Færsluflokkur: Ljóð
3.1.2011 | 10:59
Heimsmeistarar í svartsýni
Frakkar eru ekki bara heimsmeistarar í handbolta og ýmsum öðrum íþróttum. Þeir eru einnig heimsmeistarar í svartsýni ef marka má afkomuvæntingar þeirra á nýja árinu. Eru þeir meir að segja bölsýnni en íbúar stríðshrjáðra landa á borð við Írak og Afganistan.
Þetta eru niðurstöðu alþjóðlegrar skoðanakönnunar sem birtist í blaðinu Le Parisien í gær, 2. janúar, og unnin var af BVA-Gallup. Alls telja 61% Frakka að árið verði þeim fjárhagslega erfitt, en meðaltalið sem er þeirrar hyggju á alþjóðavísu er aðeins 28%.
Til samanburðar óttast aðeins 22% Þjóðverja að afkoma þeirra verði verri í ár en 2010. Á Ítalíu er hlutfallið hins vegar 41%, 48% á Spáni og 52% í Bretlandi. Og bölsýnin hefur aukist frá því fyrir ári var hlutfall svartsýnna Frakka 10 prósentustigum minna, eða 51%.
Spurðir um eigin stöðu nú segja 37% Frakka hana hafa versnað á nýliðnu ári. Spurðir um afstöðu til atvinnuástandsins óttast 67% Frakka að atvinnuleysi muni aukast í ár. Það hlutfall var einungis hærra í Bretlandi og Pakistan.
Mér hefur löngum þótt Frakkar meistarar í því að kvarta og kveina, jafnvel þótt þeir hafi það ansi gott. Einna verstir eru þeir sem njóta mestra forréttinda. Alls kyns mótmæli eru birtingarform þessarar óánægju. Og það athyglisverða er, að stjórnmálamenn hafa oftast gefið undan. Þess vegna var ólgan svo mikil á stundum 2010; því stjórn Sarkozy forseta lét ekki undan áköfum mótmælum, m.a. við skynsömum breytingum á lífeyriskerfinu.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2009 | 15:48
Loksins snjóar - hefði þó alveg getað verið án þess!
Jæja, það hlaut að koma að því. Í morgun var eins til tveggja sentímetra snjóföl á jörðu hér á vesturlandinu. Að þessu hlaut að koma, hér hefur ekki snjóað frá því 27. desember árið 2005. Já, það vantaði bara 9 daga upp á að snjóleysið stæði í fjögur ár.
Hér á Bretaníuskaganum virðumst við betur í sveit sett gagnvart snjó og kulda en flest önnur svæði landsins, ef allra syðsti hlutinn er undanskilinn. Það er ágætt því mér finnst ég alveg hafa séð nóg af snjó um ævina. Hann er í sjálfu sér yndislegur og fátt unaðslegra en renna sér á skíðum til fjalla.
En ég kann betur við blíðviðrið sem maður nýtur hér lengstan part ársins. Hið eina slæma við snjóinn er auðvitað það, að maður kemst ekki í hjólreiðatúr meðan hans nýtur við. Þessi föl sem var í morgun er að mestu horfin en slabb við vegarkanta er þess valdandi að hjólhesturinn er vistaður í húsi í dag!
Til að sýna öll ósköpin fylgir hér mynd sem ég tók út um glugga. Þótt lítil sé fölin þarf ekki meira til að samgöngur fari úr skorðum hér um slóðir.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)