Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Páfagaukurinn sló fjármálasnillingunum við!

Maður skyldi ætla, að þeir séu skömmustulegir 10 sérfræðingar í hlutabréfaviðskiptum sem tóku þátt í fjárfestingakeppni sem fram fór í Seoul í Suður-Kóreu. Meðal þátttakenda var fimm ára kvenpáfagaukur frá Papúa Nýju Gíneu. Hann reyndist flestum hámenntuðum sérfræðingunum snjallari.

Páfagaukurinn heitir því frumlega nafni Ddalgi, eða Jarðarber, í íslenskri þýðingu. Keppnin fór fram á vegum fyrirtækis að nafni Paxnet sem sérhæfir sig í hlutabréfaupplýsingagjöf á netinu.

Dalgi byrjaði með 60 milljónir wona sýndarfjár eins og hver og einn sérfræðinganna, en upphæðin jafngildir 48.000 dollurum. Í hverjum viðskiptum voru bréf keypt eða seld fyrir 10 milljónir wona.

Hlutabréfafræðingarnir völdu þau bréf sem þeim leist á. Páfagaukurinn ákvað sín viðskipti hins vegar þannig, að hann greip í gogginn bolta úr hópi 30 bolta sem hver um sig táknaði eitt 30 fyrirtækja sem öruggt þótti að fjárfesta í, t.d. Samsung rafeindarisann.

„Niðurstaðan var ótrúleg. Ddalgi varð þriðji með 13,7% hagnað af fjárfestingum sínum,“ sagði forstjóri Paxnet, Chung Yeon-Dai við frönsku fréttastofuna AFP. 

Að meðaltali varð halli af fjárfestingum karlanna 10, sem nam 4,6% Aðeins tveir þeirra skákuðu páfagauknum, annar skilaði 64,4% hagnaði og hinn 21,4%. Allir starfa mennirnir hjá litlum eða meðalstórum fjármálafyrirtækjum.

Á vikunum sex keyptu þeir eða seldu 190 sinnum hver. Á sama tíma fékk páfagaukurinn sjö sinnum að velja sér hlutabréf.

Niðurstaðan af tilrauninni er sú, sagði Chung, að langtíma fjárfestingar í hlutabréfum öruggra fyrirtækja séu öruggar og skilvirkar.


Bændur neita að endurgreiða ólöglega styrki og heita „sjóðheitum“ mótmælum

Frönskum ávaxta- og grænmetisbændum er vandi á höndum og víst að þeir munu berja sér mjög á næstunni. Nú hefur Evrópusambandið (ESB) lýst niðurgreiðslur til þeirra á árunum 1992 - 2002  ólöglegar. Franska stjórnin segir bændur verða borga til baka. Bændur hóta á móti „sjóðheitum“ mótmælum.

Franska stjórnin studdi ávaxta- og grænmetisbændur um jafnvirði rúmra 330 milljóna evra á tímabilinu. Framkvæmdastjórn ESB hefur úrskurðað að greiðslurnar hafi verið til þess fallnar að skekkja samkeppnisstöðu bændunum í hag. Að núvirði, með vöxtum, frá því greiðslurnar hófust, jafngilda styrkirnir samkeppnisskekkjandi 500 milljónum evra, að sögn ESB.

Bruno Le Maire landbúnaðarráðherra Frakka segir að hefja verði aðgerðir til að endurheimta fjárstuðninginn. Hann sagði ekki hversu stóran hlut yrði reynt að heimta til baka. Og bætti við að mál hvers og eins bónda yrði skoðað til að hrekja bændur ekki í gjaldþrot.

Franska stjórnin fékk á baukinn frá ESB fyrir niðurgreiðslur þessar. Þær komu úr varasjóði sem var hugsaður til að styðja bændur á krepputímum á ávaxta- og grænmetismarkaði. Michel Barnier, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, vísaði máli þessu til Evrópudómstólsins og arftaki hans, Le Marie, sagðist myndu halda þeim málarekstri áfram. Hann segist sjálfur þeirrar skoðunar að hluti styrkjanna geti ekki talist ólöglegur.

Af fjármunum ESB til landbúnaðarmál hefur langstærstur hluti runnið til Frakklands, eða nálega 40%.

Eins og ég áður sagði, hafa bændur borið sig aumlega yfir þessu. Formaður samtaka ávaxta- og grænmetisbænda, Francois Lafitte, segir, að ekki komi til greina að borga styrkina til baka. Þeir hafi gert bændum kleift að keppa við innflutning frá Spáni og Portúgal.

Laffite varaði stjórnvöld við og sagði hana ekki eiga von á góðu ef hún reyndi að endurheimta. Boðaði hann „sjóðheita“ uppreisn ef ríkisstjórnin lætur til skarar skríða gegn bændum.

Greiðslurnar ólöglegu runnu til að niðurgreiða verð frá bændum, geymslukostnað, förgun hluta uppskerunnar og til að hvetja til úrvinnslu ferskra ávaxta- og grænmetis.


Gasfélögin GDF og E.ON fá risasekt fyrir samkeppnisbrot

Þá er best að búa sig undir hækkun á gasreikningnum því franska gasfélagið GDF Suez var sektað um 553 milljónir evra í dag fyrir brot á samkeppnislögum. Sömu sekt fékk þýska gasfélagið E.ON en félögin reyndust sek af samráði um verðlagningu og markaðsaðgang.

Þetta mun vera fyrsta sekt sem beitt er gegn orkufyrirtækjum í ESB af hálfu samkeppnisyfirvalda sambandsins. Bæði fyrirtækin neita enn sekt sinni og ætla að áfrýja niðurstöðunni.

Þau lögðu árið 1975 svonefnda Megal-leiðslu þvert yfir Þýskaland til að flytja gas frá Síberíu.  Sömdu félögin um að leisluna myndu þau aldrei nota til að selja gas inn á markaðssvæði hvors um sig. Uppvíst varð um samninginn árið 2005.

Afleiðing var skortur á samkeppni og með samningnum komu félögin í veg fyrir að birgjar sem boðið gátu upp á enn ódýrara gas fengju afnot af leiðslunni. Þar með var komið í veg fyrir að þeir gætu náð fótfestu á gasmarkaði í Þýskalandi og Frakklandi, segir í upphaflegri kæru framkvæmdastjórnar ESB.

Sektirnar eru meðal þeirra hæstu sem sögur fara af en ekki nema skiptimynt í hlutfalli við veltu félaganna. Velta E.ON um víða veröld nam 87 milljörðum evra í fyrra og velta GDF Suez 68 milljörðum evra.

 


Íslenskt vatn streymir senn til Miðausturlanda

Íslenskt vatn, meir að segja jöklavatn, mun streyma til Miðausturlanda á næstunni. Þar mun það svala þorsta og þörf bandarískra hersveita fyrir drykkjarvatn næstu árin. Það verður einnig aðgengilegt almenningi í verslunum. Um er að ræða 180 milljónir flöskur af vatni næstu þrjú árin, eða fimm milljónir flöskur á mánuði.

Það er hollenskt fyrirtæki, Dalphin, með aðsetur í bænum Winterswijk í austurhluta Hollands, sem stendur fyrir vatnsflutningi frá Íslandi til Miðausturlanda. Hlaut það samning þar að lútandi frá bandarískum aðilum, ef marka má frétt hollensku fréttastofunnar Algemenn Nederlands Persbureau.

Vatnið verður einnig til sölu í búðum fyrir almenning sem veigrað hefur sér við því að kaupa drykkjarvatn frá ríkjum sem eru með hersveitir í Afganistan og Írak. Það mun því nýtast útflytjendum íslenska vatnsins að Íslendingar halda ekki úti her.

Hjá Dalphin-fyrirtækinu er 25.000 lítrum vatns tappað á flöskur á klukkustund. Íslenska vatnið verður flutt sjóleiðina til Miðausturlanda frá Rotterdam.  

 


Boeing hefur enga flugvél selt á Parísarsýningunni

Paísarflugsýningin hófst í gær en hún fer fram annað hvert ár. Nú í skugga alþjóðlegrar efnahagskreppu og lánsfjárskorts og alvarlegra flugslysa. Athygli vakti, að bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing seldi ekki eina einustu flugvél á fyrsta degi.  Airbus aftur á móti skýrði frá samningi um kaup á 24 þotum af gerðinni A320 fyrir 1,9 milljarða dollara.

Þá skýrði Airbus frá því í dag, að ótilgreindur aðili í Asíu hefði keypt einkaþotu af gerðinni A320 Prestige.

Það sem af er ári hefur Boeing tekið við pöntunum í 73 farþegaþotur. Flugfélög hafa hins vegar fallið frá kaupum á 66 svo raunveruleg sala Boeing frá áramótum eru aðeins 7 þotur. Á sama tíma hefur Airbus tekið við 56 pöntunum en að frádregnum afpöntunum er hrein sala 35 þotur frá áramótum.

Risarnir tveir þurfa þó ekki að örvænta því á pöntunarlistum þeirra eru tæplega 3.500 þotur til afhendingar á nokkrum næstu árum.

Þrátt fyrir að ekki hafi um árabil verið tilkynnt um jafn fáa og litla samninga á stórri sýningu sem þessari segja flugvélasmiðirnir horfur í flugi til næstu ára vera góðar. Í ljósi samdráttar í flugi síðustu misseri væri þó engra stórsamninga að vænta á sýningunni.

Til samanburðar var tilkynnt um samninga um smíði flugvéla fyrir 25 milljarða dollara á fyrsta degi flugsýningarinnar í Farnborough í Englandi í fyrra. Og á Parísarsýningunni fyrir tveimur árum, sem ég var viðstaddur, var skrifað undir samninga um kaup á nokkur hundruð þotum fyrir stjarnfræðilegar upphæðir.

Fyrir utan þoturnar 24 sem Airbus seldi í gær samdi Rolls Royce við Gulf Air um að sjá félaginu fyrir hreyflum í 20 Airbus A330-þotur fyrir 1,5 milljarða dollara. Og ungverska flugfélagið Malev skuldbatt sig til að kaupa 30 svonefndar Superjet 100- þotur af rússneska flugvélaframleiðandanum Súkhoj fyrir um milljarð dollara. Malev er nú í eigu rússnesks ríkisbanka, Vnesheconombank.

Loks skýrði kanadíski flugvélasmiðurinn Bombardier frá samningi við spænska flugfélagið Air Nostrum um staðfest kaup á 35 CRJ1000-þotum fyrir 1,75 milljarða dollara.

Sýningin stærri en nokkru sinni áður 

Þrátt fyrir allt er Parísarflugsýningin áfram langstærsta flugsýning veraldar. Hafa sýnendur aldrei verið fleiri en í ár, eða rúmlega 2000. Ný fyrirtæki er þar að finna frá nýjum sýningarlöndum, eins og Ástralíu, Litháen, Mexíkó, Líbýu og Túnis. Bæta þau að hluta til upp fjarveru tveggja stórra flugvélaframleiðenda, Gulfstream og Cessna.

Miðað við sýninguna 2007 verða flugatriði í loftrými Le Bourget-vallarins færri nú. Hið sama er að segja um fjölda sýningargripa, færri vélar eru nú til sýnis en 2007.  Tveir sýningargripir eru í París í  fyrsta sinn, rússneska farþegaþotan Superjet100 frá Súkhoj og svonefndur Scheibel Camcopter, sem er mannlaus þyrla. Er hún fyrsta mannlausa farþega- og flutningaflygildið sem sýnt er á flugi á flugsýningu.

 


Borgað fyrir að veiða ekki þorskinn

Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherrann franski, Michel Barnier, tilkynnti í dag, að hann ætlaði að veita fjórum milljónum evra sjómönnum við Ermarsund og Norðursjó, sem fallast á að leggja bátum sínum fram til 30. júní eða heita því að halda sig frá veiðum á þorski og sólflúru á tímabilinu og sækja í aðrar tegundir í staðinn.

Megin ástæða fyrir þessari ákvörðun er að kvótar í þessum tegundum eru nánast að klárast upp. Álíka ráðstafanir koma til greina vegna veiða á öðrum tegundum, en þá fyrst er kvóti er að klárast.  

Ætlað er, að styrkveitingin bæti upp sem svarar 70% tekjutaps vegna veiðistoppsins. Ráðherrann ætlast til að styrkirnir skiptist í jafna helminga; annar helmingurinn renni til útgerðar en hinn til áhafnarinnar.


Bouton hættir sem yfirmaður Societe Generale

Daniel Bouton tilkynnti í morgun afsögn sína sem stjórnarformaður franska bankans Societe Generale. Hann segist vilja hlífa bankanum við skaða sem „ítrekaðar árásir“ á hann gætu valdið.

„Eins og sérhver stjórnandi hefur mér örugglega orðið á í messunni, en stefna bankans hefur gert hann að einum hinum fínasta á evrusvæðinu. Endurteknar árásir á mig í Frakklandi undanfarna 15 mánuði snerta mig, og hætt er við að þær skaði bankann og 163.000 starfsmenn hans. Það má ekki gerast,“ sagði Bouton, sem kveður bankastjórnina 6. maí nk.

Bouton var auk stjórnarformennsku aðalbankastjóri SocGen frá 1997.  Hann var aðalbankastjóri í janúar í fyrra er upp komst um eitt stærsta verðbréfahneyksli sem bankinn tapaði tæpum fimm milljörðum evra á. Vék hann fjórum mánuðum síðar úr bankastjórastarfinu í maí sl. og fól samverkamanni daglega stjórnun hans, en gengdi áfram stjórnarformennsku, enda hafði stjórnin ítrekað hafnað boði hans um afsögn, þrátt fyrir kröfur Nicolas Sarkozy forseta um að æðstu stjórnendur bankans sættu ábyrgð vegna tapsins.

Miklar deilur spruttu upp eftir verðbréfahneykslið og bankarnir voru harðlega gagnrýndir fyrir að fela ungum og áhættusæknum mönnum að stunda spákaupmennsku fyrir þeirra hönd. Tapið hjá Societe Generale var skrifað á umsvif eins slíks, Jerome Kerviel, og því haldið fram að hann hafi farið langt út fyrir heimildir sínar í starfi.

Kerviel hélt því fram að hann hefði ekki verið einn um viðskiptin og þau hafi farið fram með vitund og vilja yfirboðara. Málið hefur ekki verið til lykta leidd og öll kurl ekki komið til grafar.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband