Jeannie Longo - Ótrúlega seig frönsk afrekskona

Franska hjólreiðakonan Jeannie Longo hefur lengi verið að og unnið margt afrekið. Um helgina varð hún franskur meistari í 56. er hún vann kapp við klukkuna á franska meistaramótinu, sem fram fer um helgina í og við borgina Saint Brieuc á Bretaníuskaga.

Það sem fertugur getur, gerir fimmtugur betur, var einhvern tíma sagt. Það sannas á Longo sem er á 51. aldursári. Á ólympíuleikunum í Peking í fyrra varð hún hálf svekkt yfir því að hljóta aðeins fjórða sætið í tímareið, keppni við klukkuna.

Fyrsta franska meistaratitilinn vann Longo árið 1979 eða fyir 30 árum. Eftir að hafa unnið tímareiðina keppti hún í 115 km einstaklingskeppni kvenna daginn eftir en varð þriðja, tapaði tveimur áratugum yngri konum fram úr sér á lokametrunum.

Longo hefur á ferlinum unnið 106 verðlaunapeninga á ólympíuleikjum, heimsmeistaramótum og frönsku meistaramótunum. Þar á meðal eru ein gullverðlaun frá í Atlanta 1996 er hún varð ólympíumeistari á götuhjóli. Í safni þessu eru einnig frönsk stúlknameistaraverðlaun á skíðum frá 1973, héraðsmeistaramótsgull í kringlukasti unglinga frá 1975 og 800 m hlaupi 1976.

Sex sinnum hefur hún unnið bæði tímareiðina og götureiðina á franska meistaramótinu, síðast í fyrra. Sjöunda tilraunin nú gekk ekki upp, eins og fyrr segir. Alls hefur Longo unnið 1.069 kappreiðar á hjólaferlinum. Meðal afreka hennar eru heimsmet í klukkundarreið á lokaðri braut. Það setti hún í þunna loftinu í Mexíkó árið 2000 og lagði þá að baki 45.094 metra.

Samkvæmt könnun á vegum íþróttadagblaðsins L'Equipe er Longo sjötti vinsælasti íþróttamaður Frakklands um þessar mundir - og fremsta konan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband