3.1.2008 | 19:59
Sarkozy vill heiðra fleiri konur, ekki bara karla!
Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hefur gert ráðherra og æðstu yfirmenn ráðuneyta afturræka með því að hafna tillögum þeirra um orðuveitingar um áramótin. Of mikið var af körlum á listum þeirra, og alltof mikið af opinberum embættismönnum og stjórnmálamönnum.
Nú hamast yfirmenn í ráðuneytum við að smíða nýja lista yfir þá sem forsetinn mun sæma viðurkenningum í byrjun árs því Sarkozy fleygði listunum sem þeir lögðu fyrir hann um áramótin.
Drottnandi á fyrstu listum voru ríkisstarfsmenn og stjórnmálamenn. Líka alltof mikið af körlum, sagði hann. Af 1.340 tillögum um fólk til að hljóta næstæðstu orðu ríkisins, Ordré du Merite, var aðeins þriðjungur konur. Hermt er að Sarkozy vilji a.m.k. jafn margar konur verði sæmdar orðunni og karlar, en slíku jafnvægi hefur aldrei verið náð áður.
Hermt er að aldrei fleiri konur hafi verið tilnefndar en nú til æðstu heiðursviðurkenningarinnar, Légion d'Honneur. Listann átti að birta á nýjársdag en það dregst vegna óánægju forsetans með fyrstu tillögur ráðuneytanna. Sarkozy vildi að jafnt yrði með kynjunum til þeirrar sæmdar en óvíst er að það takist nú.
Að sögn Le Monde var Sarkozy einnig óhress með listana þar sem á þeim voru of margir hvítir menn. Bað hann að nýjar tillögur endurspegluðu fjölbreytilega fransks samfélags og að í þeim yrði að finna fleira fólk úr atvinnulífinu og frá félögum og samtökum er fást við mannúðarmál.
Sarkozy hefur sett fleiri konur til ábyrgðarstarfa í ríkisstjórn sinni en nokkur annar forveri hans á forsetastóli. Meðal þeirra eru þrjár ungar konur úr röðum innflytjenda frá Afríku og arabaríkjum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.