Mitterrand sagður á leið í ráðherrastól

Búist er við þó nokkurri uppstokkun í frönsku ríkisstjórninni á morgun, miðvikudag. Einhverjir ráðherrar muni skipta um stóla, aðrir missa sína og nýir menn taka við þeim. Meðal þeirra sem sagðir eru verða ráðherrar er Frederic Mitterrand, bróðursonur Francois Mitterrand fyrrverandi forseta.

Hermt er að Mitterrand, sem er rithöfundur og leikstjóri, taki við menningarmálaráðuneytinu af Christine Albanel sem þykir hafa farið halloka í tilraunum til að koma mikilvægum málum gegnum þingið, þ. á m. lögum gegn sjóræningjastarfsemi á internetinu.    

Á vefsetri blaðsins Nouvel Observateur er skýrt frá því að Frederic Mitterrand hafi kallað nánustu samverkamenn í Medicishöllu í Róm, útibúi frönsku akademíunnar þar, til fundar við sig í gær. Þar tilkynnti hann þeim að hann væri á förum aftur til Parísar til að taka við nýju starfi. Nicolas Sarkozy útnefndi hann til starfans í Róm í júní í fyrra.

Annar sósíalisti er einnig nefndur í starf menningarmálaráðherra. Þar er um að ræða annan leikstjóra, Yamina Benguigui, sem er aðstoðarkona Bertrands Delanoe borgarstjóra í París.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband