26.5.2009 | 12:47
60.000 boltar
Opna franska tennismótið hófst á Roland-Garros tennissvæðinu í París um helgina. Ekki gerði ég mér grein fyrir því hvað marga tennisbolta þarf í móti sem þessu. Sá það í blaðinu mínu, að keppendur nota hvorki fleiri né 60.000 bolta meðan á mótinu stendur.
Ætli þeir teljist svo ekki annað hvort ónýtir eða í besta falli nýtilegir til æfinga þegar mótið er afstaðið?
Roland-Garros mótið stendur yfir í tvær vikur og er meðal þeirra stærstu í heiminum. Íþróttin er gríðarlega vinsæl hér í Frakklandi sem keppnisgrein og frístundaiðkun.
Í ár beinist athyglin fyrst og fremst að Spánverjanum Rafael Nadal. Spurningin sem allir spyrja er hvort hann vinni mótið fimmta árið í röð. Slíkt hefur engin afrekað. Nadal hóf leik í gær og þurfti lítið fyrir brasilískum keppanda að hafa, lagði hann í þremur settum.
Nadal vann sinn 29. leik á Roland-Garros í gær sem er met. Og athyglisvert er að í þeim öllum hefur hann einungis tapað 7 settum. Og enginn leikurinn hefur teygst fram í fimmta sett, þeim hefur í mesta lagi lokið í fjórða setti, oftast í því þriðja!
Önnur megin spurning í tengslum við mótið er hvort svissneski tenniskappinn Roger Federer takist að bæta sigri í Roland-Garros í safnið. Hann hefur unnið öll stórmótin í tennis á ferlinum, sum hver mörgum sinnum, nema í Roland-Garros.
Keppnin hefur ekki farið alltof vel af stað fyrir Frakka. Ein helsta stjarna þeirra, Amelie Mauresmo, féll úr leik í fyrstu umferð gegn þýskri stúlku.
Króatinn Ivo Karlovic féll úr leik með því að tapa fyrir Bandaríkjamanninum Lleyton Hewitt í fimm setta leik. Karlovic setti þó met í sögu stórslemmumóta, hlaut samtals 55 ása í leiknum. Gamla metið var frá 2005 og hljóðaði upp á 51 ás. Það átti hann sjálfur ásamt Svíanum Joachim Johansson. Karlovic setti það í opna ástralska mótinu en Johansson í Wimbledon.
Það vekur athygli, að rússneska tennisdrottningin fyrrverandi, Maria Sharapova, er mætt aftur til leiks, eftir tæplega árs fjarveru vegna meiðsla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.