29.4.2009 | 20:13
Bæjarstjórinn segist vera netfangi
Frakkar geta verið skemmtilega uppátækjasamir og óbundnir af tepruskap. Bæjarstjórinn í Saint-Prix í héraðinu Val-d'Oise í Frakklandi, Jean-Pierre Enjalbert, er í flokki slíkra. Hann gekk í dag inn á lögreglustöð í bænum d'Ermont norður af París og sagðist gefa sig fram sem fangi í nafni allra þeirra sem hefðu stundað niðurhal á internetinu.
Með þessu var hann að mótmæla fáránleika lagafrumvarps um ráðstafanir gegn ólöglegu niðurhali en það kom til kasta franska þingsins í dag. Enjalbert krafðist þess að vera handtekinn sem fulltrúi niðurhala sem hann sagði að væru ekki bandittar.
Eftir að hafa fengið áheyrn hjá lögreglustjóranum yfirgaf bæjarstjórinn í Saint-Prix, 7.200 manna bæ norður af París, lögreglustöðina sem frjáls maður.
Frumvarpið um ráðstafanir gegn og bann við niðurhali var fellt í fulltrúadeildinni 9. apríl sl., en örlítið breytt var það aftur á dagskrá deildarinnar í dag. Enjalbert bæjarstjóri segist vera andvígur lögunum og þeirri bælingu sem í þeim fælist. Netið sé gríðarleg gagnaveita sem viturlegra væri að koma einhverri röð og reglu á fremur en að stofna til óskilvirkrar netlöggu. Raunverulegir netræningjar myndu fljótt finna leiðir og smugur framhjá örmum hennar.
Athugasemdir
Ásgeir við höfum einn svona Sarkósí hér heima, köllum hann bara Steingrím Joð. Ekki mikill munur á þeim nema hvað Steingrímur vill ganga heldur lengra í netlögguleiknum.
Annars er ég spurningu til þín ótengda þessari færslu.
Veist þú eitthvað um það hvort það sé dýrara eða ódýrara að fara út að borða á Spáni heldur en í Frakklandi.
Ég er að fara til Spánar um miðjan maí og verð einhverstaðar í námunda við Torrevieja (vona þetta sé rétt skrifað). Og eins og sönnum ferðamanni sæmir er meiningin að halda sig frá ströndinni og öllum svona helstu ferðamannastöðum en kíkja samt í einhverja "garða" bæði vatns og dýra.
Helst að þvælast um ( og villast í smá tíma) og skoða svona þetta óhefðbundna ef svo má að orði komast.
Hvað ertu annars að gera í Frakklandi, ertu alveg sestur þar að, 100 ára saga ÍR er komin (meira segja hér í hillu heima). Er nokkuð að gera þarna
Sverrir Einarsson, 30.4.2009 kl. 08:19
Nei, ekki veit ég um samanburð á veitingahúsum, þótt ég hafi verið fyrir fjórum vikum í nokkra daga á Spáni. Þar sýndist mér verðlag þó svipað og hér nema bensínið er mun ódýrara þar. Það get ég þó sagt, að mun billegra er að fara á frönsk veitingahús en íslensk! Virka daga geta menn fengið hér um slóðir hádegismáltíð með forrétt og eftirrétt á 10 evrur. Hinn ágætasta mat og yfirleitt vel útilátinn.
Ég er búsettur í Frakklandi frá 2005 konan er frönsk og bjó á Íslandi í aldarfjórðung. Þetta er eins og í fótboltanum fyrri hálfleikurinn á Íslandi og sá seinni hér í landi. Fæst hér við skriftir. Gott að heyra að þú eigir ÍR-söguna og vonandi hefur þér þótt hún gagnleg. Hefði getað skrifað þrefalt stærra verk, það er af svo miklu að taka hjá þessu merka félagi og hefði mátt fara ítarlegar í margt. En ég varð að koma þessu fyrir í einni bók og var ekki hægt að hafa hana stærri og er hún býsna þykk.
Sarkozy er að mörgu leyti maður að mínu skapi þótt ég kaupi ekki allt sem hann segir eða gerir. Hann er að reyna að færa margt hér til nútímans sem látið hefur verið drabbast í áranna rás.
Ágúst Ásgeirsson, 30.4.2009 kl. 15:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.