Áhorf meira á einkasjónvarp en ríkisstöðvarnar

Birtur hefur verið listi yfir vinsælustu þætti franskra sjónvarpsstöðva á nýliðnu ári. Athygli vekur að  100 vinsælustu þættirnir, þ.e. þar sem áhorf mældist mest, voru allir sýndir á einkareknu stöðinni TF1.

Samkvæmt upplýsingum sjónvarpsstöðvarinnar er þetta í fyrsta sinn frá því samræmd áhorfsmæling var tekin upp í Frakklandi árið 1989 að ein og sama stöðin einokar áhorf með þessum hætti.

Litlu munaði í fyrra, en þá átti TF1 98 af 100 mest áhorfðu, ef svo mætti segja, útsendingarnar. Þetta vekur óneitanlega athygli því stöðin á í keppni við mikinn fjölda sjónvarpsstöðva, m.a. fjórar öflugar ríkissjónvarpsstöðvar, France-2, France-3, France-4 og France-5.

Sú útsending sem situr í efsta sæti eftir árið er undanúrslitaleikur Frakka og Englendinga í heimsmeistaramótinu í rugby, eða ruðningi, sem fram fór í París 13. október. Á hann horfðu 18,3 milljónir eða 67,4% heimila. Útsendingar frá íþróttaviðburðum voru áberandi því í efstu fimm sætunum voru jafn margir leikir Frakka í keppninni.

Kappræður Segolene Royal og Nicolas Sarkozy á lokaspretti forsetakosninganna sl. vor mældust með sjötta mesta áhorfið á árinu, en á útsendinguna horfðu 13 milljónir manna. Af útsendingum í 13. - 50. sæti voru 25 stakir þættir af bandarísku sakamálaseríunum CSI Miami og CSI New York.Samkvæmt mælingum Médiamétrie horfðu að meðaltali langflestir á TF1-stöðina, eða 30,7% að jafnaði hvern dag. Er það 0,9% minna jafnaðar áhorf en 2006. Í öðru sæti var France-2 með 18,1% áhorf og France-3 í þriðja með 14,1%. Skerfur áskriftarstöðvarinnar Canal+ var hins vegar aðeins  3,4% áhorf.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband