27.6.2009 | 14:30
Rossi vinnur 100. kappaksturinn
Aldrei hef ég verið neitt fyrir mótorhjól, þ.e. aldrei haft löngun til að ferðast á slíkum fákum. Tek reiðhjólið og bílinn fram yfir. Það getur hins vegar verið gaman að horfa á keppni á mótorhjólum. Því langar mig að halda því til haga, að ítalski knapinn frái, Valentino Rossi, vann í dag sinn hundraðasta kappakstur í HM á mótorhjólum, MotoGP.
Afrekið vann Rossi, sem keppir fyrir Yamaha, á HM-móti sem fram fór í Assen í Hollandi í dag. Annar varð liðsfélagi hans Jorge Lorenzo frá Spáni og þriðji Ástralinn Casey Stoner, sem ekur á Ducati.
Rossi hefur margoft orðið heimsmeistari á mótorhjólum og stefnir hraðbyri að titlinum í ár. Aðeins einn annar knapi hefur unnið 100 mót í æðsta flokki HM á mótorhjólum. Þar er um að ræða annan Ítala, Giacomo Agostini.
Athugasemdir
Frábært afrek en þú ættir nú að gefa mótorhjólunum séns Gústi, það er gaman að geysast á góðu hjóli, þó ekki sé verið að keppa á þeim. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 28.6.2009 kl. 08:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.