Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Franski herinn fær á baukinn fyrir að valda skógareldum

Í mínu ungdæmi var sagt um óhittna menn, að þeir myndu ekki hæfa belju þótt þeir héldu í halann á henni. Þetta rifjaðist upp er ég las fréttir af skógareldum í nágrenni Marseilles. Þeir eru raktir til misheppnaðra skotæfinga útlendingaherdeildarinnar. Hefur franski herinn fyrir bragðið verið hæddur í fjölmiðlum í dag.

Í stað þess að bæta hittni liðsmanna útlendingaherdeildarinnar olli æfingin víðtækum eldum og eyðileggingu í náttúrunni rétt við úthverfi Marseilles.  

Heimskingjar og hálfvitar eru orð sem hafa fallið vegna eldanna sem eyðilagt hafa tugi íbúðarhúsa með þeim afleiðingum að hundruð manns hafa misst heimili sín.

Um 170 slökkviliðsmenn hafa tekist á við eldana frá í gærkvöldi en á þá hefur og verið varpað vatni úr þyrlum og sérsmíðuðum slökkviflugvélum. Náðu þeir yfirhöndinni í glímunni við eldana í dag. Þeir eru hinir umfangsmestu við suðurströnd Frakklands í þrjú ár.  

Liðþjálfi í útlendingaherdeildinni hefur verið settur af ótímabundið og bíður hans að verða dregin fyrir herdómstól. Hann stjórnaði æfingu 1sta herdeildar útlendingahersins við bækistöðvar hennar við Marseille í gær. Hann er sakaður um að hafa virt að vettugi fyrirmæli um að nota ekki sérlegar glóðarkúlur við æfingar yfir sumarið á svæðum þar sem eldhætta er mikil vegna sumarhita, svo sem í nágrenni suðurstrandar Frakklands. Slíkar byssukúlu eru með efni sem brennur og skilur eftir sig slóð þegar hleypt er af. Af þeim sökum sjást þær á flugi.

Jean-Claude Gaudin borgarstjóri í Marseilles var ómyrkur í máli í garð hersins. „Ég fæ ekki séð hvers vegna efnt skuli til heræfinga í 32°C hita og sterkum vindi. Þegar frámunalegur fíflaskapur sem þessi á sér stað verður að upplýsa um það.“

Og lögreglustjórinn Michel Sappin gagnrýndi „aulabárðana“ sem stjórnuðu æfingunni og sagði málið skaprauna sér sérdeilis. Hvatti hann til fullrar rannsóknar og að allir foringjarnir sem við sögu æfinganna komu yrðu dregnir fyrir herdómstól.

Meðal þeirra sem misstu heimili sitt í eldunum voru 120 íbúar elliheimilis. Þá varð að rýma fæðingardeild sem eldarnir ógnuðu. Voru nýorðnar mæður og kornabörn flutt í íþróttasal þar sem þau voru óhult.

Franski herinn þykir oft hafa gert hin ótrúlegustu axarsköft og skógareldarnir við Marseilles minnkar ekki skömm hans. „Þetta voru hræðileg mistök og okkur þykir miður hvernig fór,“ sagði talsmaður hans í miklum iðrunartón í dag.

 


Berlusconi harmar árásir á Carla Bruni

Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu hefur beygt sig í duftið til að halda Frökkum góðum eftir ósmekklegar árásir ítalskra blaða, þ. á m. Il Giornale, blaðsnepils í eigu bróður hans, á frönsku forsetafrúna, hina ítölsku Carla Bruni. Segir Berlusconi að hann „sé leiður“ yfir skrifum blaðsins.

Blaðið sagði Bruni vera „dónalega“ og sýnt af sér snobbarahátt fyrir að hafa sniðgengið dagskráratriði G8-fundarins á Ítalíu í síðustu viku. „Mér var stórlega misboðið og afar hryggur er mér var sagt af greinunum í ítölsku blöðunum, þar á meðal Il Giornale, með særandi ummælum um frú Carla Bruni, eiginkonu forseta franska lýðveldisins,“ segir Berlusconi í yfirlýsingu af þessu tilefni.

Ítalskir hægrimenn og fjölmiðlar þeirra eru sagðir hafa verið á tauginni af hræðslu við að umheimurinn fengi á tilfinninguna að eiginkonur leiðtoganna á G8-fundinum forðuðust Berlusconi vegna ókræsilegra uppljóstrana um framkomu hans í garð kvenna og álit á þeim.

 


Frakkar segja G8 tímaskekkju

G8, samtök sjö helstu iðnríkja heims og Rússlands, eiga ekki lengur við og ættu að taka fleiri lönd í raðir sínar, svo sem vaxandi efnahagsveldi. Það er mat Christine Lagarde, efnahagsráðherra Frakklands.

„G8 eru gömul samtök og miklu minna í takt við tímann miðað við samsetningu hennar og þróunina í veröldinni,“ sagði Lagarde við blaðamenn á efnahagsráðstefnu í Aix-en-Provence í Frakklandi í gær.

Leiðtogafundur G8 fer fram á Ítalíu í vikunni og verður settur í rústum borgarinnar L'Aquila sem varð illa úti í jarðskjálfta í vor. Samtökin mynda Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan, Kanada, Rússland og Þýskaland. Þau voru stofnuð 1975 sem samtök sjö helstu iðnríkja heims en árið 1998 slógust Rússar í hópinn.

Til funda G8 hefur leiðtogum annarra ríkja verið boðið sem gestum en það finnst Lagarde ónóg. „Voldugum vaxandi ríkjum eins og Indlandi, Kína og Mexíkó er boðið til fundanna en hafa þar litlu hlutverki að gegna á hliðarlínu. Það ber að breyta G8 og stækka og aðlaga samtökin þannig að raunveruleika okkar daga,“ sagði Lagarde.

Að frumkvæði Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta var efnt til fundar 20 helstu efnahagsvelda heims til að bregðast við heimskreppunni. Minnir mig að hann hafi þurft að beita Georg Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta, miklum þrýstingi í fyrra til að fá hann inn á hugmyndina að þeim stóra fundi sem síðan var haldinn í London í apríl sl.

Þar var samþykkt að leggja Alþjóða gjaldeyrissjóðnum til þrjár trilljónir dollara til að hjálpa ríkjum sem illa urðu úti vegna kreppunnar.

Bandaríkjamenn verða gestfjafar á næsta G20-fundinum. Hann verður haldinn í Pittsburgh í  Pennsylvaniu 24. - 25. september nk.

 


Mikil uppstokkun á frönsku stjórninni

Mestu tíðindin í uppstokkun á frönsku ríkisstjórninni, sem mun eiga sér stað á morgun, er tvenn. Annars vegar að Michele Alliot-Marie yfirgefur innanríkisráðuneytið og tekur við dómsmálaráðuneytinu af Rachida Dati, sem kosin var á Evrópuþingið 7. júní sl. Hins vegar þau, að Brice Hortefeux tekur við innanríkisráðuneytinu, en hann afsalar sér sæti á Evrópuþinginu.

Alls hverfa átta ráðherrar úr starfi og átta nýir koma inn í stjórnina. Eru það mun meiri breytingar en búist hafði verið við. Meðal þungaviktarmanna sem breyta um hlutverk er Xavier Darcos sem fer úr menntamálaráðuneytinu í atvinnumálaráðuneytið. Talsmaður stjórnarinnar, Luc Chatel, verður menntamálaráðherra.   

Verulega athygli vekur að hinn vinsæli ráðherra mannréttindamála, Rama Yade, yfirgefur þann starfa og tekur við starfi íþróttaráðherra af Bernard Laporte. Hann er einn ráðherranna átta sem hverfa úr stjórn Francois Fillon forsætisráðherra. Talið var að Yade yrði látin gjalda þess með missi ráðherradóms að hafa neitað beiðni Nicolas Sarkozy forseta að bjóða sig fram til Evrópuþingsins.

Meðal þungaviktar ráðherra sem hverfa úr stjórninni er Michel Barnier landbúnaðarráðherra og Chrstine Albanel menningarmálaráðherra. Barnier verður leiðtogi franska hægriflokksins á Evrópuþinginu. Jean-Louis Borloo gegnir áfram starfi umhverfisráðherra, Bernanrd Kouchner verður áfram utanríkisráðherra og Christine Lagarde efnahagsmálaráðherra.


Mitterrand sagður á leið í ráðherrastól

Búist er við þó nokkurri uppstokkun í frönsku ríkisstjórninni á morgun, miðvikudag. Einhverjir ráðherrar muni skipta um stóla, aðrir missa sína og nýir menn taka við þeim. Meðal þeirra sem sagðir eru verða ráðherrar er Frederic Mitterrand, bróðursonur Francois Mitterrand fyrrverandi forseta.

Hermt er að Mitterrand, sem er rithöfundur og leikstjóri, taki við menningarmálaráðuneytinu af Christine Albanel sem þykir hafa farið halloka í tilraunum til að koma mikilvægum málum gegnum þingið, þ. á m. lögum gegn sjóræningjastarfsemi á internetinu.    

Á vefsetri blaðsins Nouvel Observateur er skýrt frá því að Frederic Mitterrand hafi kallað nánustu samverkamenn í Medicishöllu í Róm, útibúi frönsku akademíunnar þar, til fundar við sig í gær. Þar tilkynnti hann þeim að hann væri á förum aftur til Parísar til að taka við nýju starfi. Nicolas Sarkozy útnefndi hann til starfans í Róm í júní í fyrra.

Annar sósíalisti er einnig nefndur í starf menningarmálaráðherra. Þar er um að ræða annan leikstjóra, Yamina Benguigui, sem er aðstoðarkona Bertrands Delanoe borgarstjóra í París.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband