brekkunni og kippa hlutum í lag. Á því einu tapaði hann miklum tíma og Contador gaf í upp brattann á meðan og hafði af honum gulu forystutreyjuna. Það er ekki nema rúm vika síðan ég varð sjálfur fyrir svona keðjuhoppi, einnig í síðustu brekku í rúmlega 100 km túr og keppni við tvo félaga mína. Varð líka að stoppa og þræla keðjunni upp á tannhjólin, eins þrifalegt og það nú er!

Þetta var eitt af þessum atvikum sem geta skipt svo miklu og haft svo miklar afleiðingar í för með sér að það er á við margt dramaverk. Við því er ekkert að gera og ranglátt að saka Contador um ódrengskap með því að setja á sprett er hann sá hvernig fyrir eina keppinaut sínum var komið.

Og Schleck tvíeflist vonandi við þetta, nú þarf hann ekki lengur að verja gulu treyjuna. Getur í staðinn sótt ; verður í hlutverki veiðimannsins sem þreytir bráð sína til uppgjafar. Þess vegna verður bara skemmtilegra að fylgjast með á morgun og fimmtudag en þá verða riðnar tvær erfiðustu fjallaleiðir túrsins. Síðasta hindrunin verður hinn voldugi og frægi tindur Le Tourmalet.

Best að snúa sér aftur að Voeckler. Hann er einstaklega vinsæll hjólreiðamaður og var sigri hans fagnað vel og lengi í Pýrenneafjöllum í dag. Ekki óskemmtileg afmælisgjöf en hann átti 31 árs afmæli  í dag. Er þetta fimmti áfangasigur Frakka í reiðinni í ár og því mikil gleði hér í landi. Liðsfélagi hans hefur skrýðist hvítu treyjunni með rauðu doppunum en hana hlýtur sá í dagleiðarlok sem flest stig hefur hlotið í klifurkeppni hjólreiðagarpanna.

Með sigrinum í Bagnères-de-Luchon vann Voeckler dagleið í Frakklandsreiðinni öðru sinni. Hann vann sína fyrstu dagleið í fyrra, í Perpignan. Árið 2004 varð hann þjóðhetja er hann skrýddist gulu treyju forustusauðsins í 10 daga, eftir að hafa leitt lið sitt til sigurs í keppni liða við klukkuna á fyrsta degi.

Voeckler var í hópi um 10 knapa sem slitu sig lausa frá megin hópnum þegar um 100 km voru eftir af 187 km leið. Og er brattinn fór að aukast á síðasta fjallinu sem ríða þurfti yfir, Port de Balès, lét hann til skarar skríða svo um munaði. Hélt enginn í við hann og þótt enn væru um 30 km í mark hélt Voeckler öruggu forskoti alla leið. Naut hann sigursins, reis upp í hnakknum og rúllaði rólega síðasta kílómetrann af fögnuði. Áhorfendur í tugþúsundatali hvöttu hann upp fjöllin og mannskari síðustu kílómetrana í bænum Bagnères-de-Luchon fagnaði honum vel og kröftuglega.

Armstrong að sækja í sig veðrið

Lance Armstrong kom betur frá keppni í dag en undanfarið og var aðeins rúmri hálfri mínútu eftir Schleck og rúmri mínútu á eftir Contador. Var í hópi með þeim áður en sprettirnir framangreindu og dramatísku hófust. Fór svo að með frammistöðu hans og félaga að lið Armstrongs tók forystu í keppni liðanna en þar ræður tími hjólamannanna um röð liða.

Eftir áföll og mótlæti framan af virðist Armstrong ferskur og í feikna góðri æfingu. Ég held hann hafi ekki sagt sitt síðasta orð og muni freista þess að vinna eins og eina dagleið. Hví ekki síðustu fjallaleiðina? Eða á morgun. Ég er viss um að hann getur fengið Andy Schleck í lið með sér til að keyra á fjallakollana miklu sem framundan eru.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þetta var svo sannarlega spennandi og fúlt að keðjan skyldi fara af hjá Andy Schleck. Annars var gaman að sjá í dag á 16 leið hversu harður Armstrong var og um tíma hélt ég að hann myndi jafnvel vinna dagleiðina. Vonandi nær hann að landa eins og einum sigri þar. Ég tek ennfremur undir orð þín að nú verður spennandi að sjá Andy S. fara í hlutverk veiðimannsins og vonandi tekur hann hressilega á því á næstu dagleiðum til að ná aftur gulu treyjunni.

Dramatíkinni er örugglega ekki nærri því lokið og margt spennandi framundan. Ég bíð spenntur eftir tímatökunni sem er alltaf ótrúlega skemmtilega og getur skipt sköpum þar sem hjólreiðakapparnir geta einungis treyst á sjálfa sig en ekki liðsfélagana.

Steinn Jóhanns (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 22:18

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sæll Steini

Sammála með Armstrong, það var gaman að sjá gamla eldmóðinn blossa. Morgundagurinn verður spennandi - þá ráðast e.t.v. úrslitin, í klifrinu upp á Tourmalet-tind. Vonandi þó ekki en Schleck þarf að ná forystu þar á Contador til að eiga möguleika á sigri. Hingað til hefur Contador nefnilega verið öflugri í tímatökum. Schleck hefur þó verið að bæta sig á því svellinu, vann t.d. tímatökur Luxemborgartúrsins fyrr í sumar. 

Ágúst Ásgeirsson, 21.7.2010 kl. 08:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband