1.1.2008 | 11:24
Gleðilegt ár frá Frakklandi
Ætlunin er að rita hér öðru hverju nokkrar línur, eftir efni og aðstæðum. Líklega nær einungis um franskt samfélag og frönsk málefni eða eitthvað Frakklandi tengt. Fyrst byrjað er á nýársdegi er við hæfi að stíga fyrst niður fæti í áramótaávarpi forsetans, Nicolas Sarkozy.
Hann rauf allar hefðir, eins og honum er tamt, með því að ávarpa þjóðina beint. Með því taldi hann sig koma nær fólkinu. Ávörp forvera hans allra hafa verið tekin upp áður. Því má segja að Sarkozy hafu tekið áhættu því ekki verður aftur tekið sem aflaga fer í beinni útsendingu. Stöðva má hins vegar myndavélarnar og byrja upp á nýtt ef senting misferst í upptöku sem spiluð er síðar.
Það var eins og hann hefði aldrei gert annað en að flytja svona ávarp því Sarkozy var afar öruggur og hélt sínu striki út í gegn. Virtist vel hvíldur eftir gott jólafrí í Egyptalandi þar sem hann dvaldi með unnustu sinni Carla Bruni. Ítalskir fjölmiðlar segja hann hafa beðið um hönd hennar. Hún er glæsileg og vinnur fyrir sér sem söngkona en ekki kann ég að meta nýju plötuna hennar, en það er önnur saga.
Í ávarpinu kváðu við kunnug stef; forsetinn hét því að halda áfram umbótastefnu sinni af krafti og á árinu 2008 yrði Frakkland að verða driffjöður upprisu hinnar gömlu Evrópu, hins gamla heims. Sagði sem fyrr að það viðfangsefni að breyta og nútímavæða Frakkland væri gríðarlegt verk vegna þess hversu langt aftur úr landið hefði dregist á undanförnum áratugum.
En hafið hugfast, staðfesta mín er óbilandi. Þrátt fyrir hindranir, þrátt fyrir erfiðleika, mun ég gera það sem ég lofaði að gera, sagði Sarkozy. Frakkar taka við forystuhlutverki í Evrópusambandinu (ESB) 1. júlí. Látum Frakkland draga vagninn, við því býst umheimurinn af okkur. Gamli heimurinn þarfnast endurreisnar, gerum Frakkland að driffjöður hennar. Þess óska ég fyrir árið sem framundan er, sagði hann.
Útaf fyrir sig boðaði Sarkozy engin nýmæli en minnti á að hann hefði á fyrstu átta mánuðunum í starfi ráðist til atlögu við brýn verkefni í efnahags- og atvinnulífi og alþjóðamálum. Frá því hann varð húsbóndi í Elyseehöll hefur hann tekist á við stéttarfélög um breytingar á lífeyriskerfi starfsmanna ýmissa opinberra fyrirtækja, bætt samskipti Frakklands og Bandaríkjanna og staðið af sér áföll í einkalífinu er eiginkona hans Cecilia skildi við hann.
Við upphaf nýs árs hefst nýtt skeið, sagði Sarkozy og sagði næstu aðgerðir ríkisstjórnar sinnar myndu skjóta styrkari stoðum undir nútímavæðingu fransks samfélags, það sem hann kallaði þjóðmenningarstefnu [politique de civilisation) . Stjórnmálaskýrendur segja að ljóst megi vera að Frakkland verður allt öðru vísi og breyttara við lok kjörtímabils Sarkozy árið 2012 en við upphaf þess nái helstu stefnumál hans fram að ganga, eins og flest virðist benda til.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.