Sarkozy hleypur á sig eins og aðrir

Það kemur fyrir, að góðir menn hlaupa á sig. Það finnst mér eiga við um Nicolas Sarkozy forseta þessa lands. Ætli það sé vegna ofvirkni hans í starfi? Það er ekki laust við að mér finnist hann stundum framkvæmda fyrst og hugsa síðar. Skal þó tekið fram að ég er mjög hrifinn af honum, en mig grunar að hann hafi slakað eitthvað á skokkinu því það eru margir mánuðir síðan hann hefur sést í hlaupaskónum.

Í fyrsta lagi segir hann að Frakkar þurfi að koma sjónarmiðum sínum, menningu sinni og arfleifð á framfæri við umheiminn. Í sömu andrá segist hann munu stöðva starfsemi sjónvarpsstöðvarinnar France 24  sem sett var á fót fyrir ári og sendir út á ensku og arabísku auk frönsku og er við það að hefja útsendingar á spænsku.

Stöðin hefur verið kostuð af frönsku almannafé og Sarkozy segir ótækt að franska ríkið kosti stöð sem sendir út á ensku og arabísku. Þetta finnst mér hrein og klár skammsýni því það er borin von  að hann geti komið málstað Frakka á framfæri við umheiminn með því að tala aðeins frönsku. Mér er til efs að meira en 2% jarðarbúa hafi hana á takteinum.

Í öðru lagi var það eitt af helstu stefnumálum Sarkozy fyrir forsetakosningarnar að auka kaupmátt almennings. Það hefur ekki tekist til þessa, hvað sem síðar á eftir að gerast. Flest hefur hækkað og því hefur kaupmáttur lækkað frá því Sarkozy komst til valda, flóknara er það ekki.

Forsetinn ber því við að sjóðir ríkisins séu tómir og hann geti því ekkert gert sem stendur. Samt lofaði hann sjómönnum miklum styrkjum vegna olíuhækkunar, eftir nokkurra daga aðgerðir og mótmæli þeirra. Fór niður á kajann á Bretaníuskaga, reifst fyrst hraustlega við karlana en stakk síðan upp í þá dúsu. Nokkrum dögum seinna barst út að 2% skattur skyldi lagður á allt fiskmeti við búðarborðið til að fjármagna olíustyrkina. Í búðum hér hafði fiskur hækkað talsvert vikur og mánuði á undan svo vart var á þetta bætandi. Og einfaldlega hrein og klár kaupmáttarskerðing!

Það getur verið að olíustyrkurinn og fiskiskatturinn eigi eftir að verða til góðs. Hvort tveggja varðar við regluverk Evrópusambandsins (ESB) og ég sá í blaðinu mínu, Ouest-France í dag, að Joe Borg, sem fer með fiskveiðimál í framkvæmdastjórninni í Brussel, sé líklegur að samþykkja ráðstafanirnar, með skammböggli þó.

Það skilyrði er Borg sagður munu setja fyrir samþykki sínu,  að endurnýjun franska fiskveiðiflotans, að skipulagi og samsetningu, verði hafin. Því aðeins sé hægt að samþykkja ráðstafanirnar að þær séu liður í víðtækum áætlunum um endurskipulagninu fiskveiða Frakka.

Í þriðja lagi - smámál þó - voru það mistök hjá Sarkozy að halda því leyndu að hann var í október fluttur á sjúkrahús og gekkst þar undir lítilsháttar aðgerð vegna sýkingar í hálsi. Þetta gerðist þremur dögum eftir skilnað þeirra Ceciliu og komst ekki málið upp fyrr en í byrjun vikunnar vegna útkomu þriggja bóka um forsetafrúna fyrrverandi.

Það voru mistök af Sarkozy að vera ekki búinn að láta þetta út spyrjast, eftir allt tal hans um gagnsæi í stjórnsýslunni og embættisgjörðum og að hann myndi upplýsa um heilsufar sitt með reglulegum hætti. Algjört smámál í sjálfu sér og því klúður að leyna því. Ætli þetta falli ekki undir það að hann er mannlegur eins og við hin og vill halda einhverju af sínu fyrir sig.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband