Styrkari staða gagnvart hjólreiðamaraþoni

Lagt upp í 400 km hjólarall í Saint-Méen-le-Grand í Frakklandi

Það var heljarinnar þrekraun 400 kílómetra hjólarallið sem ég þreytti á Bretaníuskaganum um nýliðna helgi. Aldrei áður hef ég hjólað jafn langt í einum áfanga og aldrei áður að nóttu til. En með þessu hef ég styrkt mjög stöðu mína og öðlast næstbesta forskráningarrétt fyrir þolreiðina miklu á næsta ári, frá París til Brest og til baka. Þar er hjóluð ríflega 1.200 km vegalengd sem verður að klára á innan við 90 klst. Heildar klifur í brekkum á leiðinni mun nema 10 kílómetrum og því var rúmlega 4000 metra klifur um helgina ágæt prófraun.

 Að þessu sinni var um að ræða hjólarall frá bænum Saint-Méen-le-Grand en þaðan er ein frægasta stjarna franskra hjólreiða fyrr og síðar, Louison Bobeti. Hófst keppnin við virðulegt gamalt og stórt hús sem geymir safn sem við hann er kennt og helgað er afrekum hans og lífi og starfi. Leiðin lá um allar fjórar sýslur Bretaníu; Morbihan, Finistere, Côtes-d’Armor og Ille-et-Vilaine.

Tvisvar, þrisvar áður hef ég lagt af stað í langrall í myrkri klukkan 5 að morgni, en að þessu sinni var byrjað klukkan 18 og hjólað gegnum nóttina. Það var undarleg reynsla og eftirminnileg. Verst að við hjóluðum um sveitir sem örugglega hafa verið mjög snotrar en af því sást ekki neitt. Engin lýsing er með vegum og meira að segja eru götuljós slökkt í minni bæjum og borgum í sparnaðarskyni í nokkrar klukkustundir á nóttunni.

Þess vegna getur verið hálf draugalegt að vera á ferð, og eykur bara á dulúðina ef rignir en segja má að ekki hafi stytt upp frá því klukkan 19 og fram til þrjú um nóttina, eða í átta klukkustundir. Sem betur fer var hún lengst af létt, lítið annað en úði. En hvimleið samt og verður athyglin að vera meira en í góðu lagi við aðstæður sem þessar þegar hjólað er í hóp því ef t.d. þarf að beita bremsum virka þær mun hægar en ella vegna vætunnar á felgunum og í bremsuklossunum.

Næturreiðin var að þessu leyti lærdómsrík því þá ríkti nánast þögn í hópnum allan tímann, klukkustund eftir klukkustund. Í dagsbirtu spjalla menn gjarna saman á ferð en það gjörbreyttist undir klukkan 23 þegar kolsvart myrkrið var skollið á. Ástæðan var náttúrulega sú, að athyglin varð að vera óskipt við eigið hjól og fólkið fyrir framan mann og til hliðar, enda lítið meira en hálf hjólslengd í næsta mann (eða konu, þær voru tvær eða þrjár í 85 þátttakenda hópi).

Ég hafði nokkrum sinnum áður hjólað 300 km í einni lotu, í 600 km ralli í fyrra frá Rennes til Brest og til baka, en þá lagði ég mig nokkrar stundir á milli ferðanna enda langt innan tímamarka sem keppendur höfðu til að klára rallið. Þá tók ég þátt í 300 km ralli í apríl og eins í fyrra, en þá villtumst við nokkrir í myrkri í byrjun, tókum eins og 30 km aukakrók og fórum því röska 330 km! Var það sem sagt lengsta reið mín þar til nú. 

400 km rallið var einkar ögrandi viðfangsefni og kallaði á góðan undirbúning og slurk af heilbrigðri skynsemi. Líkamlega kveið ég engu því að baki frá áramótum voru tæplega 5.700 kílómetrar á hjólhesti mínum. Hins vegar ríkti bæði eftirvænting og e.t.v. pínulítill kvíði gagnvart því að hjóla gegnum nóttina. Myndi hópur sem maður væri í stoppa ef það púnkteraði (það orð var alltaf notað á æskuárunum á Raufarhöfn þegar dekk sprakk)? Eða tæki þá við einmana reið þar sem maður nyti ekki lengur sameinaðra krafta hópsins við að skiptast á að leiða og rata? Á þessar spurningar reyndi ekki þar sem ekki sprakk hjá mér. Það kom hins vegar fyrir tvo samferðarmenn – og þá var auðvitað stoppað enda tekur ekki nema um 10 mínútur að skipta um slöngu og hjólamenn yfirleitt það hjartagóðir að þeir skilja menn ekki eftir eina í reiðileysi við aðstæður sem þessar.

Fyrir utan að þurfa vera í góðri æfingu til að hjóla slíka vegalengd þarf að passa upp á að nærast vel og drekka á leiðinni – og vera með nesti því að nóttu til, aðfaranótt sunnudags, er hvergi neitt í gogg að fá. Ég útbjó nestisskammt sem ég bar í litlum bakpoka; sex litlar samlokur sem ég sporðrenndi á 50 km fresti, súkkulaði, orkustengur og þar fram eftir götunum. Gekk planið nokkuð vel upp og ekki mátti minna vera – góð reynsla til að byggja á síðar.

Síðast, en ekki síst, þarf mikla þolinmæði við jafn ögrandi áskorun sem 400 km hjólreiðarall. Númer eitt, tvö og þrjú er að hafa lund til að halda aftur af sér og hjóla undir þeim hraða sem maður annars telur sig ráða við. Ekki síst til að byrja með og helst alla leið, ef vel á að fara. Ég á því ekki að venjast að rúlla á 25-26 km hraða og nokkru hægar upp brekkur. En því lengra sem hjólað er því meiri nauðsyn að halda aftur af sér, ætli maður alla leið í mark.

Þess vegna var meðalhraðinn yfirleitt ekki nema um 25 km/klst þegar ég tékkaði. En það lifnaði aðeins yfir tempóinu þegar um 250 km voru að baki, og ekki síst eftir að tók að birta. Um svipað leyti splundraðist hópurinn sem ég hafði lengst af verið með. Þegar um 90 km voru eftir vorum við aðeins þrír eftir í honum sem héldum saman.Um 50 km frá marki sleppti ég þeim, lagði ekki eins hratt í um tveggja km langa brekku á borð við Kambana, enda þeir báðir mun yngri en ég og alla vega annar þeirra þrælsterkur. Kom  mér á óvart að sjá hann nota stærra tannhjólið að framan upp flestallar brekkur.

Ég gerði mér í sjálfu sér engar vonir um að ná þeim aftur, hugsaði bara um það eitt að halda vel á spöðunum sjálfur, halda góðum dampi sem eftir var, oftast gegn vindi, enda kominn á slóðir sem ég þekkti frá Rennes-Brest-Rennes rallinu frá í fyrrasumar. Eftir um 20 km sá ég hjólamann í gulu vesti um það bil kílómeter á undan. Og eftir því sem nær dró bænum þar sem síðasta kontról fór fram nálgaðist hann jafnt og þétt. Var þá annar fyrrum félaga minna þar á ferð og renndi ég í hlað á tékkstaðnum rétt á eftir honum. Urðu fagnaðarfundir en hann hafði sleppt þeim sterka 10 km seinna en ég. Ákváðum við að hafa samfylgd sem eftir var, ásamt einum náunga sem kom í tékkið miklu fyrr og safnaði þar kröftum. Sá sterki var að leggja upp í lokasprettinn þegar ég náði þeim í þessum bæ.

Já, ég tala um tékk, en maður verður að geta sýnt og sannað að maður hafi farið viðkomandi keppnisleið. Fær maður við upphaf ferðar nokkurs konar loggbók sem tékkstaðirnir hafa verið færðir inn í og það tímabil sem menn verða að fara um þá staði. Í fyrstu tveimur tékkbæjunum, Malestroit og Guemene sur Scorff í Morbihan, snöruðum við okkur inn á krár og fengum bækurnar stimplaðar og færðum inn komutíma. Á þeim  síðarnefnda renndum við í hlað 10 mínútum fyrir miðnætti.

Þar gáfu flestir sér tíma til að nærast og góður var vel sykraður kaffibolli fyrir nóttina. Á næstu þremur tékkstöðum var viðbúið að allt væri lokað. Því vorum við með sérstök póstkort stíluð á mótshaldara og merkt rallinu sem við gátum skrifað nöfn okkar og komutíma í viðkomandi bæ og sett í næsta póstkassa. Þau kort bærust mótshaldara strax eftir helgi og gæti hann þá gengið úr skugga um að allt væri eðlilegt enda geyma þeir loggbækurnar fyrst um sinn til að kanna að allt hafi farið fram samkvæmt ritúalinu.

Og auk póstkorts var boðið upp á að menn notuðu greiðslukort sitt til úttektar í hraðbanka á tékkstað og legðu fram kvittun við komu í lokahöfn enda væri á henni bæði nafn og staðsetning viðkomandi banka og tímasetningar. Póstkortið notuðum við í bænum Chateauneuf-de-Faou á Finistere, en þá voru 210 km að baki. Og loksins að stytta upp.

Næsta tékk var 30 km seinna, í bænum Huelgoat, sem var lengra til vesturs frá Saint-Méen-le-Grand en nokkur annar bær. Þar hafði ég farið um í fyrra í Rennes-Brest-Rennes rallinu. Er við renndum inn í miðbæinn í leit að banka fönguðu ljós í bakaríi athygli okkar. Vantrúaðir vorum við reyndar á að þar væri einhver klukkan 4:15 að morgni sunnudags. Bönkuðum á búðarglugga en fengum ekkert svar. Smokruðu einhverjir sér inn í húsasund við hliðina og knúðu dyra baka til. Var hurðinni hrundið upp nær samstundis og þar inni voru fjórir bakarar, þrír karlmenn og kona, á fullu.

Tóku þau okkur fagnandi og innsigli bakarísins var snimmhendis komið í loggbókina. Og til að kóróna huggulegheitin skelltu bakararnir bakka fullum af bakkelsi, súkkulaðibrauði  og rúsínusnúðum á borðið og buðu okkur að borða sem við gætum. Létu menn ekki segja sér það tvisvar því þarna var vænn skammtur af kaloríum í hverjum bita. Og þegar við vorum að ljúka við átið rann annar hópur í hlað, um 15 mínútum á eftir okkur, og naut einnig höfðingsskapar bakaranna. Þarna fóru a.m.k. 30 mínútur í tékk og bakkelsisát og framundan 97 km reið í næsta kontról, Loudeac í Côtes-d’Armorsýslu. Á þeim áfanga eru margar langar og þrælslegar brekkur fyrir menn sem verið hafa á ferð hátt í 300 km.

Enda tók um 15 manna hópurinn fljótlega að gliðna, ekki síst eftir að birta tók og ferðin að aukast. Losnuðu menn smám saman aftur úr uns við vorum þrír eftir. Komum við fyrstir saman til Loudeac á níunda tímanum og þar var hressandi að fá heitt súkkulaði og kók á krá og klára sem mest af því sem eftir var af nestinu, enda ekki nema röskir 60 km eftir. Smám saman dreif aðra samferðarmenn næturinnar að en nú var biðlund tekin að minnka og lögðum við þremenningarnir af stað án þeirra. Rúmum 10 km eftir þetta sleppti ég svo hinum ágætu Bretónum, eins og fyrr er nefnt, í brekku sem ég líkti við Kambana.

Strax í byrjun rallsins rauk um 10-15 manna hópur af stað og skar sig fljótt frá þeim hópum sem á eftir komu. Og áður en myrkrið skall á var hann horfinn sjónum. Í honum var sá sem fyrstur lauk rallinu, um klukkan 8:30 á sunnudagsmorgni. Það er eins og einhverjir úr þessum hópi hafi ekki þolað hraðann og dregist aftur úr því ég varð níundi í mark af 85 þátttakendum og Bretóninn sterki, sem ég margnefni, varð áttundi. Við kláruðum rétt fyrir hádegi og höfðum þá verið á baki vel á sextándu klukkustund. Um tvær klukkustundir fóru í tékkstoppin en við þau gáfu menn sér jafnframt tíma til að nærast og bíða jafnvel eftir öðrum til að stækka hópinn og þétta raðirnar, því mun auðveldara er fyrir hvern og einn að hjóla í hópi en vera einsamall. Á leiðinni reiknast mér til að ég hafi haft samfylgd af öðrum, misjafnlega mörgum en oftast talsverðum fjölda, í 365 kílómetra. Og aldrei einn á báti fyrr en eftir tæpa 350 km. Það var indælt.

Frá síðustu tékkstöðinni, í smábæ að nafni St. Vran, voru ekki nema 22 km eftir til Saint-Méen-le-Grand. Með goluna í bakið og næstum því flata leið var rúllað vel, sjaldnast undir 35-40 km/klst. Þvílík ánægja að renna inn í bæinn hans Bobet. Ég verð að skreppa síðar og skoða safnið hans.

Með þessu ralli hef ég styrkt enn stöðu mína gagnvart París-Brest-París keppninni í ágústlok á næsta ári. Kominn með næstbesta forskráningarrétt en vegna vinsælda er útlit fyrir að kvóti verði á þátttöku í fyrsta sinn. Þetta rall fer farm á fjögurra ára fresti og voru keppendur árið 2007 samtals 5311, þar af 2294 frá Frakklandi en meirihlutinn var frá 45 öðrum löndum. Er búinn að fara gegnum undankeppni (BRM) í 200 km, 300 km og 400 km. Til álita kemur að fara svo 600 km í sumar, en svona röll þarf ég að fara aftur í gegnum á næsta ári til að fullgilda skráningu í P-B-P. Sem sagt, eitthvað til að vinna að og stefna næstu 15 mánuðina eða svo!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hjartanlegar hamingjuóskir! ! !

Það er eftir svona lestur sem ég fer að öðlast aftur trúna á samfélgið og það að enn eigum við menn sem geta tekist á við erfið viðfangsefni einir og hjálparlaust og leyst þau með sóma.

Ég held að hann Jón Gauti sonur minn kannist eitthvað við þig og hafi eitthvað leikið sér með þér í sjósundi?

Ég þakka fyrir mig.

Árni Gunnarsson, 2.6.2010 kl. 13:51

2 identicon

Sæll Gústi. Ég sé að þú heldur þig við langa spretti. Gangi þér allt í hag.

Guja (IP-tala skráð) 2.6.2010 kl. 15:38

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þakka ykkur, Árni og Guja, hugguleg ummæli. Ég kem Jón Gauta ekki alveg fyrir mig í fljótheitum, en vonandi þekkir hann mig af góðu einu! En sjósund hef ég aldrei stundað. 

Ágúst Ásgeirsson, 2.6.2010 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband