Færsluflokkur: Vefurinn
11.6.2009 | 19:37
Sjóræningjastarfsemin stjórnarskrárvarin
Stjórnlagaráðið í Frakklandi hefur reist skorður við þeim áformum ríkisstjórnarinnar að uppræta svonefnd sjóræningjastarfsemi á netinu. Það ætlaði hún að gera með sérstakri stofnun, netlöggu, sem átti að geta lokað fyrir nettengingu þeirra sem sækja sér tónlist og kvikmyndir af netinu án þess að borga fyrir.
Lög um þetta voru samþykkt í þinginu í maí og gerði ég grein fyrir þeim þá. Nú segir stjórnlagaráðið þau stangast á við stjórnarskrána. Ekki gangi að einhver opinber stofnun geti lokað fyrir netaðgang fólks. Hún gæti í mesta falli aðvarað sjóræningjana en ekki refsað þeim. Það verði að vera hlutverk dómstóla að úrskurða hvort lokað skuli fyrir netaðgang viðkomandi einstaklinga.
Sarkozy forseti studdi Hadopi-lögin svonefndu en stjórnarandstaðan með Sósíalistaflokkinn í fararbroddi lagðist gegn þeim. Hagsmunasamtök tónlistarmanna, leikara og fleiri fögnuðu tilraunum stjórnar Sarkozy til að stöðva ólöglega dreifingu efnis sem varið væri höfundarrétti.
Andstæðingar laganna hafa haldið því fram, að óheftur aðgangur að netinu ætti að vera meðal grundvallar réttinda og persónufrelsis. Sáu þeir líka fyrir sér í hinni nýju stofnun ógnvekjandi eftirlit með nethegðan fólks.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.5.2009 | 19:36
Lög um netlöggu samþykkt í Frakklandi
Þá er netlöggufrumvarp frönsku ríkisstjórnarinnar orðið að lögum, eftir að hafa fallið klaufalega í fyrstu atrennu í þinginu vegna fjarvista þingmanna flokks Nicolas Sarkozy forseta. Samþykktu báðar deildir þingsins það örugglega í gær. Fögnuðu listamenn og rétthafar um leið og þeir skömmuðust út í pólitíska fóstbræður sína í Sósíalistaflokknum fyrir að leggjast gegn frumvarpinu.
Þeir sem héðan í frá hlaða niður t.d. tónlist og kvikmyndum á netinu með ólögmætum hætti eiga nú yfir höfði sér að vera sviptir aðgangi að netinu í eitt ár. Með þessu hafa Frakkar sett algjört og strangt fordæmi í tilraunum til að vinna bug á sjóræningjastarfsemi á netinu. Og gengið sumpart gegn lögum Evrópusambandsins (ESB).
Sá sem hleður ólöglega niður eða skiptist á skrám með ólögmætum hætti fær við fyrsta brot, samkvæmt lögunum, aðvörun í tölvupósti. Við næsta brot fær hann sent aðvörunarbréf heim til sín. Og láti hann ekki enn segjast og verði staðinn að verki þriðja sinni verður nettenging hans rofin úr sambandi í heilt ár.
Og það sem meira er, ekkert þýðir fyrir viðkomandi að reyna kaupa netaðgang af öðru netfyrirtæki, girt verður fyrir þann möguleika.
Hagsmunaðilar í bæði tónlistar- og kvikmyndaiðnaði höfðu fagnað frumvarpinu og hvatt til samþykkis þess, en þau hafa sagt ólögmætt niðurhal bitna á afkomu greinanna. Hópur nafnkunnra listamanna úr ýmsum greinum, sem fylgt hefur Sósíalistaflokknum (PS) að málum, gekk á fund Martine Aubrey flokksformanns síðast í fyrradag og reyndi að telja hana á sitt band og til að fá þingmenn flokksins til að samþykkja lögin. Erindi höfðu þeir ekki sem erfiði og leyndu ekki gremju sinni í garð PS.
Ýmis neytendasamtök höfðu hins vegar sett fyrirvara eða lagst gegn lagasetningunni og sagt eftirlit sem hún kveður á um jafngilda ríkisreknum persónunjósnum. Stjórnarandstaðan með sósíalista í fararbroddi lagðist gegn frumvarpinu og sagðir það hættulegt, gagnslaust, óskilvirkt og mjög vafasamt gagnvart borgurunum.
Fyrri gerð frumvarpsins var samþykkt í öldungadeildinni í síðasta mánuði en síðar felld í fulltrúadeildinni. Tveir stjórnarþingmenn gengu til liðs við stjórnarandstöðuna og greiddu atkvæði gegn því í mótmælaskyni við að breytingartillaga þeirra náði ekki fram að ganga. Hún gekk út á að gera hinum brotlegu skylt að borga áfram netáskrift á banntímanum. Vegna fjarvista stjórnarþingamanna reið það baggamun við atkvæðagreiðslu.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.4.2009 | 12:47
Dæmdur fyrir móðgandi tölvupóst um dómsmálaráðherra
Damien Chiboub, 25 ára tölvutæknir í ráðhúsi sjöunda hverfis í París, þar sem Rachida Dati dómsmálaráðherra er borgarstjóri, hefur verið vikið úr starfi og sektaður. Ástæðan er meiðandi tölvupóstur um borgarstjórann.
