29.4.2009 | 16:13
Bouton hættir sem yfirmaður Societe Generale
Daniel Bouton tilkynnti í morgun afsögn sína sem stjórnarformaður franska bankans Societe Generale. Hann segist vilja hlífa bankanum við skaða sem ítrekaðar árásir á hann gætu valdið.
Eins og sérhver stjórnandi hefur mér örugglega orðið á í messunni, en stefna bankans hefur gert hann að einum hinum fínasta á evrusvæðinu. Endurteknar árásir á mig í Frakklandi undanfarna 15 mánuði snerta mig, og hætt er við að þær skaði bankann og 163.000 starfsmenn hans. Það má ekki gerast, sagði Bouton, sem kveður bankastjórnina 6. maí nk.
Bouton var auk stjórnarformennsku aðalbankastjóri SocGen frá 1997. Hann var aðalbankastjóri í janúar í fyrra er upp komst um eitt stærsta verðbréfahneyksli sem bankinn tapaði tæpum fimm milljörðum evra á. Vék hann fjórum mánuðum síðar úr bankastjórastarfinu í maí sl. og fól samverkamanni daglega stjórnun hans, en gengdi áfram stjórnarformennsku, enda hafði stjórnin ítrekað hafnað boði hans um afsögn, þrátt fyrir kröfur Nicolas Sarkozy forseta um að æðstu stjórnendur bankans sættu ábyrgð vegna tapsins.
Miklar deilur spruttu upp eftir verðbréfahneykslið og bankarnir voru harðlega gagnrýndir fyrir að fela ungum og áhættusæknum mönnum að stunda spákaupmennsku fyrir þeirra hönd. Tapið hjá Societe Generale var skrifað á umsvif eins slíks, Jerome Kerviel, og því haldið fram að hann hafi farið langt út fyrir heimildir sínar í starfi.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Á Íslandi er ábyrgð mikið notað orð í launasamningum "ráðamanna" og annarra "valdamikilla manna". Þeir bera svo gríðarlega ábyrgð heyrist oft sagt um "hálaunamenn" á Íslandi.
Á Íslandi er ábyrgð aðeins merkingarlaust orð í orðabók.
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.