27.4.2009 | 15:40
Franskar konur grennstar - en finnst þær vera feitar
Franskar konur eru þær grennstu í Evrópu en hvað sem allri tölfræði líður finnst þeim sjálfum þær vera feitar! Hvergi í álfunni er hlutfall kvenna undir kjörþyngd hærra en í Frakklandi.
Og slík er áþjánin af menningarhefðum og fegurðarhugmyndum í Frakklandi, að einungis helmingur undirmálskvenna gengst við því að vera of grannur. Í ljós kom við rannsóknir, að í öðrum Evrópuríkjum á hið gagnstæða við; konur í Bretlandi, Spáni og Portúgal sem telja sig alvarlega mjóar eru miklu fleiri en hinar raunverulegu mjónur.
Þetta sýnir að það sem talið er kjörþyngd í Frakklandi er minni þungi en í öðrum löndum, segir yfirmaður rannsóknarinnar, Thibaut de Saint Pol, við frönsku lýðfræðirannsóknarstofnunina.
Í öllum löndum Vestur-Evrópu nema Frakklandi og Hollandi fellur raunverulegur meðalþungi karla í flokk offitufólks, miðað við kjörþyngdarstaðla Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO).
Til samanburðar á hið sama við um konur í aðeins þremur löndum, Bretlandi, Grikklandi og Portúgal. Í Hollandi eru yfirkjörþyngdarkonur fleiri en karlar.
Frakkland er eina ríkið þar sem bæði kyn teljast á eðlilegu þyngdarbili að meðaltali. Það er og eina landið þar sem meira en 5% kvenna telst formlega vera undirvigtar.
Ólíkt skynja karlar og konur þyngdarskort sinn eða offitu, að því er kom fram í rannsókninni sem náði til Vestur-Evrópuríkja. Undirþyngdarkarlar forsmá líkama sinn en feitir sjá engin vandamál við offituna.
Konur sem vantar kjöt á beinin telja það með engu gjaldfalla líkamann. En um leið og þær detta yfir í offituflokk finnst þeim það óásættanlegt, segir Thibaut de Saint Pol.
En hann bætir svo við: Færi franskur einstaklingur sem finnst hann vera feitur til Bandaríkjanna myndi sú tilfinning hverfa, líklega fyrir fullt og allt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.