Gagnslaus, getulaus, ómöguleg, alþýðan mun ná þér, hljómaði tölvupóstur um Dati, yfirmann Chiboub, sem hann sendi samstarfsmanni í ráðhúsinu. Þeim hinum sama þótti sendingin ekki fyndin og lét vita af henni. Þræðirnir voru raktir til tölfræðingsins unga sem viðurkenndi uppátækið.
Málið komst til kasta lögreglu og saksóknarinn Francoise Champonneaux fór fram á að Chiboub yrði dæmdur mánaðarlangt í fangelsi, skilorðsbundið. Hún hafnaði með öllu þeim röksemdum verjenda Chiboub um að hann hafi verið að prófa þolmörk tjáningarfrelsisins.
Þetta var algjörlega tilhæfulaus móðgun. Sé hann óánægður með stjórnmálamenn ætti hann að ganga til liðs við þrýstihóp eða stjórnmálaflokk, sagði Champonneaux.
Lögmaður Chiboub krafðist þess að málið yrði látið niður falla vegna hagsmunaárekstra þar sem Dati væri í krafti embættis dómsmálaráðherra vinnuveitandi saksóknarans. Það var ekki tekið til greina því auk þess að vera rekinn úr starfi í ráðhúsinu var Chihoub dæmdur til að borga 1.000 evrur í sekt en skilorðsbundið. Dómarinn sagði hann sekan af því að hafa móðgað opinberan embættismann með tölvupóstinum.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2009 | 20:13
Bæjarstjórinn segist vera netfangi
Frakkar geta verið skemmtilega uppátækjasamir og óbundnir af tepruskap. Bæjarstjórinn í Saint-Prix í héraðinu Val-d'Oise í Frakklandi, Jean-Pierre Enjalbert, er í flokki slíkra. Hann gekk í dag inn á lögreglustöð í bænum d'Ermont norður af París og sagðist gefa sig fram sem fangi í nafni allra þeirra sem hefðu stundað niðurhal á internetinu.
Með þessu var hann að mótmæla fáránleika lagafrumvarps um ráðstafanir gegn ólöglegu niðurhali en það kom til kasta franska þingsins í dag. Enjalbert krafðist þess að vera handtekinn sem fulltrúi niðurhala sem hann sagði að væru ekki bandittar.
Eftir að hafa fengið áheyrn hjá lögreglustjóranum yfirgaf bæjarstjórinn í Saint-Prix, 7.200 manna bæ norður af París, lögreglustöðina sem frjáls maður.
Frumvarpið um ráðstafanir gegn og bann við niðurhali var fellt í fulltrúadeildinni 9. apríl sl., en örlítið breytt var það aftur á dagskrá deildarinnar í dag. Enjalbert bæjarstjóri segist vera andvígur lögunum og þeirri bælingu sem í þeim fælist. Netið sé gríðarleg gagnaveita sem viturlegra væri að koma einhverri röð og reglu á fremur en að stofna til óskilvirkrar netlöggu. Raunverulegir netræningjar myndu fljótt finna leiðir og smugur framhjá örmum hennar.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2009 | 16:39
Netlöggufrumvarp Sarkozy aftur fyrir franska þingið
Verði frumvarp fyrir franska þinginu að lögum, sem allt útlit er fyrir, eiga þeir sem hlaða niður tónlist á netinu með ólögmætum hætti yfir höfði sér að vera sviptir aðgangi að netinu í eitt ár. Frumvarpið var tekið til umræðu í þinginu í dag, en það var óvænt fellt fyrr í mánuðinum, vegna fjarvista stjórnarþingmanna.
Nái málið fram að ganga, sem er talið formsatriði, hafa Frakkar sett algjört og strangt fordæmi í tilraunum til að vinna bug á sjóræningjastarfsemi á netinu. Sá sem hleður ólöglega niður eða skiptist á skrám með ólögmætum hætti færi við fyrsta brot aðvörun í tölvupósti. Við næsta brot fær hann sent aðvörunarbréf heim til sín og láti hann ekki enn segjast og verði staðinn að verki þriðja sinni verður nettenging hans rofin úr sambandi í heilt ár.
Hagsmunaðilar í bæði tónlistar- og kvikmyndaiðnaði hafa fagnað frumvarpinu og hvatt til samþykki þess, en þau hafa sagt ólögmætt niðurhal bitna á afkomu greinanna.
Ýms neytendasamtök hafa hins vegar sett fyrirvara eða lagst gegn lagasetningunni og sagt eftirlit sem hún kveður á um jafngilda ríkisreknum persónunjósnum. Stjórnarandstaðan með sósíalista í fararbroddi leggst gegn frumvarpinu og segir það hættulegt, gagnslaust, óskilvirkt og mjög vafasamt gagnvart borgurunum.
Fyrri gerð frumvarpsins var samþykkt í öldungadeildinni en síðar felld í fulltrúadeildinni. Tveir stjórnarþingmenn gengu til liðs við stjórnarandstöðuna og greiddu atkvæði gegn því í mótmælaskyni við að breytingartillaga þeirra náði ekki fram að ganga. Hún gekk út á að gera hinum brotlegu skylt að borga áfram netáskrift á banntímanum. Vegna fjarvista stjórnarþingamanna reið það baggamun við atkvæðagreiðslu.
Ljóst er, að flokkur Nicolas Sarkozy forseta mun binda þannig um hnúta nú, að nógu margir þingmenn verði viðstaddir þegar frumvarpið verður tekið til atkvæða.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)