Fíkniefni fellir frægan hjólreiðagarp

Ekkert skil ég í hinum ágæta belgíska hjólreiðamanni Tom Boonen, sem verið hefur einn sá fremsti í heiminum undanfarin ár. Annað árið í röð hefur hann verið útskúfaður frá keppni í Tour de France, og af sömu ástæðu.

 

Boonen á erfitt með að umgangast áfengi og kókaín. Í fyrra var hann stöðvaður við akstur í heimalandi sínu og sendur í blóðpróf þar sem ljóst þótti að hann væri í einhvers konar vímu. Þar reyndist um kókaín að ræða.

 

Hjólreiðamenn eru undir strangara eftirliti en nokkrir aðrir íþróttamenn og því er undarlegt að Boonen skyldi ekki halda sig á mottunni eftir það sem á undan var gengið. Í fyrra slepptu belgísk dómsyfirvöld honum en búist er við að hann njóti ekki lengur velvilja vegna brotsins nú.

 

Kókaín er ekki á bannlista hjá íþróttahreyfingunni en neysla þess varðar við hegningarlög í Belgíu. Eins og í fyrra hefur liðið hans þegar sett hann í ótímabundið keppnisbann, rætt er um að það verði allt að hálft ár. Framkvæmdastjóri Tour de France segir augljóst, að útilokað sé að kappinn mikli verði með í Frakklandsreiðinni vegna þessara mála.

 

Boonen er frægur fyrir styrk sinn á endaspretti og hefur unnið margar dagleiðir í Tour de France á undanförnum árum. Þá komst hann í byrjun apríl í hóp örfárra hjólreiðagarpa sem sigrað hafa þrisvar sinnum í hinni frægu þolreið frá París til Roubaix.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband