Laumaðist inn í landið í boði breskra landamæravarða

Breskir landamæraverðir eru skömmustulegir þessa dagana, eftir að upp komst að ólöglegur innflytjandi laumaðist frá Frakklandi til Englands í boði þeirra, ef svo mætti segja. Hann kom sér fyrir í undirvagni rútu þeirra á leiðinni um Ermarsundsgöngin til Englands.

Bresku landamæraverðirnir voru við störf í landamærastöðvum Coquelles í Frakklandi, miðstöð ferða um göngin undir Ermarsund þar sem ólöglegir innflytjendur reyna að smeygja sér með farartækjum til Englands.

Verðirnir, sem eru starfsmenn breska útlendingaeftirlitsins, höfðu enga hugmynd um aukafarþegann í rútu þeirra er hún fór til baka til Englands um göngin. Það var ekki fyrr en þeir komu til Folkestone á suðurströnd Englands að þeir urðu hins óboðna samferðamanns varir. Er hann laumaðist úr fylgsni sínu við eldsneytistank rútunnar.

Ekki tókst þeim þó að hafa hendur í hári hans og komst hann undan og úr augsýn þeirra á hlaupum. Hér þykir um hneyksli að ræða og hefur innanríkisráðuneytið í London hrundið af stað rannsókn.

Þrátt fyrir þetta „kjaftshögg“ leggur breska landamæraeftirlitið áherslu á, að komið hafi verið í veg fyrir tilraunir 28.000 aðila til að komast inn í Bretland með ólögmætum hætti í fyrra, 2008.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband