26.5.2009 | 12:10
Franskir fangar fá sinn Tour de France
Frakkar eru ástríðufullir áhugamenn um hjólreiðar og stunda þær af miklu kappi, bæði sem keppni og sem holla hreyfingu og útivist. En fremur óvenjulegur hjólreiðatúr um landið hefst í borginni Lille í norðurhluta landsins í næstu viku.
Þann 4. júní leggja 196 fangar upp í hjólreið. Undir vökulu auga urmul varða á reiðhjólum og öðrum farartækjum munu þeir hjóla alls 2.300 kílómetra á 17 dögum. Fá þeir sem sagt sína útgáfu af Tour de France, er kalla mætti refsitúrinn, já eða Frakklandsfangareiðin.
Ólíkt Frakklandsreiðinni frægu verður harðbannað að slíta sig frá hópnum og stinga af til að koma fyrstur í mark á hverjum áfanga. Blátt bann liggur við slíku, af skiljanlegum ástæðum því fangarnir hafa ekki lokið afplánun refsingar sinnar.
Þetta er fyrsta fangareið sinnar tegundar. Meðan þeir verða utan múranna ber föngunum skylda til að halda hópinn á vegum landsins. Ekki verður um keppni af neinu tagi að ræða og engin verðlaun veitt. Tilgangurinn er að örva fangana til hópsamstarfs og að leggja hart að sér til að ná settu marki.
Þetta er viss tegund af flótta eða undankomu fyrir okkur, tækifæri til að komast frá dags daglegum raunveruleika fangelsisins. Högum við okkur vel gætum við kannski fengið reynslulausn fyrr en ella, segir Daniel, 48 ára fangi í Nantes, sem tekur þátt í reiðinni.
Á hverri daglegri endastöð er að finna fangelsi. Þar þurfa hjólreiðarmennirnir ekki að taka á sig náðir heldur gista þeir á hótelum. Endamarkið verður í París líkt og í hjólreiðakeppninni frægu.
Við viljum færa þátttakendum sönnur á, að með nokkurri þjálfun geta menn náð settu marki og hafið nýtt líf, segir talsmaður fangelsisyfirvalda um þetta nýstárlega uppátæki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.