Frönsk kaffihúsamenning verður ekki söm

Þau tímamót urðu í Frakklandi um áramótin, að bannað er að reykja í kaffihúsum, börum og veitingahúsum. Reyndar sýndu veitingamenn og kráareigendur reykingamönnum umburðarlyndi í dag.

Margir hinna 15 milljóna reykingamanna notfærðu sér það og sátu andaktugir tottandi vindling í hálfgerði leiðslu yfir því sem koma skal. Margir býsna timbraðir eftir áramótagleði en við spýtukörlum finnst þeim ekkert ráð betra en bergja á rótsterkum kaffibolla og teyga vindling á milli sopa.

Umburðarlyndi þrýtur við lokun í kvöld og frá og með morgundeginum verða engar undantekningar gerðar. Einskis hefur mátt sín mikil óánægju þessa minnihluta landsmanna og áköll samtaka rúmlega 30.000 tóbaksbúða og bara sem farið hafa fram á vissan sveigjanleika frá reglunni. Þó að það hafi aldrei þjakað mig að sitja í reykfylltum herbergjum þá verður óneitanlega mun bærilegra að fara á öldurs- og veitingahús héðan í frá.

En óneitanlega er með þessu lokið sérstöku menningarskeiði, ef svo má segja. Fólk af öllum stéttum sest ekki lengur niður á kaffihúsi með sígarettu og bolla af sterku kaffi eins og jafnvel í árhundruð. Kaffihúsasamfélagið og menningin þar verður eflaust ekki söm eftir þetta.  

Skoðanakannanir sýna, að breiður og almennur stuðningur er við reykingabannið. þessa ráðstöfun Roselyne Bachelot heilbrigðisráðherra mótmælir því að bannið sé á skjön við frelsi einstaklingsins til orða og athafna. Segir þvert á móti að héðan í frá hafi fólk mun meira frelsi til að njóta góðs matar og góðra vína í hreinu lofti á veitingahúsum.

Þeir sem vilja freista þess að brjóta bannið eiga yfir höfði sér allt að 450 evru sekt, verði þeir staðnir að verki. Og veitingamenn hafa hvöt til þess að sjá til þess að gestir þeirra virði lögin því ellegar verða þeir sjálfir sektaðir um 750 evrur fyrir að leyfa reykingar.

Margir hafa talið að bannið verði til þess að draga muni stórlega úr reykingum og verða jafnvel mörgum hvatning til að leggja sið þennan á hilluna. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort svo verður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband