14.1.2008 | 16:54
Hvernig er ástandið í móðurlífi Bruni?
Þegar ég var í háskóla í Englandi fyrir rúmum 30 árum uppnefndu Englendingar gjarnan Frakka og kölluðu þá "The Frogs" eða froskana. Eimdi enn eftir af fornum fjandskap milli þjóðanna tveggja, eða allt frá því Vilhjálmur bastarður Rúðujarl og hertogi af Normandí felldi Harald Guðinason Englandskonung í Hastings 1066.
Þess vegna hef ég alltaf haft ákveðinn fyrirvara á hlutunum þegar maður skoðar fréttir enskra fjölmiðla um Frakkland og Frakka. Nýjasta dæmið er frétt götublaðsins Daily Mail í dag um þungun Carla Bruni, ástkonu Nicolas Sarkozy forseta. Blaðamanninum tekst ekki að fara rétt með tilvitnanir sínar og heimildir - hefur líklega ekki skilið hinar frönsku heimildir sínar.
Hann fer rangt með - og ruglar saman vefsíðu og bloggsíðu - er hann segir Bruni vera með barni. Hið rétta er að bloggarinn Allain Jules skrifaði sl. miðvikudag (http://allainjulesblog.blogspot.com/2008/01/carla-et-nicolas-attendraient-un-enfant.html) að Bruni gæti verið með barni. Gæti verið með, segir hann en staðhæfir ekki að hún sé ófrísk. Og getur sér til að heimsókn hennar á spítala í Parísarúthverfi gæti verið til staðfestingar um það. Ekki sagði hann að heimildarmenn á spítalanum hafi staðfest það, eins og Daily Mail segir.
Þetta var eins og hálfgert rabb hjá honum um eitthvað sem gæti verið af því að Sarkozy sagði daginn áður að "alvara" væri í samband þeirra Bruni.
Daily Mail segir líka að vefsetur fríblaðsins 20minutes.fr hafi birt frétt um þetta, en ritstjóri þess skrifar á vefinn í dag og vísar öllu slíku á bug; segir vefsetrið ekki hafa skrifað staf um málið. Hann segir þó, að einn ótilgreindur bloggari af þeim 3.000 sem notuðu bloggvef vefsetursins (gæti þess vegna verið þessi Allain Jules) hafi haldið því fram að Bruni gæti verið ófrísk.
Á öðrum stað á bloggi Jules lýsir hann gremju sinni yfir því að fréttir sem hann skrifi á blogg sitt séu eignaðar 20minutes og hann sakar einnig slúðurblaðið Journal de Dimanche um að hafa nappað af blogginu frétt um yfirvofandi brúðkaup Sarkozy og Bruni.
Í því sambandi er frétt í dag á vefsetri blaðsins l'Est Républicain í dag, að þau hafi látið pússa sig saman í Elysee-höllu sl. fimmtudag. Hvorki talsmaður forsetans né forstöðumaður upplýsingaskrifstofu hallarinnar vilja tjá sig um fréttina. Sarkozy sagði á blaðamannafundinum í síðustu viku að fjölmiðlar myndu líklega ekki frétta af brúðkaupi - ef af yrði - fyrr en það væri afstaðið.
p.s.
Vera má að Frakkar og Frakkland séu hærra skrifuð hjá Englendingum nú en 1973-76. Í millitíðinni hafa alltjent tugir þúsunda Breta flutt sig yfir Ermarsundið til að verja efri árum hér í Frakklandi. Mikið er um þá hér á Bretaníuskaga en þó eru þeir líklega fjölmennari sunnar í landinu. Dæmi er um bæi þar sem þeir eru í meirihluta íbúa!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.