4.7.2009 | 07:52
Frakklandsreiðin að hefjast - augu allra á Armstrong
Frakklandsreiðin, Tour de France, hefst í dag með einstaklingskeppni í kapp við klukkuna. Þetta er í 96. sinn sem túrinn fer fram, en honum hefur verið lýst sem erfiðustu íþróttakeppni heims. Það hefur aukið á athygli og eftirvæntingu fyrir keppninni í ár, að bandaríski knapinn Lance Armstrong er snúinn aftur til keppni.
Armstrong vann Tour de France á sínum tíma sjö sinnum í röð, sem er einstakt í sögu keppninnar. Löngum hefur loðað við hann að hafa beitt óleyfilegum meðölum til að ná þessum árangri og ekki hefur vantað á að jafnvel gamlir sigurvegarar - eins og landi hans Greg Lemond - hafa haldið slíku fram opinberlega.
Aldrei hefur þó neitt misjafn sannast á Armstrong. Vissulega voru lyfjapróf færri þegar hann var upp á sitt besta og framleiðendur jafnvel langt á undan eftirlitinu. Öldin er líklega önnur núna og síðast í þessari viku var hollenskur hjólreiðagarpur, Tomas Dekker, felldur á grundvellil sýnis frá í desember 2008.
Og Armstrong til stuðnings hefur hann sætt hvorki fleiri né færri en 55 lyfjaprófunum það sem af er þessu ári. Í viðtali við franska sjónvarpsstöð sl. sunnudag kom t.d. fram, að einn daginn nýlega hafi hann verið prófaður tvisvar sama daginn - af sitthvoru eftirlitinu!
Frönskum almenningi er afar illa við sviksemi í íþróttum og margir gruna Armstrong um græsku. Því má hann búast við misjöfnum móttökum á reiðinni, ekki síst ef hann er í keppni um toppsæti. Vonandi fær hann þó frið og frelsi til að glíma við keppinauta sína. Hann hefur undirbúið sig einstaklega vel og hef ég enga trú á öðru, en hann verði í fremstu röð þótt flestir toppmannanna séu um og yfir 10 árum yngri.
Í gær vann belgíski hjólreiðagarpurinn Tom Boonen mál fyrir áfrýjunardómstól frönsku ólympíunefndarinnar og getur keppt. Frönsku framkvæmdaraðilarnir höfðu hafnað þátttöku hans á þeirri forsendu að hann hafi verið fundinn sekur af notkun kókaíns í apríl. Slíkt skemmtanadóp utan íþróttakeppni mun ekki bannað.
Mótshaldarar héldu því engu að síður fram, að marg skjalfest fíkniefnanotkun Boonen setti óæskilegan og skaðlegan blett á Túrinn. Fíkniefnaneysla sannaðist einnig á Boonen í fyrravor og kom þá í veg fyrir þátttöku hans í Frakklandsreiðinni. Boonen er einstaklega öflugur á endaspretti ef hann er annars vegar í fremstu röð þegar á sprettinn kemur. Fjöllin hafa hins vegar löngum verið honum Þrándur í Götu.
Hvað sem öllu líður, þá verð ég límdur við sjónvarpið næstu þrjár vikurnar meðan Tour de France fer fram. Gamanið byrjar í Mónakó í dag með rúmlega 15 km keppni í kapp við klukkuna. Keppendur eru sendir af stað með nokkurra mínútna millibili og hjóla um götur furstadæmisins.
Armstrong er í hópi þeirra sem sigurstranlegastir teljast í ár. Þar er einnig sigurvegarinn frá í fyrra, Spánverjinn Carlos Sastre, Christian Vande Velde og sigurvegarinn frá 2007, Alberto Contador sem er í sama liði og Armstrong, Astana. Keppnisleiðin er sögð henta klifrurum betur en öðrum og þar eru allir farmangreindir á heimavelli, sérstaklega þó Sastre.
Alls er keppnisvegalengdin um 3.500 km og dagleiðirnar 21. Lýkur Frakklandsreiðinni í París sunnudaginn 26. júlí.
Athugasemdir
Skil ekki karlmenn sem nenna að horfa á hjólandi karla á túr í tríkói í tæpan mánuð. Heldur ekki konur sem nenna að horfa á hjólandi karla á túr í tríkói í tæpan mánuð.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 4.7.2009 kl. 08:07
Thetta er dóp íthróttagreinin. Lance Armstrong er ömurlegur persónuleiki. ÖMURLEGUR. Nei...ég verd ad taka undir med Villa Erni í athugasemd #1
Lance Dópi Armstrong (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 14:35
Konur keppa líka í hjólreiðum og eru hörku sprækar. Eru að vísu ekki í þessari keppni. Um hjólreiðarnar má segja, að lyfjapróf eru margfalt fleiri í þessari íþrótt en nokkurri annarri, hvernig sem á það er litið. Auðvitað eru alls staðar svindlararm, því miður, í þessari grein sem öðrum. En þeir týna tölunni jafnt og þétt vegna eftirlitsins harða utan keppni sem innan.
Ágúst Ásgeirsson, 4.7.2009 kl. 14:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.