29.4.2009 | 16:39
Netlöggufrumvarp Sarkozy aftur fyrir franska þingið
Verði frumvarp fyrir franska þinginu að lögum, sem allt útlit er fyrir, eiga þeir sem hlaða niður tónlist á netinu með ólögmætum hætti yfir höfði sér að vera sviptir aðgangi að netinu í eitt ár. Frumvarpið var tekið til umræðu í þinginu í dag, en það var óvænt fellt fyrr í mánuðinum, vegna fjarvista stjórnarþingmanna.
Nái málið fram að ganga, sem er talið formsatriði, hafa Frakkar sett algjört og strangt fordæmi í tilraunum til að vinna bug á sjóræningjastarfsemi á netinu. Sá sem hleður ólöglega niður eða skiptist á skrám með ólögmætum hætti færi við fyrsta brot aðvörun í tölvupósti. Við næsta brot fær hann sent aðvörunarbréf heim til sín og láti hann ekki enn segjast og verði staðinn að verki þriðja sinni verður nettenging hans rofin úr sambandi í heilt ár.
Hagsmunaðilar í bæði tónlistar- og kvikmyndaiðnaði hafa fagnað frumvarpinu og hvatt til samþykki þess, en þau hafa sagt ólögmætt niðurhal bitna á afkomu greinanna.
Ýms neytendasamtök hafa hins vegar sett fyrirvara eða lagst gegn lagasetningunni og sagt eftirlit sem hún kveður á um jafngilda ríkisreknum persónunjósnum. Stjórnarandstaðan með sósíalista í fararbroddi leggst gegn frumvarpinu og segir það hættulegt, gagnslaust, óskilvirkt og mjög vafasamt gagnvart borgurunum.
Fyrri gerð frumvarpsins var samþykkt í öldungadeildinni en síðar felld í fulltrúadeildinni. Tveir stjórnarþingmenn gengu til liðs við stjórnarandstöðuna og greiddu atkvæði gegn því í mótmælaskyni við að breytingartillaga þeirra náði ekki fram að ganga. Hún gekk út á að gera hinum brotlegu skylt að borga áfram netáskrift á banntímanum. Vegna fjarvista stjórnarþingamanna reið það baggamun við atkvæðagreiðslu.
Ljóst er, að flokkur Nicolas Sarkozy forseta mun binda þannig um hnúta nú, að nógu margir þingmenn verði viðstaddir þegar frumvarpið verður tekið til atkvæða.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.