8.7.2010 | 07:06
Ögn af Íslendingi stendur sig vel í Frakklandsreiðinni
Alls staðar láta Íslendingar að sér kveða en í dag á fjórðu daglegið Frakklandsreiðarinnar (Tour de France) munaði minnstu að Norðmaður sem á íslenskan langafa hefði sigur. Þar á ég við um Edvald Boasson Hagen sem varð þriðji á gríðarlegum endaspretti.
Boasson Hagen er 23 ára og fæddur í Lillehammer í Noregi 17. maí, þjóðhátíðardaginn norska, eins og afi hans, Eðvald Bóasson frá Reyðarfirði. Sá fæddist árið 1893 og fór til náms í landbúnaðarfræðum í Noregi. Kvæntist hann norskri konu, Signe C. Knudsen, og settist að í Noregi. Gerðist bóndi í Dal-Nordre í Suður-Nittedal í Akershus, norðaustur af Ósló. Þá jörð keypti hann 1926 og bætti fleirum við sig síðar. Hann lést árið 1969.
Eðvald Bóasson hinn reyðfirski eignaðist þrjá sonu, Snorra, Tryggve og Edvald og er sá síðastnefndi afi hjólreiðagarpsins. Hann er bóndi í Dal og fæddur 1927. Ein dætra hans og móðursystir hjólagarpsins býr á Íslandi og þar á hann fleiri ættingja.
Boasson yngri er bóndasonur frá Rudsbygd skammt frá Lillehammer og sem barn kaus hann að hjóla 4-5 km vegalengd í skólann og heim aftur í stað þess að taka skólabílinn. Fljótara var að hjóla, segir hann og þarna var líklega fræjum sáð sem hann uppsker af núna.
Í útsendingum frá Frakklandsreiðinni hefur norski fáninn verið áberandi um árabil, þökk sé frammistöðu Thors Hushovd. Nú er því að búast að fáninn sá verði enn meira áberandi þegar norsku toppmennirnir eru orðnir tveir með tilkomu Boasson Hagen.
Aðeins eru tvö ár frá því Boasson Hagen gerðist atvinnumaður. Réði hann sig til bandaríska liðsins High Road Columbia en keppir í ár fyrir Sky-liðið.
Í stigakeppninni um grænu treyjuna í Frakklandsreiðinni er Hushovd efstur með 80 stig en Boasson Hagen tíundi með 38 stig. Bætti hann mjög við sig með þriðja sætinu á leið dagsins en þar lagði hann m.a. sprettkónganan Hushovd og Bretann Mark Cavendish að velli á gríðarlegum endaspretti.
Þessi ögn af Íslendingi sló í gegn í fyrra með heildarsigri í Bretlandsreiðinni (Tour of Britain) en þar vann hann fjórar dagleiðir og með tveimur áfangasigrum í Ítalíureiðinni (Giro d'Italia). Hann er öflugur einn síns liðs í kappi við klukkuna því fjögur ár í röð er hann norskur meistari í tímatöku af því tagi. Hér í Frakklandi hefur Boasson Hagen átt góðu gengi að fagna og unnið margan sigurinn. Til dæmis tvær dagleiðir af sjö í Bretaníuskagatúrnum 2007, þá fyrri hérna spölkorn frá mér.
Auk þessara öflugu Norðmanna tveggja eru nokkrir danskir knapar í keppninni og verður fróðlegt að fylgjast með þessum frændum vorum næstu vikurnar.
Athugasemdir
Fróðlegt. Gaman að einhverjir fleiri fylgjast með TDF
Bragi Freyr Gunnarsson (IP-tala skráð) 8.7.2010 kl. 11:27
Flottur pistill og gaman að lesa um Norðmanninn og íslenskan uppruna hans. Næstu vikur verða svo sannarlega spennandi og vonandi setja Norðurlandabúar sterkan svip á keppnina.
Steinn (IP-tala skráð) 8.7.2010 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.