Færsluflokkur: Löggæsla

Ofbeldisfullir makar beri rafarmbönd svo fylgjast megi með þeim

Gera ætti tilraunir með að brennimerkja ofbeldisfulla maka með armbandi sem sendir frá sér staðsetningarmerki. Það vill franski fjölskyldumálaráðherrann, Nadine Morano.

Hún lýsir þessari skoðun sinni við blaðið Le Figaro en hugmynd hennar er að makar sem gerst hafa sekir um heimilisofbeldi beri armbaönd sambærileg þeim sem t.d. barnaníðingar bera eftir að þeir eru lausir úr fangelsi. Með því móti sé hægt að fylgjast með ferðum þeirra allan sólarhringinn og þýðir lítt fyrir viðkomandi að þræta fyrir hvar þeir voru hverju sinni.

„Ég vil að drengjum sé kennt í skóla að réttur þeirra til að slá stúlkur sé enginn. Einnig ættum við að gera tilraunir með að láta ofbeldisfylla maka bera rafarmbönd, eins og á Spáni. Ég vil að ríkisstjórnin ræði það,“ segir Morano við Le Figaro.

Spænska stjórnin ákvað í fyrravetur að ætlunin væri að fylgjast með ofbeldisfullum mökum með því að gera þeim að bera rafarmbönd með GPS-staðsetningarbúnaði.


Laumaðist inn í landið í boði breskra landamæravarða

Breskir landamæraverðir eru skömmustulegir þessa dagana, eftir að upp komst að ólöglegur innflytjandi laumaðist frá Frakklandi til Englands í boði þeirra, ef svo mætti segja. Hann kom sér fyrir í undirvagni rútu þeirra á leiðinni um Ermarsundsgöngin til Englands.

Bresku landamæraverðirnir voru við störf í landamærastöðvum Coquelles í Frakklandi, miðstöð ferða um göngin undir Ermarsund þar sem ólöglegir innflytjendur reyna að smeygja sér með farartækjum til Englands.

Verðirnir, sem eru starfsmenn breska útlendingaeftirlitsins, höfðu enga hugmynd um aukafarþegann í rútu þeirra er hún fór til baka til Englands um göngin. Það var ekki fyrr en þeir komu til Folkestone á suðurströnd Englands að þeir urðu hins óboðna samferðamanns varir. Er hann laumaðist úr fylgsni sínu við eldsneytistank rútunnar.

Ekki tókst þeim þó að hafa hendur í hári hans og komst hann undan og úr augsýn þeirra á hlaupum. Hér þykir um hneyksli að ræða og hefur innanríkisráðuneytið í London hrundið af stað rannsókn.

Þrátt fyrir þetta „kjaftshögg“ leggur breska landamæraeftirlitið áherslu á, að komið hafi verið í veg fyrir tilraunir 28.000 aðila til að komast inn í Bretland með ólögmætum hætti í fyrra, 2008.

 


Rauð boxerbrók kom upp um glæponinn

Búlgari nokkur að nafni Vanko Stoyanov hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi í Frakklandi fyrir þátttöku í skipulagðri glæpastarfsemi og endurtekin afbrot. Rauð boxerbrók kom upp um hann.

Brókin fannst á vettvangi eins glæpsins í mars árið 2007 og sönnuðu að lokum sekt Stoyanovs. Hann sérhæfði sig í stuldi á snekkjum og lúxusbílum.

Forsaga málsins er sú, að jeppi með lúxussnekkju á kerru í aftanídragi staðnæmdist á A8-hraðbrautinni er leiðin lokaðist vegna umferðarslyss. Er lögregla kom á vettvang voru bæði ökumaðurinn og skrásetningarnúmer bílsins horfin.

Fljótlega kom í ljós að snekkjunni hafði verið stolið á Spáni daginn áður, en hún var að verðmæti um 100.000 evrur, um 18 milljónir króna.

Lögregla komst að þeirri niðurstöðu, að hér hafi verið á ferð liðsmaður gengis sem ætlaði að flytja snekkjuna til Svartahafs. Einu sönnunargögnin sem þeir fundu í bílnum var boxerbrókin rauða. Ljóst þótti eftir erfðatæknifræðilegar rannsókn að Vanko Stoyanov hafi klæðst þeim.

Hann var á franskri sakarskrá fyrir stuld á dýrum bílum við Saint Tropez-flóa, á heimaslóðum Birgittu Bardot. Hann var nýlega framseldur til Frakklands frá Búlgaríu til að horfast í augu við réttvísina.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband