Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Franskur saksóknari krefst þess að vísindakirkjan verði leyst upp

Saksóknarinn í París, Maud Coujard, krefst þess í fjársvikamáli á hendur vísindakirkjunni, að hinn franski armur hennar verði leystur upp. Jafnframt krefst hann þess höfuðstöðvar kirkjunnar og bókabúð verði sektaðar um fjórar milljónir evra.

Vísindakirkjan er skráð sem trúfélag í Bandaríkjunum og nýtur þar skattfrelsis sem slíkt. Hún státar þar af liðsmönnum á borð við leikarann Tom Cruise og John Travolta sem varið hafa hana opinberlega sem raunverulegt trúfélag.

Kirkjan nýtur engrar lögverndar í Frakklandi og er ekki undanþegin gjöldum. Þar nýtur hún heldur engra frægra sem stökkva fram fyrir skjöldu henni til varnar. Hefur hún ítrekað verið ásökuð hér í landi um að vera sértrúarsamtök er stundi fjárplógsstarfsemi.

Þau réttarhöld sem nú standa yfir á hendur vísindakirkjunni snúast um kvartanir fyrrverandi fylgismanna sem rúnir voru inn að skinni er þeir voru krafðir um risaframlög fyrir námskeið í fræðunum og andlega „hreinsunarpakka“. Um er að ræða tvær féflettar konur sem kvörtuðu til lögreglu í desember 1998 og júlí 1999.

Hafðar voru rúmlega 20.000 evrur af annarri þeirra fyrir ýmis konar námskeið og vörur sem kirkjan býður liðsmönnum sínum upp á. Hin konan segist hafa verið neydd af yfirmanni hennar á vinnustað til að sækja námskeið hjá kirkjunni, sem hann var innvígður í. Rannsókn þessara mála vatt upp á sig allt þar til það kom til kasta dómstóla.

Vísindakirkjan er sökuð um að hafa stundað skipulega fjárplógsstarfsemi sem að mestu er sögð hafa verið stunduðí nafni bókaverslunar kirkjunnar. Auk þess að gera kröfu um sektargreiðslur af versluninni og höfuðstöðvunum krefst saksóknari þess, að sex af æðstu stjórnendum kirkjunnar í Frakklandi verði harðlega refsað. Þeir verði sektaðir stórt og dæmdir í a.m.k. fjögurra ára skilorðsbundið fangelsi. Meðal þessara er stofnandi vísindakirkjunnar í Frakklandi, Alain Rosenberg.

Almennt eru Frakkar mjög þenkjandi fólk og velta gjarnan fram heimspekilegum spurningum. Til að mynda þeirri hversu langt trúfrelsið nær? Og hvað skuli langt ganga í að leggja blessun sína yfir hlutina af virðingu við trúarbrögðin? Við þessum spurningum - og fleirum - fást væntanlega svör þegar dómur verður kveðinn upp í málinu á hendur vísindakirkjunni frönsku.

Fari saksóknari með sigur af hólmi verður kirkjan sakfelld um og sektuð stórt fyrir að hafa sviksamlega haft hundruð þúsundir evra af fylgismönnum sínum fyrir persónuleikapróf, andlega hreinsandi vítamín, fyrirlestra, ráðgjöf og fleira. Stærsta spurningin sem beðið er svara við, er hvort franskir dómstólar kveði á um að kirkjan skuli leyst upp.

Af hálfu kirkjunnar er öllum sakarefnum mótmælt og málaferlin sögð brjóta gegn rétti manna til trúfrelsis. Maud Coujard saksóknari segir trúarbrögð manna enga vörn í máli sem snýst um brot á hegningarlöggjöfinni. Málið snerist ekki um trúfrelsi en lögmaður vísindakirkjunnar hélt því fram, að saksóknarinn gerði kröfu um ekkert minna en dauðadóm yfir trúfélaginu.

Ekki er búist við að dómur gangi í málinu fyrr en í haust.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband