Franskir hægrimenn með forskot í Evrópukosningunum

Franskir hægrimenn fara með sigur af hólmi í kosningum til Evrópuþingsins 7. júní næstkomandi, ef marka má skoðanakannanir. Listar UMP, flokks Nicolas Sarkozy forseta,  hlýtur 27% atkvæða, Sósíalistar (PS) 22% og flokkur Francois Bayrou fær 13%, samkvæmt könnun stofnunarinnar OpinionWay-Fiducial.

 

Könnunin var gerð fyrir blöðin Le Figaro og sjónvarpsstöðvarnar TF1, LCI og RTL. Í sambærilegri könnun Ifop-stofnunarinnar fyrir vikuritið Paris Match var forskot UMP á PS ögn meira, eða 5,5%.

 

Fylgi flokks Sarkozy þykir athyglisvert en það er  rúmlega 10% meira en í kosningunum 2004, er flokkurinn fékk tæp 17% atkvæða. Jafnframt segja stjórnmálaskýrendur að flokkurinn virðist ætla sleppa við að kjósendur refsi honum fyrir aðgerðir og stefnu ríkisstjórnarinnar.

 

Fylgi PS er 7% minna en 2004 og þetta er jafnframt í fyrsta sinn frá 1994 sem sósíalistaflokkurinn er ekki fylgismestur frönsku flokkanna við Evrópukosningar. Þykir það ekki góðs viti fyrir nýja flokksleiðtogann, Martine Aubry, sem stendur frammi fyrir sínum fyrstu kosningum.

 

Hún hefur reitt sig á að óánægja með aðgerðir stjórnar Sarkozy vegna efnahags- og fjármálakreppu myndi bitna á hægriflokki hans. Þvert á móti virðist sundurlyndi í Sósíalistaflokknum og á vinstri vængnum bitna á PS því smáflokkar vinstra megin við hann bæta við sig fylgi frá 2004.

 

Listar umhverfisverndarmannanna Daniel Cohn-Bendit og José Bové hafa tapað fylgi frá í apríl en það nemur nú 9 %. Þar er Eva Joly, rannsóknardómarinn fyrrverandi, í framboði.

 

Samkvæmt könnununum fá þrír öfgaflokkar til vinstri samtals 14% atkvæða í kosningunum og þrír öfgaflokkar til hægri 13% (þar á meðal er Þjóðfylking Le Pen.)

 

Andsnúnir Tyrkjum í ESB

 

Athyglisvert er, að meirihluti aðspurðra, 52%,  sagðist ekki hafa hinn minnsta áhuga á kosningabaráttunni vegna Evrópuþingsins.

 

Þá er mikill meirihluti Frakka andvígur því að Tyrkir fái aðild að ESB. Þeirrar skoðunar eru 71% kjósenda MoDem og 82% kjósenda UMP. Stuðningsmenn PS skiptast í tvær fylkingar í afstöðunni til aðildar Tyrkja að ESB, 46% eru mótfallin því en 53% fylgjandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband