Sarkozy vill auglýsingar burt úr ríkissjónvarpsstöðvunum

Kannski sér maður fram til þeirra tíma að geta horft á sjónvarp hér í Frakklandi án þess að auglýsingar teygi á dagskránni. Alltjent sagðist Sarkozy forseti á blaðamannafundi í morgun vilja stoppa allar auglýsingar á ríkisstöðvunum, sem eru margar og ágætar.

Sarkozy sagðist vilja skoða þetta mál á næstunni. Hann sagði að bæta yrði stöðvunum upp tekjumissinn af auglýsingabanni með því að skattleggja auglýsingatekjur einkastöðvanna og með sérstökum skatti á veltu net- og farsímafyrirtækja.

Þarna fannst mér forsetanum bregðast bogalistin því nær hefði verið að ætla að hann lokaði eða seldi eitthvað af þessum urmul sjónvarps- og útvarpsstöðva sem ríkið rekur. Af nógu er að taka hér í landi og einkastöðvar ná betur eyrum almennings, samkvæmt áhorfsmælingum.

Sarkozy sagðist ennfremur óska þess að tvær sjónvarpsstöðvar og ein útvarpsstöð myndu renna saman í eina öfluga stöð, France Monde, þegar í ár. Ætti hún ekki að senda bara út á frönsku, eins og hann sagði. Forsetinn vill að TV5, France 24 og útvarpsstöðin Radio France Internationale, sameini þannig krafta sína. Ein þeirra, France 24,  hefur sent út á þremur rásum allan sólarhringinn; á frönsku, ensku og arabísku.

Yfirlýsingar Sarkozy um auglýsingabann á ríkisstöðvunum leiddu til mikillar hækkunar á hlutabréf einkastöðvanna TF1 og M6. Bréf þeirrar fyrrnefndu hækkuðu um 9,94% og þeirrar síðarnefndu um 4,49%. Þá hækkuðu bréf Bouygues, móðurfélags TF1, um 3,07%. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband