Færsluflokkur: Kvikmyndir
30.4.2009 | 15:18
Dökkar horfur í Cannes
Seljendur gæðamynda munu eiga erfitt með að finna kaupendur að þeim á kvikmyndahátíðinni í Cannes í næsta mánuði. Vegna heimskreppunnar stefnir í að allt verði smærra í sniðum en áður. Lystisnekkjurnar færri og veislusamkvæmin ekki eins íburðarmikil. Og bandarískir dreifingaraðilar ekki jafnmargir og áður.
Líklegt þykir að sjálfstæðir framleiðendur og bakhjarlar þeirra ríði ekki feitum hesti frá Cannes vegna kreppunnar. Búast megi við að erfitt verði að selja sýningarrétt að nýjum myndum.
Hátíðin í Cannes stendur frá 13. til 24. maí og þar verða um 3.000 kvikmyndir til kaups.
Mjög margar þeirra flokkast sem ódýrar hvað tilkostnað varðar. Þótt aðsókn að kvikmyndahúsum fari almennt vaxandi í Bandaríkjunum hefur sala á DVD-útgáfum mynda og sala í sjónvarp hrapað.
Undanfarin misseri hafa alþjóðleg dreifingarfyrirtæki ekki heldur haft aðgang að lánsfé til að kaupa myndir til dreifingar og ólögmætt niðurhal hefur bitnað á aðsókn að bandarískum myndum erlendis. Með lækkandi gengi erlendra gjaldmiðla hafi kaup á bandarískum kvikmyndum í mörgum löndum og mikilvægum mörkuðum dregist stórlega saman. Þannig eru Japanir t.a.m. hættir í bili að kaupa kvikmyndir með ensku tali.
Ofan á þetta bætist við að umsvif í kvikmyndagerð hefur dregist mjög saman undanfarið hálft ár vegna kreppunnar. Umsvif óháðra framleiðenda eru sögð 50% minni síðustu sex mánuði en árið áður. Það þykir þó ekki með svo öllu slæmt því áður en kreppan skall á í fyrra hafi fjöldi framleiddra mynda verið langt umfram eftirspurn.