Túrinn ræðst á Tourmalet

Það verður örugglega allt vitlaust í Frakklandsreiðinni á morgun,. fimmtudag - og keppni á alla kanta mikil. Andy Schleck segist ætla krækja aftur í gulu treyju forystusauðsins en það getur hann því aðeins að hann klifri hraðar en Alberto Contador upp Tourmalet tindinn. 

Knaparnir í Frakklandsreiðinni fengu frí í dag,hvíldu lúin bein og söfnuðu kröftum. Á morgun er lokakaflinn í Pýrenneafjöllum en þar geta úrslit ráðist að verulegu leyti. Mörgum frægum garpinum hefur gengið illa í túrnum í ár og nú ætla einhverjir þeirra - ef ekki allir - að bæta fyrir það í keppninni upp á topp Tourmalet. Þar er um ógnar brekkur að fara og glíma knaparnir við súrefnisskort síðustu kílómetrana.

Fjallið hentar klifurfærni Schleck en búast má við að Contador lími sig við hann sem lengst til að missa hann ekki frá sér. Annars gefur hann honum færi á treyjunni gulu, en Contador hefur 8 sekúndna forskot á Schleck í keppninni um hana.

Áfanginn í dag er e.t.v. síðasta tækifæri Schleck til að reyna vinna því hann hefur hingað til reynst lakari í kappi við klukkuna, en slíka rúmlega 50 kílómetra keppni þurfa knaparnir að heyja á laugardag í höfuðstað rauðvínsframleiðslunnar, Bordeaux. „Ég held túrinn ráðist á Tourmalet. Sá sem fyrstur kemur upp vinnur hann,“ sagði Schleck í gær.

Contador og Schleck eru taldir áþekkir í fjöllum en sá fyrrnefndi hefur hingað til verið betri í einstaklings tímatökum. En Contador telur það ekki sjálfgefið og segir að það væri hættulegt að afskrifa keppinaut sinn á laugardag. „Ég óttast Schleck í tímatökunni af þeirri einföldu ástæðu að hann er frábær hjólreiðamaður - hann vann tímatökumeistaramót Lúxemborgar sem sannar að hann hefur bætt sig í faginu. Eitt er víst og það er að milli okkar mun eiga sér stað stórorrusta,“ sagði Contador.

Breski knapinn Bradley Wiggins varð fjórði í Frakklandsreiðinni í fyrra og við miklu var búist við af honum í ár. Það hefur ekki gengið eftir og hefur hann átt býsna mislukkaðan rúman hálfan mánuð í mótinu. Hann segist ætla að bæta úr þessu í keppninni upp á Tourmalet tind. Og er ekki einn um það.

Ætli Lance Armstrong freisti til dæmis sigurs? Það yrði ekki leiðinlegt. Alla vega mun margur franskur knapinn reyna láta ljós sitt skína því Nicolas Sarkozy forseti verður í bíl keppnisstjórans upp Tourmalet. Hvað sem öllu líður verður legið í sófanum fyrir framan sjónvarpið meðan knaparnir streða upp fjöllin. Og margslunginnar keppni notið í botn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband