Frakkar taka hart á mengandi döllum

Frakkar hafa um dagana fengið nóg af olíumengun og m.a. af þeim sökum heldur strandgæslan úti öflugu eftirliti á hafinu undan ströndum landsins. Skipum sem draga á eftir sér olíutaum er óðara stefnt til hafnar og skipstjórum og útgerð stefnt fyrir dóm, ef ástæða þykir.

Á ári hverju ganga nokkrir dómar í málum af þessu tagi. Um daginn dæmdi áfrýjunarréttur í grannbænum mínum, Rennes, skipstjórann á togbátnum Fisher Golf í 30.000 evra sekt fyrir mengun.

Helmingur sektarupphæðarinnar var bundin skilorði og kemur ekki til borgunar komi skipið ekki við sögu mengunar á tilskildu tímabili.

Af 15.000 evrunum sem greiða verður var skipstjóranum gert að borga 20% eða 3.000 evrur úr eigin vasa en afgangurinn var dæmdur á útgerðarfélagið. 

Er strandgæslan varð vör við olíubrák undan eynni I'lle d'Oléron við Bretaníuskaga 26. apríl árið 2006 kom í ljós að 11 kílómetra langur og 10 metra breiður taumurinn stóð aftur úr Fisher Golf.  

Málið kom fyrst til kasta héraðsdómstóls í Brest sem úrskurðaði að olía hafi lekið úr skipinu í sjóinn fyrir slysni og sýknaði skipstjórann.

Áfrýjunarrétturinn gat fallist á að um slysni hafi verið að ræða, en sagði það hvorki leysa skipstjórann né útgerðina undan ábyrgðinni á menguninni sem það olli.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband