7.5.2012 | 08:25
Réðu auðu seðlarnir úrslitum í Frakklandi?
Rúmlega tvær milljónir kjósenda í frönsku forsetakosningunum skiluðu auðu. Talið er að þessi atkvæði séu að langmestu leyti frá kjósendum Þjóðfylkingarinnar, öfgaflokks hægrimanna, en forsetaefni hennar, Marine Le Pen, hvatti kjósendur sína til að skila auðu í seinni umferðinni. Menn spyrja sig nú hvort hún hafi með því komið í veg fyrir endurkjör Sarkozy.
Auðu atkvæðin voru 2,14 milljónir eða 5,85% greiddra atkvæða sem alls voru um 38,7 milljónir, þar af skiptust 35.552.169 á frambjóðendurna tvo. Á Hollande og Sarkozy munaði um 1,2 milljón atkvæða; Holland fékk um 18,8 milljónir og Sarkozy um 17,6 milljónir. Kjörsókn var 81,28%.
Nathalie Kosciusko-Morizet, talskona Nicolas Sarkozy, skellti skuldinni á Marine Le Pen í gærkvöldi og sagði hana bera sök á úrslitunum. Enn sem komið er liggur engin greining fyrir hendi á því hvaðan auðu atkvæðin eru komin en í fyrri umferðinni voru þau um 700.000 talsins, eða 1,9% greiddra atkvæða.
Verði Hollande kosinn forseti í kvöld er það vegna mikils fjölda auðra atkvæða. Þau stuðla að kjöri Fransois Hollande, sagði hún á kosningavöku TF1-stöðvarinnar. Og hélt áfram: Marine Le Pen hvatti fólk til að skila auðu. Við vöruðum við því og sögðum það myndi stuðla að sigri Hollande.
Auðir seðlar hafa aðeins einu sinni verið hlutfallslega fleiri, eða í kosningunum 1969. Þar fór lokalotan fram milli tveggja hægrimanna, Georges Pompidou og Alain Poher. Vinstrimenn áttu þar ekki fulltrúa og skiluðu margir auðu, eða 6,42% atkvæða.
Í seinni umferðinni 1995 milli Jacques Chirac og Lionels Jospin voru auð atkvæði 5,97% og í seinni umferðinni 2002 milli Chiracs og Jean-Marie Le Pen var hlutfallið 5,38%.
Kosningaúrslitin í raun jafntefli?Annars eru úrslit kosninganna athyglisverð í ljósi þess að ekki eru margir mánuðir frá því skoðanakannanir sýndu, að frambjóðandi sósíalista myndi leggja Sarkozy að velli með 62% atkvæða gegn 32%. Og síðustu vikur og daga bentu fylgismælingar til enn meiri munar en úrslitin urðu. Það segja stjórnmálaskýrendur veikja Hollande og miklu fremur verði að tala um jafntefli en afgerandi sigur hans.
Þá segja þeir, að það hafi ekki verið stefna Sarkozy sem varð undir í kosningunum heldur hafi honum verið refsað fyrir forsetastíl sinn.
Þegar öll atkvæði höfðu verið talin var skerfur Hollande af þeim sem greidd voru frambjóðendunum tveimur 51,62% en skerfur Sarkozy 48,38%. Á það er og bent, að Hollande hafi ekki meirihluta greiddra atkvæða á bak við sig, því séu auðu seðlarnir taldir sé hlutur hans 48,8% af greiddum atkvæðum.
Kosning Hollande er fyrsti sigur sósíalista í forsetakosningum í nær aldarfjórðung, eða frá 1988, en þá vann Francois Mitterrand seinni sigur sinn. Þá er þetta í fyrsta sinn sem sósíalistar komast að völdum frá því stjórn Lionel Jospin fór frá eftir þing- og forsetakosningarnar 2002. Síðasta þingmeirihluta sinn unnu vinstrimenn 1997. Spurning er hvort það breytist í næsta mánuði er Frakkar kjósa ti lþings.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.