150.000 Frakkar strandaglópar í útlöndum vegna gosöskuskýsins

Hér í Frakklandi hefur eldgosið í Eyjafjallajökli og afleiðingar þess verið aðalfrétt allra fjölmiðla undanfarna daga. Málið þykir grafalvarlegt og ríkisstjórnin kom saman í fyrradag til sérstaks fundar vegna gossins og hefur skipað sérstaka krísusveit til að vega og meta viðbrögð, en þess má geta, að  150.000 Frakkar eru strandaglópar í útlöndum vegna flugbannsins.

Með sérstöku leyfi flugmálastjórnarinnar frönsku sendi Air France í dag fimm þotur í reynsluflug víðs vegar um land til að kanna hugsanleg áhrif af því að fljúga gegnum öskuský. Flugmenn segjast einskis óeðlilegs hafa orðið varir og fyrsta yfirborðsskoðun á þotunum leiddi ekkert óeðlilegt í ljós. Eftir átti að gera alls konar mælingar og skoða vélarnar nánar, svo sem hreyfla, til að meta hvort einhverjar skemmdir hafi átt sér stað.

Til að liðka fyrir flugi til landsins hafa tveir herflugvellir í Suður-Frakklandi verið opnaðir almannaflugi en annars eru allir flugvellir sem eru norðan línu frá Nice til Bordeaux lokaðir. Ákveðið verður í fyrsta lagi á þriðjudagsmorgun hvenær vellir þessir verða aftur opnaðir.

Fyrir utan að eldgosið sé aðalmál fréttatíma útvarps- og sjónvarps og á forsíðum blaða hafa einnig farið fram umræðurþættir í t.d. sjónvarpi. Þar hafa sérfræðingar hafa útskýrt m.a. eldvirkni á Íslandi, þetta gos og fleiri, og ýmsar hliðar málsins. Til dæmis flugfróðir menn um hugsanlega hættu af því að fljúga gegnum öskuský.

Ég hef fylgst tiltölulega vel með fréttaflutningi hér í landi af eldgosinu í Eyjafjallajökli og get ekki tekið undir með þeim sem halda, að uppi á Íslandi að fjallað sé neikvætt erlendis um gosið og gefin röng mynd af ástandinu þar efra vegna gossins. Mest áhersla hefur verið lögð á þau vandræði sem flugbann vegna öskuskýsins veldur.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband