Lög um netlöggu samþykkt í Frakklandi

Þá er netlöggufrumvarp frönsku ríkisstjórnarinnar orðið að lögum, eftir að hafa fallið klaufalega í fyrstu atrennu í þinginu vegna fjarvista þingmanna flokks Nicolas Sarkozy forseta. Samþykktu báðar deildir þingsins það örugglega í gær. Fögnuðu listamenn og rétthafar um leið og þeir skömmuðust út í pólitíska fóstbræður sína í Sósíalistaflokknum fyrir að leggjast gegn frumvarpinu.

Þeir sem héðan í frá hlaða niður t.d. tónlist og kvikmyndum á netinu með ólögmætum hætti eiga nú yfir höfði sér að vera sviptir aðgangi að netinu í eitt ár.  Með þessu hafa Frakkar sett algjört og strangt fordæmi í tilraunum til að vinna bug á „sjóræningjastarfsemi“ á netinu. Og gengið sumpart gegn lögum Evrópusambandsins (ESB).

Sá sem hleður ólöglega niður eða skiptist á skrám með ólögmætum hætti fær við fyrsta brot, samkvæmt lögunum, aðvörun í tölvupósti. Við næsta brot fær hann sent aðvörunarbréf heim til sín. Og  láti hann ekki enn segjast og verði staðinn að verki þriðja sinni verður nettenging hans rofin úr sambandi í heilt ár.

Og það sem meira er, ekkert þýðir fyrir viðkomandi að reyna kaupa netaðgang af öðru netfyrirtæki, girt verður fyrir þann möguleika.

Hagsmunaðilar í bæði tónlistar- og kvikmyndaiðnaði höfðu fagnað frumvarpinu og hvatt til samþykkis  þess, en þau hafa sagt ólögmætt niðurhal bitna á afkomu greinanna. Hópur nafnkunnra listamanna úr ýmsum greinum, sem fylgt hefur Sósíalistaflokknum (PS) að málum, gekk á fund Martine Aubrey flokksformanns síðast í fyrradag og reyndi að telja hana á sitt band og til að fá þingmenn flokksins til að samþykkja lögin. Erindi höfðu þeir ekki sem erfiði og leyndu ekki gremju sinni í garð PS.

Ýmis neytendasamtök höfðu hins vegar sett fyrirvara eða lagst gegn lagasetningunni og sagt eftirlit sem hún kveður á um jafngilda ríkisreknum persónunjósnum. Stjórnarandstaðan með sósíalista í fararbroddi lagðist gegn frumvarpinu og sagðir það „hættulegt, gagnslaust, óskilvirkt og mjög vafasamt gagnvart borgurunum.“

Fyrri gerð frumvarpsins var samþykkt í öldungadeildinni í síðasta mánuði en síðar felld í fulltrúadeildinni. Tveir stjórnarþingmenn gengu til liðs við stjórnarandstöðuna og greiddu atkvæði gegn því í mótmælaskyni við að breytingartillaga þeirra náði ekki fram að ganga. Hún gekk út á að gera hinum brotlegu skylt að borga áfram netáskrift á banntímanum. Vegna fjarvista stjórnarþingamanna reið það baggamun við atkvæðagreiðslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valan

Þetta er gersamlega fáránlegt. Refsing verður að vera í mun meira og rökrænna samhengi við brot en þetta til þess að gera nokkuð einasta raunverulegt gagn.

Hvað eru Frakkar að hugsa? Þetta minnir mann á þegar hönd var höggvin af þjófum. Þeir gátu þá ekki stolið með henni, en gátu heldur ekki gert neitt annað með henni heldur.

Valan, 14.5.2009 kl. 23:24

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Hvað eru Frakkar að hugsa? segir þú. Það er stórt spurt. Fyrst og síðast vakir fyrir þeim að standa vörð um hugverka- og höfundarrétt. Snarminnkandi sala  tónlistar og kvikmynda er skrifuð á ólögmætt niðurhal á netinu og skráarskipti fólks í millum. Enda eru t.d. tónlistar- og kvkimyndargerðarmenn ánægðir með lögin.

Ávinningurinn á eftir að koma í ljós, en lögin hljóta að kalla á eitthvað ríkisbákn til eftirlits með niðurhali. Ekki þarf ríkissjóðurinn franski á meiri útgjöldum að halda, þau eru ærin og yfirdrifin fyrir. 

Ágúst Ásgeirsson, 15.5.2009 kl. 10:56

3 Smámynd: Sævar Einarsson

Voðalega hafa stjórnmálamenn litla trú á fólkinu sínu, það er búið að stimpla það sauðheimska bjána. Það er ekki hægt að stöðva svona, ekki einu sinni í Kína, fólkið notar bara dulkóðuð sambönd og opna proxy þjóna.

Sævar Einarsson, 16.5.2009 kl. 08:28

4 Smámynd: Sævar Einarsson

Það væri miklu gáfulegra að vinna með netinu en á móti því, því það er ekki hægt, það er eins og að berjast við vindmillur. Ég held að fólk sé almennt orðið mjög pirrað á því hvernig eigendur efnis tekur neytanda í ósmurt, sem dæmi er jörðinni skipt upp í DVD region svæði hjá eigendum eða höfundarrétti efnis og þú getur verslað Die Hard í USA á $10 en í Asíu á $1, þetta er bara dæmi og ekki nema eðlilegt að fólk sé orðið pirrað á að láta svona yfir sig ganga.

Sævar Einarsson, 16.5.2009 kl. 08:37

5 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Athyglisverðar pælingar hjá þér, Sævarinn. Og það á náttúrulega alveg eftir að koma í ljós hvort þessar fyrirætlanir virka í raun og veru. Svonefndir sjóræningjar eru ekki svo með öllu slæmir, sé ég í frönskum blöðum í dag. Þeir eru nefnilega þeir sem að auki kaupa helst músík og myndir á netinu.

Ágúst Ásgeirsson, 16.5.2009 kl. 19:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband