Færsluflokkur: Bloggar

Áhorf meira á einkasjónvarp en ríkisstöðvarnar

Birtur hefur verið listi yfir vinsælustu þætti franskra sjónvarpsstöðva á nýliðnu ári. Athygli vekur að  100 vinsælustu þættirnir, þ.e. þar sem áhorf mældist mest, voru allir sýndir á einkareknu stöðinni TF1.

Samkvæmt upplýsingum sjónvarpsstöðvarinnar er þetta í fyrsta sinn frá því samræmd áhorfsmæling var tekin upp í Frakklandi árið 1989 að ein og sama stöðin einokar áhorf með þessum hætti.

Litlu munaði í fyrra, en þá átti TF1 98 af 100 mest áhorfðu, ef svo mætti segja, útsendingarnar. Þetta vekur óneitanlega athygli því stöðin á í keppni við mikinn fjölda sjónvarpsstöðva, m.a. fjórar öflugar ríkissjónvarpsstöðvar, France-2, France-3, France-4 og France-5.

Sú útsending sem situr í efsta sæti eftir árið er undanúrslitaleikur Frakka og Englendinga í heimsmeistaramótinu í rugby, eða ruðningi, sem fram fór í París 13. október. Á hann horfðu 18,3 milljónir eða 67,4% heimila. Útsendingar frá íþróttaviðburðum voru áberandi því í efstu fimm sætunum voru jafn margir leikir Frakka í keppninni.

Kappræður Segolene Royal og Nicolas Sarkozy á lokaspretti forsetakosninganna sl. vor mældust með sjötta mesta áhorfið á árinu, en á útsendinguna horfðu 13 milljónir manna. Af útsendingum í 13. - 50. sæti voru 25 stakir þættir af bandarísku sakamálaseríunum CSI Miami og CSI New York.Samkvæmt mælingum Médiamétrie horfðu að meðaltali langflestir á TF1-stöðina, eða 30,7% að jafnaði hvern dag. Er það 0,9% minna jafnaðar áhorf en 2006. Í öðru sæti var France-2 með 18,1% áhorf og France-3 í þriðja með 14,1%. Skerfur áskriftarstöðvarinnar Canal+ var hins vegar aðeins  3,4% áhorf.

Frönsk kaffihúsamenning verður ekki söm

Þau tímamót urðu í Frakklandi um áramótin, að bannað er að reykja í kaffihúsum, börum og veitingahúsum. Reyndar sýndu veitingamenn og kráareigendur reykingamönnum umburðarlyndi í dag.

Margir hinna 15 milljóna reykingamanna notfærðu sér það og sátu andaktugir tottandi vindling í hálfgerði leiðslu yfir því sem koma skal. Margir býsna timbraðir eftir áramótagleði en við spýtukörlum finnst þeim ekkert ráð betra en bergja á rótsterkum kaffibolla og teyga vindling á milli sopa.

Umburðarlyndi þrýtur við lokun í kvöld og frá og með morgundeginum verða engar undantekningar gerðar. Einskis hefur mátt sín mikil óánægju þessa minnihluta landsmanna og áköll samtaka rúmlega 30.000 tóbaksbúða og bara sem farið hafa fram á vissan sveigjanleika frá reglunni. Þó að það hafi aldrei þjakað mig að sitja í reykfylltum herbergjum þá verður óneitanlega mun bærilegra að fara á öldurs- og veitingahús héðan í frá.

En óneitanlega er með þessu lokið sérstöku menningarskeiði, ef svo má segja. Fólk af öllum stéttum sest ekki lengur niður á kaffihúsi með sígarettu og bolla af sterku kaffi eins og jafnvel í árhundruð. Kaffihúsasamfélagið og menningin þar verður eflaust ekki söm eftir þetta.  

Skoðanakannanir sýna, að breiður og almennur stuðningur er við reykingabannið. þessa ráðstöfun Roselyne Bachelot heilbrigðisráðherra mótmælir því að bannið sé á skjön við frelsi einstaklingsins til orða og athafna. Segir þvert á móti að héðan í frá hafi fólk mun meira frelsi til að njóta góðs matar og góðra vína í hreinu lofti á veitingahúsum.

Þeir sem vilja freista þess að brjóta bannið eiga yfir höfði sér allt að 450 evru sekt, verði þeir staðnir að verki. Og veitingamenn hafa hvöt til þess að sjá til þess að gestir þeirra virði lögin því ellegar verða þeir sjálfir sektaðir um 750 evrur fyrir að leyfa reykingar.

Margir hafa talið að bannið verði til þess að draga muni stórlega úr reykingum og verða jafnvel mörgum hvatning til að leggja sið þennan á hilluna. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort svo verður.


Friðsamlegri áramótagleði

Sá undarlegi leikur er stundaður í frönskum borgum, og þó aðallega úthverfum þeirra, að kveikja í bílum á gamlárskvöld og nýársnótt. Að þessu sinni eyðilögðust 372 bílar sem reyndar er 6,72% fækkun frá í fyrra er þeir voru 397.

Að sögn lögreglu var kveikt í 273 bílum í gærkvöldi og fram til klukkan sex í morgun. Eldur barst í 99 til viðbótar. Fyrir ári var kveikt í 313 bílum og eldur barst í 84 aðrar. Fækkaði bílum sem beinlínis var kveikt í um 12,78% milli ára.

Mér er ekki ljóst hversu lengi þessi undarlega iðja hefur verið stunduð en hún mun eiga upptök sín austast í landinu, á Strasbourg-svæðinu. Þar var kveikt í hlutfallslega flestum bílanna í gær.

Bílar hafa annars orðið skotmark þegar óánægja hefur brotist út í ofbeldisaðgerðum, líkt og haustið 2005 eftir að tveir piltar á flótta undan lögreglu biðu bana í spennistöð í útborg Parísar. 

Einnig var kveikt í mörgum bílum í nokkurra daga ofbeldisaðgerðum í Parísarúthverfinu Villiers le Bel í nóvember sl. eftir að tveir ungir menn á stolnu mótorhjóli biðu bana í árekstri við lögreglubíl.

Þetta leiðir hugan að því að Segolene Royal spáði því að allt færi í bál og brand í frönskum bæjum og borgum eftir að hún beið lægri hlut fyrir Nicolas Sarkozy í forsetakosningunum hér í landi í vor. Þar höfðu sósíalistar rangt fyrir sér eins og um svo margt annað. Mjög takmörkuð og staðbundin - og tiltölulega fámenn - mótmæli áttu sér stað í aðeins nokkra daga eftir kosningar.

Að sögn lögreglu var nýjársnóttin tiltölulega friðsamleg og spenna í „viðkvæmum“ hverfum áberandi minni en undanfarin ár. Vegna ofbeldisaðgerða voru 259 manns handteknir á Parísarsvæðinu, en til samanburðar voru þeir 258 í fyrra eða einum færri. Aðeins fjórir lögreglumenn meiddust lítilsháttar í ryskingum. 

Lögð var áhersla á að borgararnir gætu kvatt gamla árið og fagnað nýju í friði og ró en 400.000 manns söfnuðust saman þeirra erinda á Champs Elysees-breiðgötunni í gærkvöldi. Er það svipaður fjöldi og í fyrra. Til að tryggja að allt færi friðsamlega fram gætti 13.000 manna lögreglulið öryggis á Parísarsvæðinu fyrir tilstilli Michele Alliot-Marie innanríkisráðherra.

 


Gleðilegt ár frá Frakklandi

Ætlunin er að rita hér öðru hverju nokkrar línur, eftir efni og aðstæðum. Líklega nær einungis um franskt samfélag og frönsk málefni eða eitthvað Frakklandi tengt. Fyrst byrjað er á nýársdegi er við hæfi að stíga fyrst niður fæti í áramótaávarpi forsetans, Nicolas Sarkozy.

Hann rauf allar hefðir, eins og honum er tamt, með því að ávarpa þjóðina beint. Með því taldi hann sig koma nær fólkinu. Ávörp forvera hans allra hafa verið tekin upp áður. Því má segja að Sarkozy hafu tekið áhættu því ekki verður aftur tekið sem aflaga fer í beinni útsendingu. Stöðva má hins vegar myndavélarnar og byrja upp á nýtt ef senting misferst í upptöku sem spiluð er síðar.

Það var eins og hann hefði aldrei gert annað en að flytja svona ávarp því Sarkozy var afar öruggur og hélt sínu striki út í gegn. Virtist vel hvíldur eftir gott jólafrí í Egyptalandi þar sem hann dvaldi með unnustu sinni Carla Bruni. Ítalskir fjölmiðlar segja hann hafa beðið um hönd hennar. Hún er glæsileg og vinnur fyrir sér sem söngkona en ekki kann ég að meta nýju plötuna hennar, en það er önnur saga.

Í ávarpinu kváðu við kunnug stef; forsetinn hét því að halda áfram umbótastefnu sinni af krafti og á árinu 2008 yrði Frakkland að verða driffjöður upprisu hinnar gömlu Evrópu, hins gamla heims. Sagði sem fyrr að það viðfangsefni að breyta og nútímavæða Frakkland væri gríðarlegt verk „vegna þess hversu langt aftur úr“ landið hefði dregist á undanförnum áratugum.

„En hafið hugfast, staðfesta mín er óbilandi. Þrátt fyrir hindranir, þrátt fyrir erfiðleika, mun ég gera það sem ég lofaði að gera,“ sagði Sarkozy. Frakkar taka við forystuhlutverki í Evrópusambandinu (ESB) 1. júlí. „Látum Frakkland draga vagninn, við því býst umheimurinn af okkur. Gamli heimurinn þarfnast endurreisnar, gerum Frakkland að driffjöður hennar. Þess óska ég fyrir árið sem framundan er,“ sagði hann.

Útaf fyrir sig boðaði Sarkozy engin nýmæli en minnti á að hann hefði á fyrstu átta mánuðunum í starfi ráðist til atlögu við brýn verkefni í efnahags- og atvinnulífi og alþjóðamálum. Frá því hann varð húsbóndi í Elyseehöll hefur hann tekist á við stéttarfélög um breytingar á lífeyriskerfi starfsmanna ýmissa opinberra fyrirtækja, bætt samskipti Frakklands og Bandaríkjanna og staðið af sér áföll í einkalífinu er eiginkona hans Cecilia skildi við hann.

„Við upphaf nýs árs hefst nýtt skeið,“ sagði Sarkozy og sagði næstu aðgerðir ríkisstjórnar sinnar myndu skjóta styrkari stoðum undir nútímavæðingu fransks samfélags, það sem hann kallaði „þjóðmenningarstefnu“ [politique de civilisation) .  Stjórnmálaskýrendur segja að ljóst megi vera að  Frakkland verður allt öðru vísi og breyttara við lok kjörtímabils Sarkozy árið 2012 en við upphaf þess nái helstu stefnumál hans fram að ganga, eins og flest virðist benda til.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband