Franskir hægrimenn og umhverfissinnar sigra - Sósíalistar gjalda afhroð

Franskir hægrimenn (UMP) og umhverfissinnar (Europe Ecologie) fögnuðu sigri í kosningum til Evrópuþingsins, sem fram fóru í gær. Sósíalistar (PS) guldu afhroð - ekki síst á Parísarsvæðinu - og einnig flokkur Francois Bayrou (MoDem).  Úrlitin þykja sigur fyrir stjórn Nicolas Sarkozy forseta þar sem ekki tókst að snúa óánægju vegna efnahagskreppunnar gegn stjórn hans. Flokkur hans fékk um 27,87%  atkvæða og 29 menn á Evrópuþingið, hafði 18. EE fékk 16,28% atkvæða og 14 þingmenn, hafði 6. Sósíalistar fengu nánast sömu atkvæðatölu, 16,48%, og 14 þingmenn líka, en höfðu 31.

MoDem, flokkur Bayrou, fékk 8,45% atkvæða og 6 þingmenn en hafði 10. Þjóðfylking Jean-Marie Le Pen hlaut 6,3% fylgi eða helmingi minna en 2004 og 3 þingmenn en hafði 7. Var Le Pen endurkjörinn. Hægrimaðurinn Philippe de Villiers náði endurkjöri fyrir flokk sinn sem fékk 4,6% atkvæða og 1 þingmann en hafði 3.  Vinstrifylkingin, kosningabandalag  Jean-Luc Melenchons og Kommúnistaflokksins fékk 6,0% og 4 þingmenn, hafði 3.  Flokkur Olivier Besancenot, Anti-kapítalistaflokkurinn (NPA), hlaut 4,9% atkvæða og enga þingmann, hafði engan áður. NPA var lengi með einn mann inni en þegar endanleg úrslit lágu fyrir í morgun hafði hann flust yfir til hægriflokksins  Diverse Droite sem hlaut 6,7% atkvæða.

Þátttakan í kosningunum í Frakklandi var aðeins 40,48%. Var ögn meiri fyrir fimm árum eða 42,76%.

Margir frammámenn í PS sögðu úrslitin alvarlegar ófarir sem draga yrði lærdóm af. Pierre Moscovici sagði gjörbreytinga þörf, í ætt við breytingar sem Sarkozy hefði gert á UMP á sínum tíma. Án uppstokkunar og nýrra viðhorfa myndi PS deyja út. Aurelie Filipetti, náin stuðningskona Segolene Royal, sagði afrakstur PS jafngilda pólitískum náttúruhamförum. „Nú í kvöld er staðreyndin sú, að Sarkozy vann kapphlaupið og stjórnarandstaðan, sem er í meirihluta í landinu, er í tætlum,“ sagði Moscovici á kosningakvöldi ríkissjónvarpsstöðvarinnar France2.

Sósíalistar gjalda afhroð á Parísarsvæðinu

Einkar sár þótti sósíalistum niðurstaðan í París þar sem flokkurinn hefur verið öflugur undir forystu Bertrand Delanoe borgarstjóra. Fékk hann langleiðina helmingi færri atkvæði en UMP og tapaði einnig í öllum 20 hverfum borgarinnar fyrir Europe Ecologie, flokki Daniel Cohn-Bendit.  Moscovici sagði þessa niðurstöðu vera "jarðskjálfta".

Sósíalistar háðu kosningabaráttu sína fyrst og fremst með því að ráðast gegn Sarkozy og stjórn hans. Hvöttu til þess að dómur yrði felldur yfir verkum hennar vegna efnahagskreppunnar. Hófsamur frammámaður í PS, þingmaðurinn Manuel Valls, sagði það hafa verið misheppnaða pólitík, úrslitin sýndu það. Hefði það háð sósíalistum að hafa ekki einbeitt sér að Evrópumálum í stað þess að ráðast að Sarkozy.

Flokksformaðurinn Martine Aubry var auðmjúk í ávarpi er niðurstaðan var ljós. Sagði flokk sinn enn sem komið væri ekki þykja nógu trúverðugan og þurfa ganga í gegnum gagngera endurnýjun. „Ég tek ábyrgð á þessu og leita ekki utanaðkomandi skýringa. Úrslitin eru ákall til okkar sem ég skil og tek undir,“ sagði Aubry. Og sagði PS þurfa einhenda sér í að skapa sér nýja stefnu er kæmi til móts við „vonir og væntingar“ þjóðarinnar. Hefur miðstjórn PS verið kvödd saman annað kvöld en þar er t.a.m. búist við að Segolene Royal tjái sig fyrst um úrslitin. 

Persónulegt áfall fyrir Bayrou 

Niðurstaða kosninganna þykja einkar slæmar fyrir François Bayou. Hið sama átti við um flokk hans og PS að uppskeran er langt undir því sem kannanir höfðu bent til. Þær höfðu bent til 11-14% fylgis en flokkurinn fékk 8,4%.

Vegna sundrungar í röðum Sósíalistaflokksins allt frá forsetakosningunum 2007 hafði Bayrou gert sér vonir um að draga PS uppi nú og styrkja stöðu sína með tilliti til forsetakosninganna 2012; verða þar öflugasti valkosturinn gegn Sarkozy.

Af Bayrou hálfu snerist kosningabaráttan mikið til um gjörðir Sarkozy á forsetastóli en ekki Evrópukosningarnar. Þegar ítrekaðar skoðanakannanir sýndu að hann þyrfti að auka fylgið verulega til að draga á PS hóf hann harðan áróður gegn skoðanakönnunum. Sagði þær vera tól Sarkozy og niðurstöðum þeirra hagrætt gegn sér. Niðurstaðan er að þær sýndu flokk Bayrou með allt að 50% meira fylgi en hann fékk og engin þeirra var neitt í líkingu við uppskeru flokksins. Þykja úrslitin mikill persónulegur ósigur fyrir Bayrou og ef eitthvað er; skaðað hann gagnvart næstu forsetakosningum, 2012. 

Þessu til viðbótar er hann og talinn hafa tapað á persónulegum árásum á Cohn-Bendit í sjónvarpsþrætu þeirra sl. fimmtudagskvöld. Erfitt er að segja til um áhrif þess en sýnt þykir að eitthvað af stuðningsmönnum MoDem hafi snúið baki við Bayrou eftir það og farið yfir til EE.

Kaghýddir með eigin vendi?

Uppskera flokks Sarkzoy er í anda skoðanakannana síðustu vikurnar. Samkvæmt þeim jóks fylgi hans eftir því sem nær dró kjöri, ef eitthvað er. Ráðherrarnir Brice Hortefeux, Michel Barnier og Rachida Dati sögðu tíðindi kosninganna þau, að kjósendur hefðu lagst með þeim flokkum sem buðu upp á tillögur og stefnu í málefnum Evrópu en hafnað flokkum sem hefðu aðeins boðið upp á gagnrýni á Sarkozy og hvatt hefðu kjósendur til að refsa ríkisstjórn hans. Xavier Bertrand, formaður UMP,  sagði að vopnin hefðu snúist í höndum sósíalista og þeir í raun verið kaghýddur með eigin refsivendi.

Hortefeux, Barnier og Dati náðu öll kjöri til Evrópuþingsins og hverfa því væntanlega von bráðar úr stjórn Sarkozy.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband