23.7.2010 | 17:57
Jafntefli í jötnaslagnum
Ansi er ég hræddur um að keppninni í Frakklandsreiðinni [Tour de France] sé í raun lokið. Og það þótt tveir áfangar séu enn eftir, en keppni lýkur í París á sunnudag. Jafntefli varð í jötnaslag Alberto Contador og Andy Schleck upp Tourmalet-tind í gær. Og í dag sá Norðmaðurinn Thor Hushovd á eftir grænu treyjunni og nær henni áreiðanlega ekki aftur.
Rimma Shcleck og Contador á Tourmaletfjalli, síðustu dagleiðinni í Pýrennafjöllum var frábær. Sá fyrrnefndi lét til skarar skríða er 10 km voru eftir af brekkunni linnulausu og óvægnu. Hvað eftir annað reyndi hann að breyta um rytma og takt en allt kom fyrir ekki, Contador var sem límdur við hann og sleppti honum aldrei frá sér. Féllust þeir í faðma á toppnum, en Schleck var fyrri yfir endamarkslínuna og vann þar með sína aðra dagleið í Frakklandsreiðinni að þessu sinni.
Contador hefur engan áfanga unnið en úr þessu getur líklega ekkert komið í veg fyrir að hann skrýðist gulu treyju sigurvegarans á Champs Elysée breiðgötunni í París á sunnudag. Verður það þriðja árið í röð sem hann sigrar.
Keppnin hefur verið afskaplega skemmtileg á að horfa og með að fylgjast. Leitt þó að sjá Hushovd missa grænu treyjuna sem veitt er fyrir stigakeppni spretthörðustu garpanna. Hann hefur verið daufur í hópspretti í túrnum í ár og varð t.d. aðeins fjórtándi í dag.
Mark Cavendish vann áfangann slétta í dag til Bordeaux og saxar mjög á. Ítalinn Petacchi og Hushovd hafa skipst á að skrýðast treyjunni og klæddist sá fyrrnefndi henni eftir áfangann í dag. Er hann með 10 stiga forskot á Hushovd, 213-203, en Cavendish hefur verið að draga þá uppi og er nú með 197 stig.
Edvald Boasson Hagen freistaði sigurs í dag og var vel teymdur áfram af félögum sínum í lokin, en hafnaði í sjötta sæti. Er hann sjötti í stigakeppninni um grænu treyjuna, 152 stig. Hefur hann staðið sig vel á sínu fyrsta ári í túrnum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.