Segolene Royal sækist eftir hlutverki leiðtogi sósíalista

Segolene Royal staðfesti í dag það sem legið hefur í loftinu, að hún hyggst freista þess að verða kjörin formaður Sósíalistaflokksins og taka við því embætti af fyrrverandi eiginmanni sínum, Francois Hollande. Allt frá því hún tapaði fyrir Nicolas Sarkozy í forsetakosningunum í maí sl. hefur blasað við að hún vill verða frambjóðandi flokksins við næstu kosningar, 2012.

 

Með tíðindunum í dag má segja að undirbúningur Royal fyrir forsetakosningarnar 2012 sé hafinn. „Ég ætla að fylgja því eftir til loka sem ég hóf í kosningabaráttunni, að endurnýja vinstriöflin og fylkja sósíalista að baki því pólitíska verkefni,“ sagði hún við frönsku sjónvarpsstöðina France 2 í dag.

  

Sósíaflokkurinn hefur verið í upplausn allt frá í kosningunum í maí en það voru þriðju forsetakosningarnar í röð sem flokkurinn tapar. Á þessari stundu er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að Hollande dragi sig í hlé á flokksþinginu í haust þótt í það hafi stefnt.  Að honum frátöldum blasir ekkert foringjaefni við, fyrir utan Royal, nema ef til vill Bertrand Delanoe borgarstjóri Parísar. Hann hefur jafnvel notið meiri vinsælda og álits en Segolene samkvæmt könnunum.

 

Dominique Strauss-Kahn er ekki lengur inni í myndinni sem nýr leiðtogi sósíalista þar sem hann hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) í Washington. Hann hefur hins vegar ekki viljað útiloka forsetaframboð 2012, árið sem ráðningatími hans hjá IMF rennur út.

Kennir öllum nema sjálfri sér um


Royal gagnrýndi áhrifamenn í flokknum í bók sem út kom í byrjun desember og sagði þá hafa grafið undan kosningabaráttu hennar. Sagði ósigur sinn fyrir Sarkozy hafa verið sigurfæri sem hafi verið glatað. Kenndi fjölmiðlum um og sagði það ekki hafa verið henni sjálfri að kenna hvernig fór. Skaut meðal annars föstum skotum á sinn fyrrum ektamann.

 

Í umsögnum var hæðst að bókinni og sumir sögðu sér líða sem hálfu ári yngri því Segolene skrifaði eins og ekkert hefði gerst í maí.

 

Vegna gremju sinnar yfir úrslitum kosninganna dró hún sig um nokkurra mánaða skeið út úr flokksstarfi og tók t.a.m. ekki þátt í tveimur áberandi samkomum um pólitíska endurnýjun meðal vinstri manna.

 

Hún hvatti árangurslaust í fyrravor til þess að flokksþing yrði kallað saman hið fyrsta og nýr leiðtogi kjörinn er yrði jafnframt frambjóðandi sósíalista 2012. Jafnframt sagði hún flokkinn verða að ganga í gegnum hreinsunareld og endurnýjast, en hefur engar tillögur lagt fram í þeim efnum. 


Segolene Royal hefur að miklu leyti haldið sig til hlés undanfarna mánuði. Hún mun nýta sveitarstjórnarkosningar í mars til að láta til sín taka á ný.

 

Ótímabær yfirlýsing?

Eins og við var að búast mætti yfirlýsing Royal um að hún vilji leiðtogahlutverk Sósíalistaflokksins lítilli hrifningu meðal áhrifamanna í flokknum. Flestir sögðu hana ótímabæra, keppnin um leiðtogahlutverkið væri hafin alltof snemma með þessu, nær væri að einbeita sér næstu mánuði að sveitarstjórnarkosningum og endurnýjun flokksins.

 

Aðrir sögðu að með tilliti til ósigurs hennar í forsetakosningunum gæti hún tæpast talist besti holdgervingur umbreytinga og uppstokkunar Sósíalistaflokksins. „Ég held að sjónarmið hennar í dag, strategískur spuni og þokukennd pólitísk viðhorf til efnahags- og félagslegra viðfangsefna endurspegli ekki nútíma sósíalisma,“ sagði Benoit Hamon, vinstri sinnaður sósíalisti sem situr á Evrópuþinginu.

 

Hann sagði að Royal hefði vissulega í hlutverki að gegna í pólitískri umræðu á vettvangi vinstrimanna en sakaði hana og menn af hennar kynslóð um að gera stjórnmálin að átökum þar sem sjálfselska réði ferð.

 

Spurning er hvernig Segolene Royal á eftir að reiða af en hún þarf að mínu mati að vera mun stefnufastari og skýrari í hugmyndum og skoðunum til að ná frumkvæði á ný.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband